Það er heitt og það hitnar

– um hamslausu þenslunnar hamslausu þenslu ( erindi flutt á RECET ráðstefnu Vestfjarðastofu um loftslagsmál og orkuskipti ) I Það er margt sameiginlegt með hagkerfum og hákörlum. Ekki síst að hætti þau að sprikla sökkva þau bæði strax til botns. Við skulum segja að Guð hafi gert hákarlinum þetta í einhverjum kvikindislegum galsa, en það var ekki Guð sem skapaði hagkerfið, það gerðum við sjálf og við sköpuðum það í mynd hákarls og við gáfum því þennan eiginleika: annað hvort stefnir það að viðstöðulausum vexti eða það hrynur og tekur okkur öll – eða segjum velflest – með í fallinu. Ég veit ekki hvort þessi hönnun er viljaverk eða hvort þetta er bara afleiðing þess að hún er verk manns – dýrs sem er í þeirri stöðu að dómínera yfir náttúrunni, frekar en að vera upp á náð hennar og miskunn komin, einsog aðrar skepnur merkurinnar. Allt líf hefur tilhneigingu til þess að vilja sigrast á kringumstæðum sínum og breiða úr sér án tillits til þess skaða sem slík útbreiðsla kann að valda. Það hefur bara ekki öllu lífi tekist að komast í þá stöðu að vera því sem næst ósigrandi – við erum ein um að vera ósigrandi og því fjölgar okkur ekki bara stöðugt heldur verður sífellt breiðara undir rassgatinu á hverju okkar, ekki síst svona að meðaltali. Sem væri kannski ekki vandamál nema fyrir þetta litla smáatriði að hámörkun framleiðslunnar felur í sér meiri ágengni gagnvart reikistjörnunni sem við búum á en hún þolir til lengri tíma – einsog hefur verið tíundað í svo mörgum vísindalegum ritgerðum að maður gæti ætlað að tegundin sem skrifaði þær kynni sér ekkert hóf. En ef það er eitthvað sem getur beint okkur af braut hins viðstöðulausa vaxtar og sjálfstortímingarinnar sem hann boðar er það hitt sem skilur okkur líka frá skepnunum, svo rækilega að það er kennt við okkur, menningin, og þá meina ég menning í víðasta skilningi, að gera hlutina vel, „að geta vitað betur“, að geta lesið í kringumstæður, séð fyrir skaðann sem við völdum og það hvaða afleiðingar hann getur haft fyrir okkur, ekki bara í næstu viku heldur næstu ár og áratugi, og hafa næga samkennd til þess að láta okkur þær varða og bregðast við. Þetta eru valkostirnir: menning eða dauði. II „Íslendingar fara í víking einsog forfeðurnir forðum“ – sagði fulltrúi Skrifstofu viðskiptalífsins í viðtali við blaðamann tímaritsins Vinnunnar árið 1990 og vísaði þar til verslunarferða Íslendinga til Glasgow sem notið höfðu mikilla vinsælda frá því í byrjun níunda áratugarins. Í sama blaði er rætt við húsmæður sem sótt hafa borgina heim fyrir hver jól árum saman. Þær ganga ekki svo langt að tala um víking en segja þetta þó „hreinar vinnuferðir“, enda séu þær mættar fyrir utan búðirnar í Buchanan-street fyrir opnunartíma og láti reka sig út við lokun. Þá fara þær og fá sér nautasteik á einhverju veitingahúsa borgarinnar, enda kostar slíkt lostæti sama og ekkert í paradísar-Glasgow. Bætir ein því við að sig dreymi um að geta einn daginn tekið karlinn með og gert úr þessu skemmtiferð. Á þessum árum þótti vöruverð á Íslandi afar óhagstætt, sérstaklega miðað við skoska verðið, og ef keypt var nóg af ódýrum vörum mátti hæglega afskrifa kostnaðinn við bæði flug og hótel – raunar voru líka dæmi um að fólk flygi einfaldlega út að morgni og kæmi aftur að kvöldi, og núllaði þar með hótelkostnaðinn. Ferðir af þessu tagi voru ekki einsdæmi fyrir Íslendinga – margar þjóðir sóttu og sækja heim nágranna sína í leit að ódýrara vöruverði og í sumum löndum ferðaðist fólk langa vegu innanlands til þess að komast á útsölur heildsölurisa sem haldnar voru í gígantískum lagerbyggingum í fjarlægum sveitum. Vesturlandabúar voru komnir með kreditkort og þurftu að kaupa dúnúlpur á krakkana, spariskó fyrir jólaböllin, æsandi undirföt, samstæða jogginggalla, buxnapils, velúrsloppa, fjarstýrða bíla, teygjulök á rúmið, vinnuskyrtur, star wars kalla, sérrístaup, hársprey og stígvél. „Auðvitað keypti ég fyrir meira en sjö þúsund krónur“, sagði kona ein nýkomin frá Glasgow við blaðamann DV árið 1986, en sjö þúsund krónur var hámarkið sem flytja mátti inn fyrir án þess að greiða toll. „Þeirri upphæð eyddi ég í fríhöfninni“ hélt hún áfram og benti á poka með fleiri hundruð sleikibrjóstsykrum. Voru allir viðmælendur allra fjölmiðla sammála um að enginn léti sér hámarkið duga og að flestir versluðu fyrir á bilinu 40-50 þúsund krónur. (Ég veit ekki hversu mikið það segir manni að 40 þúsund krónur þá séu tæplega 400 þúsund í nútíma krónum en til auka-viðmiðunar má nefna að í sama blaði kemur fram að þetta ár hafi lítil kók kostað 20 krónur en tvö grömm af kókaíni 9 þúsund krónur). III Í sögubókum Vesturlanda blasir þetta við, rétt einsog það gerir í skáldsögum og bíómyndum. Níundi áratugurinn var öld ofgnóttarinnar. Ofan á verslunarferðir bættust sólarlandaferðir, ofan á sólarlandaferðir sólbekkjaferðir, ofan á sólbekkjaferðir kokteilar og kókaín, hlutabréf, spegladiskó, skýjakljúfar, hversdagsleg geðlyfjanotkun, álfelgur, bílasímar og spoilerar, vígbúnaðarkapphlaup og kjarnakljúfar, vasadiskó, vídjótæki og æfingamyndbönd og sístækkandi verslunarmiðstöðvar fyrir sístækkandi fólk með sístækkandi þarfir. Þetta var áratugurinn sem færði heimsbyggðinni Donald Trump, Margaret Thatcher og Ronald Reagan, áratugurinn sem frjálshyggjan tók yfir sem hin ráðandi hugmyndafræði, áratugurinn sem við ákváðum hvort við værum kókfólk eða pepsifólk, makkafólk eða pc-fólk, áratugurinn sem Truman Capote tók fyrir í Bonfire of the Vanities , Don DeLillo tók fyrir í White Noise , Jay McInerney tók fyrir í Bright Lights, Big City og áratugurinn sem Bret Easton Ellis tók fyrir í Less Than Zero og American Psycho . Við drekktum okkur í vellystingum í krafti aukins kaupmáttar og með aðstoð listarinnar horfðumst við í augu við okkur sjálf, keyptum sjálfsþekkinguna í bókum og bíómiðum, svo til óhrædd í fyrstu, kannski jafnvel bara dálítið stolt og glöð, en komumst engu að síður fyrir að rest að óyggjandi niðurstöðu: Við vorum viðbjóðsleg. Þetta hafði verið hræðilegur áratugur. Og ef við héldum svona áfram myndum við fljótt ganga af heiminum dauðum. Nú skyldum við skammast okkar. Síðan þá eru allir okkar dagar ýmist markaðir kapphlaupi eftir óverðskuldaðri hugarró eða tignun eigin grunnhyggni. IV Árið 1989 var heimurinn sem sagt á fleygiferð. En árið 2020 stóð hann kyrr. Ekkert gerðist og við gerðum ekkert. Utan við gluggann geisaði auðvitað heimsfaraldur