Hvað eru margar skáldsögur í einum manni? Eru fleiri skáldsögur í mér? Eru þær kannski allar búnar? Svona hugsar maður þegar maður er ekki byrjaður – eða gengur ekkert að byrja – á nýrri skáldsögu. Og einn daginn hlýtur svarið að vera: nei, nú er ég bara búinn með allar skáldsögurnar í mér. Er það ekki? Ég man eftir því að hafa lesið einhvers staðar að það væri a.m.k. ein skáldsaga í öllum – og oft væri hún einmitt ansi æsileg og þaðan kæmi krafturinn sem býr í mörgum byrjendaverkum, og þess vegna væri bók tvö oft svona þunnildisleg. Höfundurinn væri búinn með fríspilið sitt og ekki búinn að átta sig á því að nún þyrfti hann/hán/hún að fara að vinna fyrir hlutunum. Ég man líka eftir að hafa hvæst – þegar ég var enn á þeim aldri að ég hvæsti – á vin minn, sem var að barma sér svipað og ég nú, að ef maður hefði ekkert að segja ætti maður bara að sleppa því að segja eitthvað (ég sagði m.a.s. ábyggilega „halda kjafti“). Það væri ekkert verra en að kreista upp úr sér skáldskap. Að sögur segi maður af þörf – stundum jafnvel kvöð – en ekki af því mann langi að hafa sagt sögu. (Margt af þessu má færa beint yfir á ljóðlist en af því þar virka hlutirnir aðeins öðruvísi – a.m.k. í hausnum á mér – læt ég þau liggja á milli hluta í bili). Og margir hafa líka orðið til þess að benda á að það er nóg af bókum til; maður gæti lesið eintóm meistaraverk það sem eftir lifir ævinnar og aldrei orðið uppiskroppa. En sem sagt, nei, ekki í dag, Satan, ég er ekki hættur. En mér gengur samt ekkert að byrja. *** Talandi um meistaraverk. Ég pantaði mér afar veglegan haug af bókum á dögunum og þær voru næstum allar gamlar. Nýjastar voru bækurnar í árstíðafjórleik Ali Smith en elst Jane Eyre eftir Charlotte Brontë. Stærst og þykkust var ekki Infinite Jest, sem er annars mjög oft mesti doðranturinn í sinni hillu, heldur The Cambridge Centenary Ulysses: The 1922 Text with Essays and Notes. Hún er svo stór að það er nánast kómískt. Þynnst var The Old Man Who Read Love Stories eftir kunningja minn, heitinn, Luis Sepúlveda. Þá eru ótaldar – hvorki þynnstar, þykkastar, elstar eða nýjastar – Gravity’s Rainbow eftir Thomas Pynchon og Mrs. Dalloway eftir Virginiu Woolf. Margar þessara bóka eru reyndar þess eðlis, skilst mér, að þótt maður læsi aldrei aðra bók en bara þá einu myndi manni ekki endast ævin til að komast til botns. Ég hafði samt séð fyrir mér að klára þær í ár. *** Þórdís Gísladóttir, vinkona mín, droppar nokkrum bombum í viðtali í Bara bókum á dögunum, og ein þeirra er áreiðanlega ætluð mér – að besta leiðin til þess að fá tilnefningu til bókmenntaverðlauna sé að skrifa doðrant um fortíðina. Kannski er þetta líka ætlað Dúnstúlku Bjarna og Landi næturinnar eftir Vilborgu – þótt ég myndi ekki sjálfur kalla 300 blaðsíðna skáldsögu doðrant getur verið að aðrir geri það. (Undir 200 er stutt, 200-350 meðallöng, 350-450 löng, 450 plús doðrantur). Ég veit ekki hvort maður á að elta ólar við svona pot en auðvitað skrifar enginn til þess að fá bókmenntaverðlaun eða tilnefningar. Og þegar ég renni yfir listann yfir sigurvegara eru þetta næstum til skiptis bækur um fortíðina eða eitthvað mjög samtímalegt. Sigurvegarinn í ár var einmitt 170 bls samtímaskáldsaga um eldgos á suðurnesjum. *** Ég lauk við Money eftir Martin Amis einhvern tíma í síðustu viku. Hún er á kanónulistanum mínum yfir bækur sem mér finnst að ég eigi að hafa lesið en hef ekki lesið. Kannski mætti líka kalla þetta bækur sem mig hefur lengið langa að lesa en hef veigrað mér við af ólíkum ástæðum. Money hafði ég nú bara ekki lesið af því ég rakst aldrei á eintak fyrren ég gerði mér far um að panta það. Ég er þá búinn að tékka af rúmlega þrjár af þessum lista frá áramótum – House of Leaves eftir Mark Z. Danielewski, Stríð og frið, Money og tæplega tvær bækur úr Dala-lífi Guðrúnar frá Lundi. Money er fyrst og fremst alveg ofsalega kraftmikil bók – hálfgerð textasprengja. Ég sé að BBC gerði úr henni tveggja þátta mini-seríu 2010, sem mér finnst eiginlega að hljóti að hafa mistekist hrapalega – það er varla að ég sjái fyrir mér að hægt sé að þýða hana svo vel sé, hvað þá aðlaga hana að miðli þar sem tungumálið er ekki í aðalhlutverki. Money fjallar um breskan auglýsingaleikstjóra, John Self, sem er að fara að gera sína fyrstu bíómynd í Bandaríkjunum en missir gersamlega stjórn á eigin hamslausu hvötum. Ef maður les fyrir plott held ég að maður myndi fyrst gera athugasemd við hvað það er lengi í gang – það gerist eiginlega ekkert fyrstu 300 síðurnar nema að John Self étur, drekkur, rúnkar sér og horfir á klám. Á meðan undirbúningur bíómyndarinnar situr á hakanum eða í besta falli silast áfram. Svo fer reyndar glæsilegt plott í gang fyrir rest. En það væru samt mistök að taka þessa bók upp til þess að komast í plott – hún er ýkt samtímalýsing (sem einhver sagði reyndar að væri löngu hætt að vera ýkt). Amis hefur sjálfur sagt að Money sé bók um menningarleysi – gott ef hann stillti því ekki upp þannig að það væru tvö öfl í heiminum, peningar annars vegar og menning hins vegar, og að í Money væru peningar fullkomlega í öndvegi. Það var í því samhengi sem hann lét orðin um „krampakennda heimsku“ samtímans falla, sem ég vitnaði til í loftslagspistlinum í síðustu viku – og hann spáði þar líka réttilega fyrir um að sú heimska myndi í framtíðinni virka á okkur sem hálfgerður intellektúalismi. Martin Amis er vel að merkja sjálfur minniháttar sögupersóna í Money. Germaine Greer, sem var ástkona Martins Amis og skrifaði honum frægt 30 þúsund orða ástarbréf, tók viðtal við hann og sagði þessa útgáfu af Martin Amis sem birtist í bókinni vera mjög kontróleraða og að hún sjálf sæi talsvert af Martin í hinum vægast sagt óheflaða John Self. Við þeirri fullyrðingu glotti Martin afar strákslega og svo var klippt áður en nokkuð fleira var sagt.