Allt líður svo hratt já. Meira að segja það sem lendir í deiglunni – nær athygli í þessu athyglissjúka samfélagi – líður hjá á örskotsstundu. Og skiptir eiginlega engu hvort um ræðir verk sem var mörg ár í smíðum eða status sem er hent fram í bríaríi. Allt er frægt í korter og svo ne’ermore. Fyrir nokkrum dögum voru allir að tala um nýja uppistandið hans Dave Chappelle – Sticks & Stones. Og sitt sýndist nú hverjum! Dave Chappelle er grínisti af Richard Pryor skólanum – stundar kaþarsis í krafti miskunnarleysis og potar bara í viðkvæmu blettina, vitlausu beinin. Hann er mjög fyndinn, svona oftast nær, en líka oft hreinlega óþægilegur. Kenningar sem ganga út frá því að húmor hafi alltaf með vald að gera – sem eru ekki alveg út á túni – eiga það til að smætta það þannig niður að við hlæjum bara að óförum þeirra sem okkur er illa við. Nasistar hlæja að óförum gyðinga og gyðingar hlæja að óförum nasista. En þetta er ekki alveg satt. Gyðingar í helförinni hlógu að eigin aðstæðum – gerðu skrítlur – og nasistar gerðu skrítlur um sínar aðstæður (margir þeirra voru auðvitað fremur valdlitlir um eigin aðstæður, herkvaddir unglingar á stríðstímum). Fólk sem tekst á – nú læt ég nasistana og gyðingana til hliðar, er meira að hugsa um kannski saklausari átök barna og fullorðinna, eða bara fólks sem er ósammála, íhaldsmanna og frjálslyndra – léttir líka á spennunni milli sín með því að gera gys hvert að öðru og að sjálfu sér. Slíkt ástand léttúðar gengur ekki upp ef það grínið fer ekki í báðar áttir – þá afhleður það ekki spennuna heldur skapar undantekningarástand, svipað því þegar trúðurinn fær að gera grín að kónginum sem hneigir sig bara og kímir, því hann veit að hann getur afhausað trúðinn hvenær sem honum sýnist. Grín af þessari tegund getur alveg verið nastí – getur verið yfirgangur (og ég held það verði allir sekir um það af og til að hreyta út úr sér einhverri fyndni í andrúmslofti sem fylgir alls engin léttúð heldur bara beiskja) en tilgangur þess er afhleðslan. Í samfélaginu einsog það lítur út í dag – vestrænu samfélagi, þar sem eiginlegri ritskoðun er mætt af hörku og alls kyns lög og sáttmálar verja málfrelsið – er kóngurinn bara við. Trúðurinn fer upp á svið til að gera grín að okkur – samfélaginu, strúktúrnum, jöðrunum og fyrst og fremst þeim breytingum sem eiga sér stað á samfélagsgerðinni „um þessar mundir“. Tvær mögulegar afhausanir eru í boði. Annars vegar getum við hætt að hafa gaman af grínistanum, misst þolinmæðina og einfaldlega beint athyglinni annað. Hins vegar getum við „afboðað“ grínistann – vafið þræði fordæmingar inn í samfélagsmiðlavefnaðinn þar til manneskjan verður persona non grata, glatar trúverðugleika sínum og trausti. Dæmið sem Chappelle tekur í uppistandi sínu er Kevin Hart – sem átti að fara að vera kynnir á Óskarsverðlaununum þegar einhver gróf upp gömul tíst af Twitter þar sem hann gerði mjög gróteskt grín um viðbrögð sín við því ef börnin hans reyndust samkynhneigð. Dæmin eru mýmörg – flest þeirra hafa reyndar ekki með orð að gera heldur meintar gjörðir. En grínistar einsog Chappelle sjálfur, Ricky Gervais og fleiri hafa mátt þola að nærveru þeirra fylgi alltaf þetta aukabragð hinna mórölsku tíma: Má ég hlæja að þessu? Eitt af því sem mér finnst óþægilegt og áhugavert og skemmtilegt og glatað og