Jólaskýrsla

Það besta við jólin í ár var samveran í eldhúsinu. Aram Nói var á kartöfluvaktinni – gerði æðislegar ofnbakaðar kartöflur með rósmarín. Aino gerði yndislega ís/ostaköku eftir uppskrift frá mömmu sænskrar vinkonu sinnar og jarðarberjakompott með. Nadja gerði finnskt lanttulaatikko og kjötlausar kjötbollur. Allt var þetta mjög gott og það fór vel um okkur sýslandi hvert ofan í öðru í litla eldhúsinu. Ég hins vegar klúðraði hamborgarhryggnum af fádæma fávitaskap. Ég var búinn að vera í talsverðri tilvistarkrísu með jólaundirbúninginn allan saman. Í mótþróa við allar hefðir og allt vesen og hafði ítrekað sagt að eiginlega langaði mig mest bara að gera góðan pastarétt. Eða panta pizzu. Við erum auðvitað með ríflega tvöfaldan skammt af hefðum í þessari fjölskyldu – ofan á allt hið íslenska, með sínum 13 jólasveinum, laufabrauði, rauðkáli og grænum baunum, kemur allt þetta sænska, með sínum útvarps- og sjónvarpsdagatölum, jólasokkum, jólarímum, jultomtar, síld og kjötbollum og prinskorv, og svo eitthvað slangur af þessu finnska, með sínu lanttulaatikko, pírökum og Varpuunen jouluaamuna. Það er ekki margt eins – kannski helst piparkökurnar. Stundum er það alveg í það mesta. Og þegar við bætist að sum árin hefur maður haft metnað og grafið laxinn sjálfur, hrært allar sósurnar sjálfur, bakað brauðið, lagt inn síldina – já, í stuttu máli var ég sennilega bara svolítið þreyttur yfir tilhugsuninni. Síðast þegar við héldum jól heima, fyrir tveimur árum, fór þetta líka allt í handaskolum – þá bloggaði ég svo: Ég hef annars átt betri daga í eldhúsinu. […] Hangikjötið sauð ég sennilega of lengi. Það var allavega ólseigt. Steikti mörg laufabrauðanna of stutt líka (og brauðið sem við keyptum í bónus stenst ekki gæðasamanburð við brauðið sem við keyptum alltaf í gamla bakaríinu). Franskbrauðið bara hefaðist ekki og fór í ruslið (átti bónusfranskbrauð sem var þá með laxinum). Gróf aldrei lax, keypti bara. Graflaxasósan varð pínu beisk – góða repjuolían gerir þetta stundum þegar maður hrærir hana, ég man það alltaf of seint. Svipuð sósan í sinnepssíldinni var miklu betri. Súkkulaðifondantarnir gusu allir fyrir tímann. Rækjukokteillinn var samt mjög góður og andaconfitið líka og jarðarberjasósan og mér skilst að vegan-hangikjötið hafi verið fínt. Sósurnar (hvíta með kartöflunum og brúna með öndinni) voru of þykkar. Mér var ráðlagt að gera hamborgarhrygg. Það væri eiginlega ekki hægt að klúðra honum. Sjóða hann í klukkara, grilla í 20 mínútur með einföldu gumsi og éta. Hryggurinn sem ég endaði með var bónushryggur sem ég hafði keypt af fólki sem hafði sjálft keypt of stóran og ætlaði að fá sér minni. Þegar ég ætlaði að fara að sjóða hann á aðfangadag tók ég eftir því að á umbúðunum stóð að það „þyrfti ekki að sjóða hann“. Og einsog það gáfnaljós sem ég er ályktaði ég að það þýddi að maður þyrfti bara að grilla hann í tuttugu mínútur með gumsi – þetta væri forsoðið, hálfgerð jólapulsa. Sem svo reyndist ekki vera og ég – sem hef svo til enga reynslu af hamborgarhryggjum – bar skepnuna fram nánast spriklandi hráa. Rækjukokteillinn var samt góður og maltsósan var mjög vinsæl einsog mangósalatið. En þetta er eitthvað skrítið. Ég er að vísu svolítill hamfarakokkur stundum og metnaðurinn hefur farið sígandi undanfarin misseri – ég hef verið alveg ógurlega matarboðalatur bæði í ár og í fyrra. Og mér til afsökunar var ég víst líka með nokkrar kommur. Hvað um það. Það var nóg til af öðru og allir stóðu mettir upp frá borðum. Af gjöfum er það helst að frétta að Aram gaf mér Don Kíkóta á norsku – afar fallega útgáfu frá 1916 – og Aino gaf mér frumsamið ljóð. Þau fengu ýmislegt, meðal annars Ludwig sneriltrommu (Aram) og risavaxið Harry Potter legó (Aino). Við Nadja gáfum hvort öðru – óvænt – hótelnætur í Svíþjóð, hjá sömu keðju. Hún gaf mér tvær nætur á Elite Hotel í Malmö og ég gaf henni eina á einu stærsta tréhóteli heims – 20 hæða Wood Hotel í Skellefteå – og ferð með næturlest. Ég veit ekki hvað það segir um samstig okkar í lífinu að við gefum svona svipaðar gjafir eða ósamstig að hún stefni mér í sæla suðrið á meðan ég sendi hana norður í rassgat (ferðirnar eru vel að merkja fyrir okkur bæði – við ætlum ekki í hvort í sína áttina). Það verður allavega skottast um Svíþjóð í sumar. Ég hef síðan verið að endurlesa Búddenbrooks milli máltíða. Það er mjög gaman. Eftir áramót ætla ég að slökkva á samfélagsmiðlum og netfréttalestri og einbeita mér að lífinu í kringum mig. Af því hef ég mjög góða reynslu. Ég mun áfram blogga og vilji fólk fylgjast með ræð ég því að skrá sig á póstlistann (það er reitur hérna hægra megin, allt mjög einfalt).