en inni var kyrrðin svo kraftmikil að brátt fóru að berast út flökkusögur um að þarna úti væri „náttúran“ að leggja undir sig heiminn aftur – að höfrungar og svanir svömluðu í síkjum Feneyja og drukknir fílar skakklöppuðust um kínverskar borgir, skóglendi væri jafnvel að byrja að breiða úr sér út á hraðbrautir. Þetta voru falsfréttir en við sáum þessu sjónvarpað í símunum okkar og þetta var stórfenglegt þótt þetta væri lygi – og það var ekki allt sem við sáum lygi og sumt af því var jafnvel álíka tilkomumikið. Mislægu gatnamótin voru vissulega auð, verksmiðjuskorsteinarnir blésu engum reyk og flugvélar heimsins stóðu kyrrar í skýlum sínum. Á himninum yfir Ísafirði urðu þoturákir sjaldgæfari en glitský. Foreldrar kenndu börnum sínum heima, einstæðingar bökuðu súrdeigsbrauð, skrifstofufólk mætti á fundi í náttfötunum, jafnvel enn uppi í rúmi, og draumóramenn spurðu hvers vegna þetta gæti ekki alltaf verið svona? Þá væri kannski einhver von, sögðu hin heimakæru, meðan aðrir gnístu tönnum. Í stað þess að fara til Tene fórum við upp á næsta fjall. Í stað þess að fara í borgarferðir ferðuðumst við í huganum og í stað þess að fara út að borða lærðum við að elda framandi rétti af YouTube myndböndum. Milli þess auðvitað sem við sulluðum örvilnuð í áfengisbirgðum okkar, skrolluðum facebook, doom-skrolluðum fréttamiðlum, störðum í baðherbergisspegilinn, störðum á sálarlausa kollega okkar á zoom – sjálfsvirðingarlaust fólk sem var ekki einu sinni komið úr náttfötunum – og íhuguðum sjálfsmorð af leiðindum. Heimurinn stóð kyrr. Það gerðist ekkert og við gerðum ekkert. Á einu augnabliki drógust flugferðir ferðamanna milli landa saman um nærri því þrjá-fjórðu hluta – einsog smellt hefði verið fingrum. Þegar rýnt var í tölurnar kom í ljós að svona lítið höfðum við hreinlega ekki flogið frá árinu … 1989. Við ferðuðumst sem sagt jafn mikið þetta ár sem heimurinn stóð kyrr og við gerðum síðasta árið fyrir efnahagslægð tíunda áratugarins, á gullöld sólarlanda- og verslunarferða, þarna rétt undir lok áratugs hinnar hamslausu ofneyslu, þegar fólki þótti ekki tiltökumál að skjótast til Glasgow dagspart til að kíkja í Marks og Spencer. Þá hafði það verið mikið – nýtt met slegið á hverju ári, aldrei höfðu jafn margir farið jafn víða – en þrjátíu árum síðar voru öll þessi met jafngildi fullkominnar kyrrsetu. Sannarlega hafði okkur fjölgað á þessum tíma og fleiri okkar höfðu nú fjárráð til að ferðast, en okkur hafði ekki fjölgað svona mikið og misskiptingin var jafnvel meiri en áður. Það sem hafði breyst var fyrst og fremst afstaða okkar til ferðalaga – það var ekki lengur stórmál að stökkva milli landa. Það fylgdi því ekki lengur viðtal í DV. Þrjátíu árum fyrr hefði helgarferð til Kaupmannahafnar a.m.k. kallað á ljósmyndasýningu fyrir kollegana – seinnipart vikunnar, þegar myndirnar væru loks komnar úr framköllun – en nú tók því varla að nefna það, ekki frekar en bara að Selfyssingur hefði kíkt til Hveragerðis. Og ef maður gerði sér ferð til Glasgow þótti orðið sjálfsagt að taka karlinn með. Kolefnisútblástur hefur einsog þið vitið – einsog hvert mannsbarn veit – aukist ár frá ári frá því mælingar hófust, með einni raunverulegri undantekningu, árið