Dagur fimm og sex. Samt vorum við eiginlega í viku. Sennilega taldi ég ekki með fyrsta daginn af því við komum seint. *** Á fimmtudagsmorgun tókum við Hop-on Hop-off rútuna yfir Golden Gate brúna og gengum þaðan nokkra kílómetra meðfram hraðbrautinni til Sausalito. Þar fengum við einhverja allra bestu hamborgara sem við höfum smakkað og ég hlóð niður Uber appinu – pantaði bíl sem fór með okkur í Muir Woods National Park. Við röltum um í þjóðgarðinum í nokkra klukkutíma og dáðumst að trjám, þefuðum út í loftið og reyndum að ímynda okkur hvaða lyktir þetta væru – ein var sæt og berjalík og var rædd í þaula. Við gengum ansi langt og mikið upp í mót. En eftir viku á röltinu í SF erum við að verða ansi vön því að ganga upp í mót. *** Það er ekki hægt að taka Uber frá Muir Woods, því það er ekkert símasamband, og því neyddumst við til að taka leigubíl sem var á svæðinu. Það var nokkuð dýrara, já og svo fór hann með okkur lengra. Eiginlega var það alveg fáránlega dýrt. Við áttum miða í góð sæti á Phillies vs. Giants á AT&T leikvanginum og vildum ekki missa af honum svo við létum okkur hafa það. Ég þarf bara að skrifa þjónustufulltrúanum mínum og fá hann til að skipta upp næsta visareikningi. *** Fyrstu þrjú korterin átum við pylsur og reyndum að geta okkur til um reglurnar og rifja upp það sem við vissum úr Bull Durham, Major League og hvað hún nú heitir aftur myndin með Geenu Davis og Madonnu. A league of their own. There’s no crying in baseball, sagði maðurinn á næsta bekk við okkur – og vitnaði í Tom Hanks. *** Þótt maður hafi aldrei séð hafnaboltaleik veit maður nú ansi margt. En að lokum byrjaði sessunautur Nödju að útskýra fyrir okkur það sem við ekki skildum – ekki síst hvernig stigataflan virkar, hvað allar tölurnar þýða, en líka alls kyns smáatriði í reglunum. Við spjölluðum svo við hann – Randy Weiss – það sem eftir lifði leiks. Hann er tæplega sextugur fiðluleikari, samkynhneigður gyðingur og hafnaboltaáhugamaður. Hann fór með okkur á rölt um völlinn og sýndi okkur stórkostlega útsýnisstaði – bæði yfir völllinn og borgina – og hélt viðstöðulausan, fræðandi og skemmtilegan fyrirlestur um íþróttina og arkítektúrinn. Hann var alger guðsgjöf, þessi maður, og er. Þegar leiknum lauk (með sigri okkar manna í Giants) ákváðum við að hittast aftur í morgunverð í The Mission. *** Sjálf fórum við á barinn við hliðina á hótelinu – frekar sjabbí bar með enskt væb, einhvern veginn furðulegt að sjá þannig bar hálftóman og reyklausan en í SF fer fólk bara á hreina og fallega hanastélsbari þar sem tónlistin er í botni (ég er ekki (bara) gamall; ég hef aldrei þolað bari þar sem ekki er hægt að tala saman – ég drekk til að tala og hlusta). Og drukkum nokkur hanastél áður en við héldum í háttinn. *** Daginn eftir mæltum við okkur mót við Randy á The Thorough Bread Bakery – ég fékk með pulled pork samloku sem á ekkert skylt við sykursullið sem maður kaupir á norðurlöndunum. Almennt borðar fólk í SF frekar hollan mat sýnist mér. Í einni 7-Eleven búð sem við heimsóttum voru tvær vesælar tveggja lítra kókflöskur úti í horni, en heill ísskápur af náttúrulega gerjuðu kombucha (ég fékk mér rauðbeðukombucha). *** Hófst svo mikill göngutúr um The Mission – sáum Dolores Park, veggjamálverkin, ræddum við veggjamálara, skoðuðum sundhöll, átum kínverskt á Mission Chinese, skoðuðum fallegustu húsin, fórum inn í Women’s Building (og hálfa leiðina inn á NA-fund), átum eftirrétt á Bi-Rite Ice Cream og ræddum allt milli himins og jarðar. Þegar leiðir skildi um eftirmiðdaginn fórum við Nadja í góða hirði þeirra SF-búa, litum í Sci-Fi bókabúð, hefðbundna bókabúð (ég keypti Look eftir Solmaz Sharif), drukkum kaffi og röltum aftur upp á hótel. Þá pökkuðum við og fórum út að borða á mjög góðan víetnamskan veitingastað, litum við á Antique Vibrator Museum (sem reyndist nú bara ofurvenjuleg kynlífstækjaverslun) og vorum farin að sofa upp úr miðnætti. *** Nú er ég í flugvél. Við vöknuðum rétt rúmlega fjögur að nóttu og flugum frá SF til Newark klukkan 7. Ég horfði á I, Daniel Blake áðan – er enn að melta, en sennilega er hún fyrst og fremst sönn og maður hefur gott af því að sjá hana. Það er hægt að læra fleira af bíómyndum en hafnaboltareglur. *** Við fengum ekki að sitja saman í vélinni – en fyrir tilviljun horfði Nadja á sömu mynd. Sennilega erum við orðin svona samstillt eftir ferðalagið. Það var a.m.k. ekki vegna þess að úrvalið væri takmarkað. ***
Við sitjum í Newark í tvo tíma og fljúgum svo til Stokkhólms. Þar lendum við klukkan sjö að morgni. Upp úr tíu kemur tengdapabbi með krakkana, við umpökkum á Arlanda og fljúgum til Íslands klukkan 14. Þegar við lendum í Keflavík tökum við rútuna til Reykjavíkur – bíllinn okkar hefur staðið á BSÍ í tvo mánuði – og keyrum vestur. Ég átta mig ekki á því hvað þetta er langt ferðalag, en sennilega hartnær fjörutíu tímar. Og það verður gott að koma heim. Og gott að sofa. *** PS. Póstað í Newark: Þvílíkt ömurðarkaos sem þessi flugvöllur er, fari hann norður og niður og snúi aldrei aftur.