Bókaárið

Ég nenni ekki að setja bókaárið upp í excel einsog ég gerði í fyrra. Það er líka eitthvað óskáldlegt við það, finnst öðrum, ekki mér, en ég er hégómagjarn og vil ekki að fólk geri grín að mér svo ég sleppi því bara. Við höldum samt lestrardagbók fjölskyldan og setjum okkur meira að segja markmið um lestur, svo ég veit hvað ég las. Í ár sýnist mér að Aino verði ein um að ná sínum markmiðum (og færi langt fram úr þeim ef það mætti telja með endurhlustun á hljóðbókum). Að því gefnu að ég klári enga bók það sem eftir er dags – sem er ólíklegt í ljósi þess að ég kláraði bók í gærkvöldi (Rambó er týndur) og hef ekki í hyggju að byrja á annarri fyrren í fyrsta lagi eftir miðnætti – verð ég fimm bókum frá markmiðinu með 95 lesnar bækur. Sem er meðalár hjá mér en talsvert lægra en árið á undan – samfélags- og vefmiðlalausa árið. Eftirminnilegasta bókin er endurlesturinn á Búddenbrooks og hugsanlega ekki bara af því ég kláraði hana fyrir örfáum dögum. Annað eftirminnilegt var t.d. Kramp eftir Maríu José Ferrada frá Síle, The Flaw eftir Antonis Samarakis frá Grikklandi, Hör bara hur ditt hjärta bultar i mig eftir Bodil Malmsten frá Svíþjóð, Book of Dave eftir Will Self frá Englandi, endurlestur á Generation X eftir Douglas Coupland frá Ameríku og úr jólabókaflóðinu Armeló eftir Þórdísi Helgadóttur frá Íslandi. Þá var mjög eftirminnilegt að lesa Monsieur Ibrahim et les fleurs du Coran því þótt mér hafi ekki þótt bókin frábær – hún er ágæt, en kannski full poppuð fyrir minn smekk – þá var þetta fyrsta „alvöru“ bókin sem ég las á frönsku. Og ég hef í hyggju að halda áfram frönskunámi mínu á nýja árinu (ég er ekki jafn sleipur í henni og maður gæti ímyndað sér, af því að dæma að ég hafi lesið heila skáldsögu á frönsku – það var ekki síst gert á þolinmæðinni). Einsog ég hef stundum nefnt er sjaldgæft að ég lesi ljóðabækur spjaldanna á milli nema þær séu beinlínis til þess gerðar – ég „grúska“ mest í ljóðum, er með lifandi bókaskáp við skrifborðið í vinnunni, kippi út bókum eftir behag og löngun, les smá, hef liggjandi á glámbekk og skila viku síðar. En eftirminnilegustu ljóðabækurnar sem ég las í gegn voru Jag är ingen mördare eftir UKON, Gluggi Draumskrá eftir Ástu Fanneyju, Anatómía fiskanna eftir Sölva Björn Sigurðsson og svo hin fallega Íslenskir málshættir eftir Birtu Ósmann, sem inniheldur myndljóð í anda klassískrar bókar Óskars Árna Án orða, sem kom út í ritröð Bjarts og frú Emilíu. Í ár ætla ég að lesa enn færri bækur en reyna að hafa þær svolítið langar – ég er búinn að gera smá lista yfir bækur sem ég á ólesnar, langa klassík. Ég ætla ekki að birta hann núna en þessar bækur munu sjálfsagt koma fyrir á blogginu eftir því sem þær klárast. Kannski stefni ég bara að þessum klassísku 52. Það er a.m.k. skylda að setja einhverja tölu í kladdann. *** Af persónulega sviðinu er ég strax búinn að gleyma öllu sem gerðist. Enda gerist ekkert nema í skáldskap. Jú, ég fór í reisu um landið, sem var skemmtileg. Við Nadja vorum í Frakklandi að frílysta okkur í tvær vikur í sumar. Og ég annað eins í Svíþjóð (en hún lengur). Ég teygði líka á einni bókamessuferð til Grikklands og eyddi aukaviku í Aþenu. Í ár er útlit fyrir a.m.k. eina aðra bissnissferð til Grikklands, mánaðardvöl í Bangkok hjá mági mínum, ljóðahátíð í Póllandi, einhvern þvæling um Svíþjóð, vinaferð til Napólí og svo blóðlangar mig til Frakklands til að æfa frönskuna mína, en hef ekki hugmynd um hvernig ég á að koma því fyrir innanum allan hinn þvælinginn, ef ég ætla líka að koma einhverju í verk (og ekki eyðileggja plánetuna með koltvísýringsfrekju). Því það er líka viðbúið að ég fari í fleiri bissnissferðir. Ég er svo mikill bissnisskall. Ég gaf út bók. Hún gekk vel. Hún er ennþá til og kemur út í kilju og svo vona ég að hún verði þýdd eitthvað og síðan verði gerð bíómynd – eða kannski öllu heldur sjónvarpsþáttaröð, hún hentar í slíkt – einhver vefi söguþráðinn í veggteppi, skrifi upp úr honum epískt ljóð, kóði hann í bakteríu og sendi út í geim svo hún megi lifa að eilífu. Eiginlega finnst mér það lágmark. En það er kannski bara ég. Annars er framtíðin frekar óráðin. Ég er langt kominn með ljóðabók sem ég veit ekkert hvað mér finnst um. Ef ég sættist ekki við hana kemur hún sjálfsagt aldrei út. Skáldsagnapælingar eru ekkert nema óljósar glósur hingað og þangað – ég er alltaf að skipta um skoðun. Mig langar að klára að þýða a.m.k. eitt styttra verk, sem er samt talsverður höfuðverkur. Það er orðið langt síðan að ég þýddi eitthvað af viti. En fyrst og fremst langar mig í – einsog alltaf, alltaf, alltaf – hugarró og lágmarks sjálfsþekkingu.