þegar heimurinn stóð kyrr, þegar hann dróst saman um 5%. Þá hafði kolefnisútblástur ekki verið lægri í tíu ár – og var samt nærri 60% hærri en hann var hið herrans neysluár 1989. Einkaneyslan, sem dróst örlítið saman við upphaf faraldurs, náði sér líka fljótt aftur á strik þegar fólk tók að innrétta heimaskrifstofur, kaupa sér líkamsræktartæki, hamstra nauðsynjar og stunda vefverslanir til þess að létta sér lundina – og samdrátturinn, sem afmarkaðist eðlilega fyrst og fremst við ferðalög og skemmti- og veitingastaði, varð aldrei svo mikill að einkaneysla fólks nálgaðist neitt það sem hún var þá rósemdardaga þegar íslenskar húsmæður tóku ekkert með sér til Glasgow nema tómar ferðatöskur undir útlendan lúxusvarning og keyptu 20 þúsund sleikibrjóstsykra í fríhöfninni. Enda hefði þurft meira til: einkaneysla Íslendinga árið 2020 hafði tvöfaldast frá árinu 1989. Við, hinir síflokkandi og meðvituðu nútímamenn, við hin hógværu og vökulu, við hin upplýstu og dómhörðu, við, kolefnisjafnandi rafbílaeigendurnir sem ekki fögnum ofgnóttinni lengur heldur skömmumst okkar fyrir hana, reyndumst þegar til kastanna kom vera margfaldir neytendur á við þá sem börðu sér á brjóst og þóttust ætla að éta alla heimskringluna í einum munnbita fyrir 40 árum síðan. V Líklega erum við löngu hætt að skilja heiminn nema í gegnum neyslu- eða neyslulíka hegðun. Við sofum ekki út nema hafa lært það á námskeiði í dönsku hygge, hendum ekki gömlu náttborði án þess að því fylgi lærð yfirlýsing úr bókum Marie Kondo eða Feng Shui, stundum ekki kynlíf án þess að taka fram dótakassa og leiðarvísa, stingum ekki nefinu inn í lýðræðislega samræðu án þess að taka tillit til þess hvaða ljósi það varpar á vörumerkið sem við erum orðin eða gætum átt eftir að verða, veljum okkur ekki maka nema með aðstoð appa, skrollum andlit eftir andlit og hámörkum ástarneysluna með fjölkærispeki, segjum ekki brandara án þess að telja lækin og nú hefur hollendingum meira að segja tekist að markaðssetja tómið. Niksen – hin hollenska list að gera ekkert í engum sérstökum tilgangi. Það er þegar hægt að kaupa margar bækur um niksen , hægt að horfa á margar myndir um niksen , um niksen hefur verið fjallað í öllum helstu fjölmiðlum, við getum öll tileinkað okkur tómið – því sjá, ég færi yður mikinn fögnuð, niksen mun losa yður undan kulnun og þreytu, undan álagi nútímasamfélagsins, niksen mun færa yður hugarró, hugarró mun gera yður kynþokkafull og auka velgengni yðar: gerið ekkert í engum tilgangi og sjá, það mun hafa tilgang. Og alltíeinu vöknum við upp við að nýjasta merkingarbæra afreksíþrótt hinnar meðvituðu nútímamanneskju er að gera ekkert, alltíeinu er ekkert meira að segja orðið erfitt, orðið stressandi; að ráfa um í tilgangsleysi – maður starir út í tómið og spyr sig, er ég að gera þetta rétt? Er ég að gera ekkert rétt? Hvað segja Hollendingar? Hvað segir Friedrich Nietszche – á niksenið að stara svona til baka? Þegar ekkert er líka orðið neysla – þegar ekki einu sinni ekkert er eftir ómarkaðssett – er allt orðið neysla. VI Loftslagsvandinn er ekki venjulegt praktískt vandamál og hefur ekki verið lengi. Við vitum hvað veldur hlýnun jarðar, við vitum hvaða afleiðingar hlýnun jarðar hefur