frábært við grín er að stundum hlær maður að hlutum sem manni finnst eiginlega ekki fyndnir. Eða, þið vitið, maður hlær að einhverju sem manni finnst ógeðslegt. Maður hlær jafnvel að gríni sem er gert á manns eigin kostnað og snýst um eitthvað sem maður er mjög viðkvæmur fyrir. Ég hef hlegið að brandara um snjóflóðin í Súðavík – 10 sekúndum áður en ég húðskammaði viðkomandi fyrir að segja hann og svo barðist það í mér árum saman hvort ég hefði átt að skamma hann. Nú man ég ekki einu sinni lengur brandarann eða hver sagði hann en ég man bara viðbrögðin mín – man hláturinn, sem var óþægilegur en samt þægilegur (því hlátur er alltaf líka góður, þess vegna er hann svona hræðilegur í hræðilegum aðstæðum, út af kontrastinum og út af kaþarsisinu – sem manni finnst maður ekki alltaf eiga skilið eða mega njóta þegar maður á að þjást). Chappelle er svolítið fastur í því að kommenta á þetta. Ég held að grínistar vinni margir út frá árátturöskun og ef maður er grínisti í samfélagi dagsins í dag – sérstaklega grínisti sem náði fótfestu á tíunda áratugnum eða jafnvel bara þeim fyrsta – þá hljóti þetta að vera manni ofarlega í huga alltaf þegar maður stingur niður penna til að skrifa eitthvað. Má ég þetta? Hvað gerist ef ég segi þetta? Sumir geta bara farið að hugsa um eitthvað annað en margir hljóta að vilja takast á við þetta á beinskeyttari hátt. Mér finnst Chappelle takast það vel – betur en bæði Aziz Ansari, sem felur sig á bakvið auðmýktina, eða Ricky Gervais sem röflar einfaldlega of mikið. *** Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á klassíkerinn Who Framed Roger Rabbit frá árinu 1988. Við Nadja vorum jafngömul og Aram þegar þessi mynd kom út – 10 ára. Maður sér vel á henni hvað margt hefur breyst – nú mætti alveg segja að hún taki afstöðu gegn dónaköllum og þeirri hugmynd að konur eigi að meta útfrá útliti sínu („I’m not bad“, segir Jessica Rabbit „I’m just drawn that way“.) en hún málar þá mynd af samfélaginu einsog það er/var. Baby Herman kemst einfaldlega upp með að slá konur á bossann og vera skíthæll. Hann er hinn erkitýpíski Harvey Weinstein og mótmælin sem myndu spretta upp í dag myndu sennilega snúa að normalíseringareffektinum – hvort við sjóumst þá bara og finnist þetta alltílagi. Annars held ég almennt að börn hafi gott af því að kíkja inn í horfna heima og gamlan móral, gamlar breytingar, gamla stemningu. Það er einfaldlega þroskandi. Myndin er hins vegar alveg jafn skemmtileg þrátt fyrir allar aðfinnslur. Ég hef ekki haft jafn gaman af teiknimyndaslappstikk í áraraðir – píanódúett Daffy Duck og Donald Duck mun gleðja mig um ókomna tíð. Söguþráðurinn er spennandi, persónur ýktar og skemmtilegar og furðulegt að ekki hafi verið gerðar fleiri sögur í þessum heimi – þar sem klassískar teiknimyndasöguhetjur og fólk af holdi og blóði býr hlið við hlið. *** Djasssveitin Gaukshreiðrið lék fyrir gesti í Edinborgarhúsinu síðasta fimmtudag. Hljómsveitina skipa þau Sölvi Kolbeinsson á saxófón, Mikael Máni Ásmundsson á gítar, Anna Gréta Sigurðardóttir á píanó, Birgir Steinn Theódórsson á kontrabassa og Magnús Trygvason Elíassen á trommur. Þau léku mestmegnis frumsömin lög – sennilega tvö eftir Önnu, þrjú eftir Mikael Mána og eitt eftir Sölva. Nema það hafi verið tvö eftir Sölva og eitt eftir Önnu. Í lokin tóku þau svo