Það er að komast hefð á að það fyrsta sem ég geri þegar ég opna augun sé að blogga. Einsog ég rísi beint upp úr draumunum og inn á internetið. Ég veit ekki hvort það boðar gott. *** Í gær röltum við um Golden Gate Park og Presidio Park og fórum niður á Baker Beach. Þar var nokkuð um nakta karlmenn að spóka sig. Merkileg manngerð, spókandi karlmaðurinn. Við enda strandarinnar var dálítið bjarg þar sem stóð unglingsstúlka, kannski fjórtán ára, í sjávarmálinu ásamt fullorðnum karlmanni – pabba eða jafnvel afa – og tók hann af henni ljósmyndir. Þegar við komum að bjarginu birtist skyndilega handan þess svona líka flenninakinn maður um þrítugt með lim niður á hné (mjög emaskúlerandi!) eiginlega alveg í fanginu á okkur. *** Þetta var versti staðurinn til þess að fara í hafið – of mikið af grjóti. Stúlkan sem lét taka af sér myndir stóð þannig að hún hafði ágætis útsýni yfir þann nakta ef hún sneri höfðinu örlítið. Það voru að vísu, einsog ég segi, fleiri naktir menn á ströndinni en þeir voru nær fimmtugu og sextugu. Pabbinn eða afinn stóð hins vegar og sneri sér þannig að hann sá enga nekt. Rétt áður en við Nadja héldum aftur til baka sá ég stúlkuna snúa höfðinu og beinlínis stara – ekki framan í hann – og taka slík andköf að ég hélt hún myndi falla í yfirlið. *** Kyrrahafið er annars fallegt og öldurnar voru ekki síður tignarleg en önnur náttúra strandarinnar. *** Við tókum svolítið strætó í gær. Sem var áhugaverð reynsla. Í einum þeirra vorum við ekki með rétta skiptimynt og var sagt að stökkva bara inn og sleppa því að borga, þetta væri ekki svo nojið. Sem er svolítið sænskt – en ég sé síður fyrir mér að gerist oft í Reykjavík. Þótt það hafi kannski breyst. Í öðrum var vélin sem tók við peningunum eitthvað ringluð – búið að setja í hana einhverja peninga þegar við byrjuðum að hlaða – og það er alveg óvíst hvað við borguðum mikið. Ekkert mál, sagði bílstjórinn. *** Það er líka svolítið af fullu fólki í strætó. Sem er finnskt, nema þeir drekka líka í strætónum hérna. Í gær var einn með risastóra viskíflösku að drekka af stút. Sennilega tveggja lítra. Annar, sem sat á móti okkur, raðaði í sig pillum úr pilluboxum sem hann hafði greinilega keypt í einhverri verslun. Þegar hann stóð á fætur var hann mjög valtur – en einhvern veginn þannig að ég ímyndaði mér að hann væri kannski ekki síst bara rosalega þreyttur. Í strætónum voru líka tveir strákar sem lyktuðu einsog sígarettur – svona maríneraðir einsog fólk sem hefur verið í partíi í litlu herbergi í marga daga, áður en allir hættu að reykja inni. Það væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að hér reykja svo ótrúlega fáir. *** Já, eða uhumm. Hér er auðvitað kannabislykt úti um allt. Bókstaflega. Allsstaðar. En maríjúanað er bara fyrir heimamenn, vel að merkja – það þarf maríjúanakort og maður kaupir það í apótekum. Manni skilst að opni eiturlyfjamarkaðurinn með maríjúana hafi meira og minna hrunið fyrir vikið. Við erum sem sagt alveg óskökk, þráðbein. En ég hef haft fyrir sið að fá mér að minnsta kosti einn kokteil á dag og ég keypti mér kokteilbók í de Young safninu í gær (fórum á sýningu um hippatímabilið – mikið af fötum og hönnun; í allri pólitíkinni var lúkkið auðvitað ekki ómikilvægast og ríkti alls ekki sama frjálsræði í þeim efnum og í mörgum öðrum, hippisminn var einkennisbúningur). *** Eitt rukka San Franciscobúar aldrei fyrir. Almenningsklósett. Hér virðist – þrátt fyrir mikinn túrisma, frjálsræði, óðakapítalisma o.s.frv. – engum hafa dottið í hug að það væri sniðugt að rukka einsog fyrir uppáhellt kaffi fyrir að verða mál. (Ég er svarinn óvinur borgunarklósetta og hef verið frá því ég kynntist þeirri ömurlegu þróun fyrst í Svíþjóð). *** Um kvöldið fórum við á Cage aux Folles í San Francisco Playhouse. Ég hafði haft uppi stórar yfirlýsingar um að ég vissi ekkert um þessa sýningu. Og svo var þetta auðvitað bara Birdcage, sem ég sá fyrir þúsund árum í bíó – með Robin Williams og Nathan Lane. Uppsetningin var fín og allt mjög skemmtilegt – mórallinn góður og stemningin stuð – en það kemur mér eiginlega á óvart að verkið skuli vera svona mikill klassíker. Plottið er lapþunnt, brandararnir hafa elst mjög misvel og tónlistin – ég ætlaði að segja kits, en sennilega er það bara meiningin, en verst hvað hún er óeftirminnilegt kits. Að þessu sögðu skemmti ég mér samt stórvel. *** Eftir leikhúsið fórum við á sushinæturklúbb í kjallara í nágrenninu. Teknó á fullu blasti, sushikokkar bakvið barborð með takta einsog Tom Cruise í Cocktail, löng biðröð inn á troðinn stað. *** Og svo heim að sofa. *** Að heiman berast þær fréttir að bóksala hafi hrunið um 30%. Eða tekjur af bóksölu, réttara sagt. Ég þarf að rýna aðeins í þær tölur. En kemur svo sem ekki á óvart. Útgefendur leggja meira og meira í færri og ómerkilegri titla – alvöru lestri er lítið sinnt, alvöru bókmenntir eru bara gefnar út til að geta merkt við í kladdann að svo hafi verið gert. Að prenta 50 gráa skugga og þannig rusl í bílförmum og selja á hæpinu einu saman er að pissa í skóinn sinn – þeir sem lesa sjaldan (og þeir sem kaupa bækur af og til eru stór hluti bókakaupenda og lesenda) eru líklegri til að detta um slíka bók en eitthvað almennilegt, og þeir sem detta um slíka bók lesa ekki aðra bók það árið. Eða það næsta. Því ef þetta er það sem útgefendur telja til flaggskipa sinna – hversu mikið getur þá verið varið í hratið?