Untitled

Ég er hafður fyrir rangri sök á víðlesnu dönsku bloggi (sem er skrifað af nýbornum auðnuleysingja). Þar segir að ég hafi eitthvað á móti afþreyingarbókmenntum. Það er af og frá. Ég er róttækt mótfallinn vondum bókum og markaðsafstöðu til gæða bókmennta. Bókabransinn skítur í deigið þegar hann gefur út og dreifir inn á annað hvert heimili ömurlegum bókmenntum undir fölsku yfirskini – það er bara þannig. Það á jafnt við um reyfara og ástarsögur og hámódernískt listlíki. Vondar bækur hafa svo þeim mun verri áhrif á heiminn, vellíðan hans og menntun, eftir því sem þær lenda á fleiri heimilum og ber fyrir fleiri augnkúlur. *** Við komumst heim. Ég svaf ekkert í vélinni frá Newark til Stokkhólms einsog til stóð – fékk heiftarlega fótaóeirð og gat varla setið megnið af fluginu. Sennilega hefur antihistamín þessi áhrif á mig. Ég keypti einhverjar svefntöflur af því tagi fyrir flugið – og fékk sömu áhrif síðasta haust þegar ég tók ofnæmislyf af svipaðri tegund. Vond tímasetning. En ég lagðist á bekk í 7-Eleven og svaf aðeins meðan við biðum eftir að krökkunum yrði komið á Arlanda. Komin til Íslands keyrðum við beint heim. Ferðalagið – fyrir okkur Nödju – tók nákvæmlega 36 klukkustundir, upp á mínútuna. Lögðum af stað 4.20 að nóttu í San Francisco og komum til Ísafjarðar 23.20 að kveldi daginn eftir – sem er þá 16.20 í SF. *** Bona notte.