afskaplega fína útsetningu af Hættu að gráta Hringaná – mig minnir að útsetjarinn hafi heitið Andrés. Tónlist Önnu og Mikaels fannst mér heyra saman. Djass leitar oft í hljómskrattana en Anna og Mikael fannst mér harmónískari í lagasmíðum sínum – sumir myndu segja poppaðri en það er hvorki nákvæmt né nógu jákvætt, því þau gera þetta mjög vel. Tónsmíð Sölva var meira bípopp – skapandi flækjur í kringum stef – og helgast sennilega ekki síst af því að hann er saxófónleikari sem eltir staka tóna á meðan Anna og Mikael leika á hljóðfæri sem alla jafna senda frá sér fleiri tóna í einu. Eitt og annað þarna minnti mig á eitthvað sem er alls ekki úr djassheiminum – múm kom oft upp í hugann. Bandið er allt brjálæðislega vel spilandi og æðislega skemmtileg. Ég horfði auðvitað sérstaklega á gítarinn. Ef mér skjátlast ekki lék Mikael Máni á Gibson L-4 CES í gegnum Fender Blues Junior IV. Engir pedalar og snúran var svo stutt að hann gat varla hreyft sig neitt. Þetta er mjög klassískt djass-settöpp, held ég. Ég gæti best trúað að strengirnir í gítarnum hafi verið óvenju þykkir – enda var hann ekkert að teygja þá og notaði víbrató mjög sparlega. Þessi magnari er mjög hreinn og einfaldur og gítarinn – sem kostar einsog fimm venjulegir gítarar og fjörutíu pedalar – naut sín virkilega vel. Það er líka áhugavert finnst mér að hugsa til þess hversu margir gítarleikarar finna bara sándið sitt og fara aldrei úr því. Ég, sem er auðvitað ekki beinlínis gítarleikari nema til gamans, er sífellt að breyta til – ég er með tíu pedala á gólfinu sem ég fikta í af og til en fyrst og fremst kveiki ég eða slekk á þeim, skipti milli pikköppa, sný tone-hnappinum, hækka og lækka, spila með fingrum eða nögl. Svo á ég þrjá rafmagnsgítara sem ég spila á til skiptis og þeir hafa allir sérstakan karakter. Þegar ég spila á kassagítarinn nota ég gjarna slide og skipti reglulega á milli (ég á sennilega tíu af ólíkum gerðum, þykktum, lengd og af ólíku efni) – spila í fjórum ólíkum stillingum til skiptis og svo framvegis. Mikael Máni snerti ekki neitt á meðan tónleikunum stóð, ekki það ég gat séð eða heyrt – hélt sig bara á hálspikköppnum í hreina klassíska djasssándinu. Reyndar minnir mig að hann hafi svolítið krosspikkað með nögl og fingrum en það var sennilega allt. Það var líka áhugavert að velta fyrir sér muninum á því að vera gítarleikari og píanóleikari í svona sveit. Hlutverk þeirra eru að mörgu leyti svipuð – þau liggja milli rytmasveitar og sólóista – og ómögulegt að segja út frá tónlistinni hvor er hressari. Hins vegar dúaði Anna Gréta á stólnum, stóð jafnvel aðeins á fætur, dillaði sér og skók, á meðan Mikael Máni var kyrr, einbeittur og fagmannlegur (með því geri ég ekki lítið úr ástríðunni í tónlistinni, sem var mikil hjá báðum). Og þetta væri í sjálfu sér ekkert spes nema ég held þetta sé alltaf svona í djassi. Píanóleikarar dúa á stólnum og gítarleikarar standa grafkyrrir. *** Ég las bókina Delta Blues eftir Ted Gioa. Tveir af kannski fimm helstu sérfræðingum heimsins í sögu deltablússins eru nátengdir ljóðlistarheiminum. Ted þessi er bróðir ljóðskáldsins Dana Gioa – en svo er líka Samuel Charters sem er giftur konu að nafni Ann Charters sem er helsti sérfræðingur heimsins í Jack Kerouac og bítskáldunum og eftir hana á ég margar bækur frá því ég sökkti