Untitled

Ég ætla að deila þessari færslu á Facebook á eftir með orðunum „dagur 3 í San Francisco“ en það meikar samt eiginlega ekkert sens. Í fyrsta lagi kláraði ég aldrei að skrifa um dag 2 – sem ég deildi með orðunum „dagur 2 í San Francisco“ – og lauk á 150 ára gömlu blúsknæpunni The Saloon á landamærum ítalska hverfisins og kínahverfisins – og í öðru lagi er dagur 3 nú þegar liðinn, dagur 4 er hafinn og ég er meira að segja vaknaður (Nadja er ennþá sofandi samt). *** En svona er þetta bara samt. *** Svo sagði ég eiginlega minnst frá því sem við gerðum á degi 2 líka. Við röltum mikið. Átum lúxusmorgunverð á Sweet Maple kaffihúsinu. Skoðuðum Painted Ladies húsin í Alamogarði. Nadja fór í klippingu á Haight Street og við röltum niður að horni Haight og Ashbury – fræga hippahorninu – litum í bókabúð anarkista og klifruðum upp á hæðina í Buena Vista garðinum. *** Við hófum dag 3 á hótelmorgunverði, sennilega í síðasta sinn. Í þessari borg er fáránlega gott brauð og góður matur, en morgunverðarhlaðborðið á Hotel Beresford er fullkomin travestía. Bara seríos og hálfbakað bragðlaust verksmiðjusætabrauð. Það dugar alveg ef maður þarf bara að borða sig saddann, en það er næringarsnautt og maturinn utan við hótelið er svo góður að mann langar eiginlega ekki að vera saddur þegar maður heldur út í daginn. *** Við höfðum hugsað okkur að hjóla yfir Golden Gate brúna til Sausalito. En veðrið var leiðinlegt – kalt og rok fram eftir degi – svo við héngum bara í bryggjuhverfinu, átum súpu í brauði (sem var reyndar líka vonbrigði – skelfisklaus bechamelsósa í reyndar frekar góðu brauði) og skoðuðum götulistamenn og spjölluðum. *** Það eina sem allir sögðu þegar við spurðum hvað við ættum að gera í SF var að ef við ætluðum til Alcatraz þyrftum við að bóka með miklum fyrirvara. Við áttum því miða með ferjunni og fórum og heimsóttum fangelsið. Það var vel þess virði. Maður gengur í gegn með eins konar poddkast í eyrunum sem leiðir mann á milli klefa og hingað og þangað og segir sögur – með viðtölum, vel að merkja. Alveg burtséð frá öllu sem hefur gerst þarna – flóttatilraunum og slíku – er áhugavert að skoða gamalt bandarískt öryggisfangelsi. Og auðvitað að mörgu leyti kunnuglegt úr bíómyndunum. *** Við fengum að vita að árið 1969 hefði hópur indíána hertekið eyjuna á þeirri forsendu að samkvæmt lagabálkum ætti að skila ónýttu og yfirgefnu landi í eigu alríkisins til innfæddra. Þeir héldu eyjunni í rúmlega eitt og hálft ár og þar voru þegar mest lét 400 manns. Við fengum ekki að vita mikið meira – það var ekkert safn um þetta – en hér og hvar var graffiti og merkingar sem báru þess vitni. Mér finnst þetta sjálfum a.m.k. jafn áhugavert og sumar flóttatilraunirnar og mætti gera umtalsvert meira með það. *** Næst fórum við og settumst niður á ítölskum veitingastað til að fá okkur hvort sinn Manhattan kokteilinn (ég reyndi reyndar að panta bæði Caipirinha og Mojito – en Cachacaflaskan stóð tóm á borðinu og það var engin fersk mynta til). Þar hittum vð barþjón sem talaði skælbrosandi með þykkum ítölskum hreim. Þegar við spurðum hvort allir sem ynnu á veitingastaðnum væru ítalir sagði hann að já, allir nema hann, væru ítalir, hann væri kúrdi og héti Shabith. Nadja sjarmeraði hann þá með því að vita eitt og annað um kúrdistan, hafa komið til heimabæjar hans og geta sagt nokkrar setningar á kúrdísku. Já og að sonur okkar héti Aram (sem er mjög algengt nafn meðal kúrda). Svo ræddum við Erdogan og Tyrkland – sem hann líkti við Trump – og hann gaf okkur ókeypis bruschettur (eftir að við höfnuðum boði um skot – Nödju fannst Manhattanin alveg nógu sterkur – og Tiramisu, þar sem við áttum enn eftir að borða kvöldmat). Þegar við fórum kom hann fram fyrir barborðið og knúsaði okkur í kveðjuskyni. Við förum vonandi aftur síðar og borðum þarna. *** Við átum kvöldverð á eþíópískum veitingastað. Maturinn var mjög góður. En það var augljóst að San Francisco búar hafa annað hvort ekki enn kveikt á eþíópískum mat – sem er mjög hipp í norður Evrópu um þessar mundir – eða eru hættir að fíla hann, því veitingastaðurinn – sem er hæst metni eþíópíski veitingastaðurinn á Yelp – var svo til tómur. En maturinn var fullkominn og við átum okkur til óbóta. *** Á veitingastaðnum var líka sjónvarp sem sýndi Trump. Beint ofan í andlitinu á mér allan tímann. Trump að verja nýnasista í Charlottesville. Maður verður sennilega víðar meira var við stuðningsmenn Trumps en hér – ég hef ekki séð nema einn mann í Infowarsbol  – liberty or death (og fékk sjálfur afslátt í City Lights fyrir að vera í antifa-bol). *** En þetta er merkileg lógík. Að draga fram að antifaliðið hafi ekki verið til friðar og þar með sambærilegt við nasista sem drepa fólk. Einsog það hafi verið að biðja um það. Í sjálfu sér mætti nefna að fólkið sem vann í tvíburaturnunum hafi flest verið að störfum fyrir alþjóðakapítalismann og orsakað með því óhemju ofbeldi – að það hafi ekki verið saklaust. En það gerir sér samt flest fólk grein fyrir því að það er ósmekklegur samanburður – og raunar ósambærilegt. En það er staðan sem Trump er að reyna að verja. Fólkið sem var að biðja um að láta drepa sig var ekki með leyfi til að mótmæla, það hafði í frammi ógnandi hegðun við saklausa nýnasista (!) sem voru bara að reyna að mótmæla friðsamlega (!). Með leyfi. *** Mér sýnist annars að lögreglan í Gautaborg sé búinn að veita norrænum nasistum leyfi til að marsera á bókamessuhelginni í haust. „Stærsta ganga þjóðernissósíalista í Svíþjóð frá seinni heimsstyrjöld“ segja aðstandendur. Þar verður sennilega allt smekkfullt líka af antifaliði – Gautaborg er þannig borg. *** Við erum enn fullnálægt norður-evrópskum tíma til þess að vera til mikils gagns á kvöldin og vorum komin í rúmið klukkan tíu. Nú hefst dagur 4.