Untitled

Allt telur (frá núll til tíu) Þegar þú vaknar á morgnana –

án þess að ég hafi gert ráð fyrir öðru

eða verði þess einu sinni var;

það er varla þú verðir vör við það sjálf

– og læðist geispandi niður tröppurnar

sem við eigum sjálf

í húsinu sem við eigum sjálf

til að hella upp á kaffi

í mokkakönnunni okkar

á spanhellunni okkar

og það er gólfkalt

í eldhúsinu okkar,

(eða þú gleymir að borða morgunmat) það telur. Þetta telur allt. Ég vil að þú vitir að ég myndi aldrei

eitra fyrir þér, ekki einu sinni

þótt ég vaknaði fyrstur, það skiptir máli

að þú vitir það, sért minnt á það

því það er mér sem er treyst

fyrir eldamennskunni á þessu heimili

og ég vil auðvitað að mér sé treyst

þótt ég hafi stundum brugðist þér

og öðrum, auðvitað, maður bregst.

Annars er svo margt sem ég myndi aldrei

gera þér að mér entist varla ævin

í að telja það allt upp. Ég biðst

velvirðingar á hinu. Það telur líka, vonandi, að ég vil vel. Það telur

og telur þegar ég loks vakna líka

þegar þú ert farin – um stund –

og ég drekk kalt kaffið

sem þú skildir eftir á eldavélinni

svo ljúffengt

sætt og svalandi,

ekki að ég sé að telja

það er enginn að telja

og okkur er flökkufært um heiminn

án reikningslistarinnar

enda ekki á leiðinni neitt sérstakt

nema bara saman

út í loftið, lífið og himintunglin

og þurfum því ekki

að reikna neinn kúrs

ekki einu sinni þegar

ég er hérna einn

því ég er aldrei einn hérna. Það telur, einsog allt hitt,

þetta telur allt,

og leggst á eitt einsog summan

af tveimur óreiðum,

stólum og fötum og bókum

og leikföngum á tvist og bast;

já og meðan ég man, ég átti alltaf eftir að sækja

þarna stólana upp í skóla

og súrdeigsmóður upp á Seljalandsveg,

þarf svo að fara í búðina og

við sjáumst heima upp úr sex,

takk fyrir síðustu tíu. Þinn,

Eiríkur