mér í þann heim fyrir langalöngu. Deltablúsinn verður til, einsog við þekkjum hann, með upptökutækninni. Í raun er engin leið að segja neitt um hvenær hann verður til annars og það er einkenni allra upprunasagna blússins að þær byggja á getgátum sem byggja á frásögnum í texta. Það eru til lýsingar af tónlistarmönnum sem hljóma einsog deltablúsarar frá því fyrir aldamótin 1900 en það er í raun ekki fyrren rétt eftir þau að tilvist hans er staðfest – þegar hann er fyrst tekinn upp. Ted Gioia segir svo sögu hans fram til þess að hann ferðast til Chicago og verður smám saman Chicago blús – og raunar aðeins lengra því það sem gerist með deltablúsinn er að hann hverfur og gleymist. Sérstaklega lentu þeir sem gáfu út blúsplötur upp úr kreppunni illa í því. Plötusala skreppur saman um 94% – nokkuð meira en hlutabréfamarkaðurinn féll – og plötusala í kynþáttageiranum („race records“ – plötur svartra tónlistarmanna) féll enn meira. Blústónlistarmenn sem gátu búist við að selja 20 þúsund plötur árið 1928 gáfu kannski út 200 árið 1930 og seldu helminginn. Margir féllu þá í gleymskunnar dá – þar á meðal Robert Johnson, Son House, Skip James og fleiri. Fyrir átak blúsnörda upp úr 1960 og svo frægra gítarnörda, mestmegnis enskra – Clapton, Keith Richards o.sfrv. – komast þeir svo í sviðsljósið, sumir í annað sinn en aðrir í allra fyrsta sinn, sumir í eigin persónu en aðrir bara á upptöku – einsog Robert Johnson. Lokakaflinn í bókinni er því nánast einsog upprifjun á fyrsta kaflanum – það eru sömu menn sem hefja leikinn og sem ljúka honum. Deltablúsinn endar aftur í rótunum. Auðvitað lauk blússögunni ekki þar. Chicagoblúsinn tekur við og Detroit blús og Texas blús og svo rokkið – Clapton og Hendrix og svo Stevie Ray og Robert Cray og svo Joe Bonamassa og Eric Gales og alls konar og alls konar. Þetta er mögnuð saga og frábær bók. Kannski er það bara vegna þess að tónlistarsagnfræðingar eru svo oft lélegir – eða tónlistarsagan flókin og fólk gjarnt á að einfalda – en bókin er frábærlega byggð og stútfull af upplýsingum án þess að verða nokkurn tíma leiðinleg. Það er alls konar sem situr í manni. Lýsingar á því hvernig kona John Lee Hookers misþyrmdi honum – skar hann meðal annars í fingurinn svo hann gat ekki spilað með honum, kallaði gítarinn hans alltaf „the starving box“ af því henni fannst hann aldrei þéna nóg. Samt var hann sennilega fyrsti blúsarinn til að þéna eitthvað af viti. Í mörgu kristallast líka samband hvítra og svartra í Bandaríkjunum – til góðs og ills. Hvítir plötuútgefendur hýrudraga svarta blúsara alveg miskunnarlaust – jafnvel þeir sem hampa þeim mest – en svo eru aðrir, svo sem áðurnefnd blúsnörd í endurreisninni, sem eru í hálfgerðri yfirbótastarfsemi stundum. Faðir deltablússins – Charley Patton – er líka að hluta bæði hvítur og innfæddur ameríkani, það hafði ég ekki hugmynd um. Verandi svartur er hann auðvitað samt alveg svartur – það er/var reglan, og sama gildir um tónlistina (það er snertur af írskri þjóðlagatónlist í deltablúsnum – en hann er samt svartur). Það var líka gaman að Ted Gioia skildi ekki gera lítið úr trúnni – bæði guðstrúnni og mýtólógíunni. Margir blúsarar létu af öllum gítarleik vegna þess að hann væri af hinu illa, aðrir spiluðu hann gegn betri vitund, einsog Son House. Robert Johnson er auðvitað