og við vitum hvað við getum gert til þess að koma í veg fyrir þær afleiðingar. Við vitum líka að þær framfarir sem orðið hafa í framleiðslu, fræðum, orkunýtingu og endurvinnslu – eins stórkostlegar og þær nú oft eru – hafa lítið að segja ef svigrúmið sem þær veita er aldrei nýtt til annars en að framleiða meira, keyra meira, fljúga meira, kaupa meira, græða meira. Loftslagsvandann sem slíkan höfum við leyst – a.m.k. á pappírunum – en kannski er hinn stóri vandi sem eftir situr sá hvernig við förum að því að draga stórlega úr umsvifum okkar á plánetunni án þess að sökkva hákarlinum, án þess að setja hagkerfi heimsins á hliðina. Því við skulum ekkert gera lítið úr því heldur að efnahagshamfarir eru raunverulegar og hafa raunverulegar afleiðingar og að óbreyttu bitna þær afleiðingar fyrst og fremst á þeim sem síst skyldi – þeim sem eiga minnst, eyða minnst, græða minnst, og bera þar með minnsta ábyrgð á vandanum. Við lifum einfaldlega í þannig symbíósu með þessum hákarli að ef við dræpum hann umyrðalaust myndi það ekki bjarga okkur frá annars óhjákvæmilegri glötun heldur þvert á móti flýta fyrir henni. VII Rétt um það leyti sem níundi áratugurinn var að klárast – kannski var það einmitt 1989 – lýsti rithöfundurinn Martin Amis samtíma sínum sem öld heimskunnar, í viðtali við femínistann Germaine Greer. Orðrétt sagði hann að það gengi yfir heimsbyggðina krampakennd heimska – „convulsions of stupidity“ – en bætti svo við að sennilega myndum við engu að síður syrgja þennan tíma, enda myndi heimurinn halda áfram að verða heimskunni að bráð, heimskan myndi ágerast. En að sama skapi myndi heimurinn halda áfram að glata sakleysi sínu, verða lifaðri, reyndari, deyfðari, því að á hverjum gefnum tíma hefði jörðin gengið í gegnum meira en nokkru sinni áður. Maður verður nefnilega aldrei minna lifaður og maður endurheimtir aldrei örðu af því sakleysi sem maður hefur glatað. Einsog áður sagði hefur einkaneysla Íslendinga – einsog flestra þjóða – ríflega tvöfaldast frá árinu 1989. Ef frá eru taldar sígarettur og fáeinar úreltar tækni- og tískuvörur eru eiginlega engar vörur sem við kaupum minna af árið 2024 en við gerðum árið 1989, nema bækur. Meira að segja vínylplötur eru farnar að seljast í álíka upplagi og þær gerðu þá. En bóksala hefur hrunið. Ég skal ekki fara í launkofa með að ég hef ákveðna hagsmuni af því að bóksala sé mikil – því meira sem bækur seljast, því oftar kemst ég til Tene, því oftar get ég endurnýjað hlaupaskóna, keypt blóm fyrir konuna mína og dúnúlpur á börnin – en trú mín á bækur sem boðbera fyrir samkennd, hugsun og jafnvel á köflum hreina og klára visku, er einlæg fyrir því, og ég get ekki heldur að því gert að sjá samræmi í uppgangi popúlisma, þessara sífellt trúðslegri heimskukrampa veraldarinnar, og hnignun bókmenningar. Að það sé samasemmerki milli þess að lesa lítið og illa – eða bara hreinlega þess að vera menningarlaus – og þess að ráða illa við að vinna úr upplýsingum eða sýna samkennd. Við látum stundum einsog heimska samtímans sé afleiðing af kraftmikilli tækniþróun – kennum um hámenntuðum rússneskum hakkaragrúppum sem blekki okkur, óskiljanlegum algóritmum samfélagsmiðlanna, hraðanum í örvilnaðri fjölmiðlun