Maður segir varla neitt nýtt um Búddenbrooks úr þessu. Ég las hana fyrst þegar hún kom út í íslenskri þýðingu Þorbjargar Bjarnar Friðriksdóttur fyrir aldarfjórðungi síðan – hugsanlega þetta sama eintak og ég tók nú aftur á bókasafninu. Ég fæ merkilega mikið út úr því að geta loksins sagst hafa gert jafn fullorðinslega hluti fyrir „aldarfjórðungi“ – og þetta var meira að segja á síðustu öld, sömu öld og bókin kom út. Það er hefð að taka það fram, þegar Búddenbrooks er til umræðu, að það sé hálfsturlað að þetta sé verk rétt rúmlega tvítugs manns – hann er 26 ára þegar hún kemur út – það hefur aldrei neitt verið skrifað um Búddenbrooks án þess að þess sé getið, og engin furða, enda er það hálfsturlað. Látum vera að hafa jafn breiða innsýn í félagslegan veruleika 19. aldarinnar en að hafa ofan í kaupið jafn agaðan talent – því þetta er engin On the Road, ekki persónu- eða tíðarandalýsing skrifuð af tilfinningu, æskuástríðu og látum, heldur vandlega stúderað listaverk fullt af Wagnerískum leitmótífum, sem spannar fleiri áratugi, inniheldur fjölda sögupersóna, stekkur til í stílum og stemningum og endar á hálfmódernískum nótum. Ef maður vill fá ærslafullt og eðlilegt „æskuverk“ frá Thomasi Mann væri nær að opna Felix Krull – sem Mann náði ekki að klára, hálfáttræður, vegna þess að hann dó (ég vissi reyndar ekki að hún væri ókláruð þegar ég las hana fyrst og fannst endirinn bara fínn – fínt að gera punkt þarna og í takti við fjörið í bókinni). Búddenbrooks segir frá hnignun samnefndrar fjölskyldu, einsog frægt er, á tæplega fimm áratugum. Aðalsöguhetjur eru nokkrar og fer sennilega svolítið eftir því hvar maður fókuserar sjálfur í lestrinum – ég hékk mest í Tómasi og Tóný systur hans, en finnst einsog ég hafi meira verið að spá í Kristjáni og Hannó síðast. Tómas er sá sem fær forstjórastólinn í arf og þar með framtíð fjölskyldunnar og Tóný er systir hans, kraftmikil og þrjósk, jafnt þegar hún vill vera dramatísk og þegar hún er í aktífri bælingu á eigin hvötum. Heimspekilegu átök bókarinnar eru milli viðskipta og lista annars vegar, og einstaklings og fjölskyldu hins vegar. Eða jafnvel bara milli einstaklings og einhvers konar heildar – hvort maður sé kraftaverk í sjálfum sér eða kraftaverk í nafni þess hlutverks sem maður gegnir í heildinni, hvort maður sé „nóg“ eða hvort það sé nóg að sinna hlutverki sínu gagnvart hinu stóra (sem í Búddenbrooks er Búddenbrooks – fyrirtæki og fjölskylda). Mann svarar þessu ekki beinlínis þótt ljóst sé að öld eintaklingshyggjunnar sé að ganga í garð þegar bókinni lýkur – en bókin er undarlega markeruð af einhverri blöndu af kærleika og svartsýni; fólk er gott og gallað, kærleiksríkar smásálir, fórnarlömb aðstæðna sinna og skaparar sömu aðstæðna, og það er eiginlega alveg sama hvaða afstöðu maður hefur gagnvart þessum átökum hins skapandi einstaklings og hins skyldurækna fjölskyldumeðlims, allt stefnir til glötunar hvort eð er. Fjölskyldumeðlimurinn deyr vegna þess að fjölskyldan deyr – fer niður með skipinu – og einstaklingurinn deyr vegna viðkvæmni sinnar, ýmist fyrir hálfgerða tilviljun, eða vegna þess að hann er sér ber að baki bróðurlaus. Bókin kom út 1902 og hlýtur að hafa slegið mann öðruvísi þá, þegar evrópubúar eru kannski að miklu leyti að reyna brjótast út úr fjölskyldu- og hefðarklöfum – hún lýsir kæfandi veruleika og ákveðnu öryggisleysi gagnvart því sem muni taka við, nú þegar hann hefur gengið sér til húðar. Ríflega 120 árum seinna er einstaklingshyggjan allsráðandi og tilhugsunin um að einhver fórni einhverju fyrir fjölskyldu sína fáránleg – við stöndum að vísu gjarnan í rifrildi um það hver fórni sér mest, en það eru píslarvættislæti þess sem vill fá að gera minna fyrir hina og meira fyrir sig. Og við stundum þessi rifrildi alltaf með stórri prófílmynd, jafnvel sem talandi tilhafðir hausar í storys. Með filter. Ég er ekki endilega að segja að það sé verra – það fer eftir fleiri þáttum – en þetta er allavega eitthvað allt annað, og kannski ekki lífvænlegra til lengdar en þessi áhersla á dygð skyldunnar. Hvað um það. Þessi endurlestur var sennilega með áhugaverðari lestrarupplifunum ársins – og ánægjulegri. Meðal þess sem mér varð ljóst er hvers vegna ég lenti í þrætum við alla fjölskylduna þegar við horfðum saman á Titanic fyrr í ár – en aðstæðum Rose í Titanic og Tóný í Búddenbrooks svipar nokkuð saman, báðar eiga að giftast manni sem þær vilja eiginlega ekki eiga, og verða ástfangnar af öðrum (hugsanlega má reyndar ímynda sér að Jack eigi sér minni hliðstæðu við lækninn sem Tóný verður fyrst ástfangin af, og meiri við hinn lífsglaða seinni eiginmann hennar, Permaneder – sem veldur Tóný vægast sagt vonbrigðum fyrir rest). Þrætur mínar við fjölskylduna sneru að því hvort Rose bæri einhverja ábyrgð á hlutskipti sínu sjálf – mér fannst blasa við að þetta kjarnakvendi væri líklegri til þess að hafa grafið sér þessa gröf að einhverju leyti sjálf, hugsanlega af fórnfýsi en alls ekki sökum þvingunar (meira að segja sjálfsmorðstilraun hennar er til marks um að hún vilji ekki láta stjórna sér). Í Titanic kemur auðvitað ekkert fram um það hvernig Rose lendir í þessum aðstæðum – þetta er einföld ævintýraklisja, prinsessan á að giftast vondum prins – en í Búddenbrooks er því öðruvísi farið, þar er ljóst að Tóný er gerandi í eigin lífi og þegar til kastanna kemur er það hún sem vill stuðla að glæsileika fjölskyldunnar, jafnvel á kostnað eigin hamingju. Hún er fórnarlamb sömu félagslegu aðstæðna og aðrir – frekar en að hún sé frjáls en viljalítill andi kúgaður af félagslegum kröfum annarra. Einsog aðrar persónur bókarinnar er hún ekki síst þolandi sjálfrar sín – og ég hef túlkað Rose í ljósi Tónýar og ekki viljað sjá hana sem hlýðin hvolp móður sinnar, sem er auðvitað ekki nærri því eins áhugavert (eða trúverðugt) og að hlýðni hennar sé við sjálfa sig sem óaðskiljanlegan hluta af heildinni. Rose er ekki bara Rose, hún er líka mamma sín, einsog Tóný er ekki bara Tóný heldur líka Búddenbrook.