sagður hafa selt sálu sína og maður er orðinn vanur því að lesa langar lýsingar á að það hafi hann nú auðvitað ekki gert, heldur hafi sennilega verið eitrað fyrir honum, og Gioia fer í gegnum það allt saman án þess að gera lítið úr því að þetta með kölska var líka raunveruleiki – það er mikill spiritúalismi í þessari músík og þegar menn töluðu um kölska voru þeir ekki að meina það í neinni yfirfærðri merkingu. Loks er gaman að sjá hvernig sumir blúsararnir voru listrænt óstýrilátir – John Lee Hooker, sem einn þeirra allra síðustu – leikur aldrei sama lagið tvisvar og það tók hann áratugi bókstaflega að læra að spila með öðrum (og þegar hann er byrjaður gat hann ekki hætt því – varð alger samstarfskóngur). Hann fann sér bara grúv, settist í það og söng svo eitthvað sem passaði. En aðrir léku mjög meðvitað og æft, einsog Robert Johnson, og ollu næstum seinnitíma aðdáendum sínum vonbrigðum með að vera ekki náttúrulegri impróvíserarar. *** Þetta er að verða ofsalega löng færsla. Snæbjörn á Kaktusnum verður ábyggilega alveg brjálaður. Nema hann sé löngu sofnaður. Ég held hann sé eini maðurinn sem einu sinni reynir að lesa þetta, og svo kvartar hann bara einsog það sé mér að kenna. Allavega. Það er kominn hádegismatur hjá mér og ég hef fá orð um restina. Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á hryllingsmyndina Wicker Man eftir Robin Hardy. Hún var frábær – besta hryllingsmynd sem ég hef séð. Ótrúlega spes stemning. Samtímis ótrúlega realísk og einsog einhver teiknimynd. Rosalega gröð mynd líka. Kölski býr í kynlífinu, sérstaklega greddu og tálmætti kvenna. Fyrst og fremst er hún svakalega visúal – falleg er ekki rétta orðið, en visúalt áhugaverð, augað er dregið hingað og þangað og alltaf eitthvað að kalla á mann. *** Við lásum Rummung ræningja eftir Otfried Preußler. Hún var mjög skemmtileg – ævintýrasaga tveggja vina sem takast á við óprúttinn ræningja og ægilegan galdrakarl. Það sló mig að hún væri bæði vel þýdd og illa. Orðaforðinn og orðfærið er mestmegnis mjög gott en það er svolítill fljótfærnisbragur á þessu. Ég var auðvitað ekki með orginalinn til að bera saman og þýskan mín er nú ekkert frábær – en svona smásvör einsog „jæjajá“ og þannig voru ekki alltaf í samræmi við mína máltilfinningu. Svo er svona smotterí einsog þegar amma spyr „Vitið þið hvað mér finnst?“ og Kasper og Jobbi svara „Hvernig þá?“ – frekar en „hvað?“. Ég ímynda mér að þannig samskipti hafi verið stílhreinni á þýskunni. Þá er líka svolítið um að frágangi sé ábótavant – gæsalappir opnast ekki eða lokast ekki og þvíumlíkt. Þetta er þeim mun leiðinlegra sem bókin er annars falleg og þýðingin – sem Aðalsteinn Ásberg gerði – góð. Auðvitað ber þetta fyrst og fremst stressinu í bókabransanum merki. *** Loks er ég búinn að lesa 100 ljóð Geirlaugs Magnússonar. Hún er frábær – Geirlaugur var mjög skemmtilegt skáld og löngu kominn tími til að gefa hann svona út. Sosum ekkert um það að segja annað – þetta er safnrit og ljóðin héðan og þaðan á ferlinum og ég engan veginn nógu vel lesinn í honum til að gagnrýna úrvalið mikið. Bókin er passlega löng og ljóðin í henni eru af ólíkum meiði – mörg fín, sum frábær. Ég myndi einfaldlega vitna í eitt ljóðanna en bókin er uppi á skrifstofu og ég heima í borðstofu. *** Gítarleikari vikunnar er John Lee Hooker.