á tækniöld, gervigreind sem hugsi fyrir okkur – og sjálfsagt er það ekki allt alveg úr lausu lofti gripið. En okkur væri samt hollt að gangast við því að vilji einhver stjórna okkur – og þar með sannleikanum – þarf engar ofurtölvur til. Einsog dæmin sanna er nóg að berja í borðið. Donald Trump er ekki að fara að verða valdamesti maður heims – í annað sinn – vegna þess að hann sé svo miklum tæknigáfum gæddur, eina tæknin sem hann hefur á valdi sínu er all-caps-takkinn á lyklaborðinu, og þaðan af síður vegna þess að hann sé mælskur eða klókur. Donald Trump fær að ráða vegna þess að hann tjáir sig einsog hellisbúi. Og við, sem erum sennilega orðin of vön því að valdið tali til okkar í þessum háværa fullyrðingatón höfum reynst of vitlaus til þess að veita því nokkurt viðnám sem nær máli, það er í besta falli að við megnum að garga eitthvað á móti – sem verður svo á endanum ekki til annars en að veita þessum tjáningarmáta heimskunnar þegnrétt í samfélagsumræðunni. Ég skýt ekki heldur loku fyrir að þetta sé viljaverk. Kannski erum við vitlaus – kannski getum við hvorki skilið upplýsingar né miðlað þeim skiljanlega, hvað þá skilið hvert annað – af því við viljum vera það. Mér finnst það stundum meira að segja frekar líklegt. Ég kann vel að merkja bara eina lækningu við heimsku og hún er að lesa bækur. Það er mitt húsráð. VIII Ég var spurður að því í gær hvort hlutverk mitt á þessari ráðstefnu væri að vera með einhvers konar comic relief milli vísindaritgerða og svaraði því til að þá hefðuð þið sennilega ráðið grínista – því rithöfundar bjóði ekki upp á annað en angist. Við skulum þess vegna halda því til haga, hér að síðustu, þótt ekki væri nema til þess að stemma af bókhald mögulegra hugsana – nú þegar öld heimskunnar, einsog Martin Amis kallaði hana, hefur öðlast rósrauða fegurð í baksýnisspeglinum sem tímabil visku og hófsemdar – að það er ekki að öllu leyti ótæk afstaða að gefast einfaldlega upp á þessari plánetu. Eða réttara sagt, að gefast upp á þessu mannkyni – því það er ekkert sem bendir til þess að okkar eigin glötun feli í sér glötun plánetunnar svo ég viti til. Það er meira að segja alveg hugsanlegt að við þessar kringumstæður sé ekkert náttúrulegra en glötun mannsins – að allar þær hamfarir sem loftslagshlýnun kalli yfir okkur séu ekki annað en plánetan að rétta kúrsinn, lofta út áður en allt fyllist af reyk, bjarga sjálfri sér, einsog öllu lífi er eðlilegt. Sjálfsagt mun okkur sem tilheyrum því þykja missir að mannkyni en það er ekkert víst að neinn annan muni neitt um það – þessu hlaut alltaf að ljúka á endanum hvort sem var, og spurning hvort það skipti nokkru hvort það er núna eða síðar. Einhver kynslóð verður alltaf að reka lestina. Spendýr eiga víst almennt ekki nema um milljón ára lífsferil áður en þau deyja út – við erum búin með tvö til þrjú hundruð þúsund ár og ættum því í sjálfu sér að eiga eitthvað eftir. En einsog markþjálfarnir minna okkur gjarnan á er þetta ekki spurning um hversu lengi maður lifir, heldur hversu mikið líf hefur verið í því lífi sem maður lifði. Og ætlar einhver hér að neita því, að við höfum lifað mjög mikið? Blasir það ekki líka við, að við séum að verða svolítið lifuð? Takk fyrir.