Þetta hefur verið undarlegt ár. Eða kannski er „óvenjulegar vikur“ réttara orðalag – það er víst enn nóg eftir af árinu. Yfirleitt eru síðustu mánuðir ársins – jólabókaflóðið – orkufrek vertíð sem svo lýkur á jólum og við tekur afar einrænn og rólegur tími hjá mér. Jafnvel umkomulaus og þungur. En í ár hef ég verið á hvolfi í leikritinu og umkringdur fólki langt fram á kvöld alla daga vikunnar. Sennilega er það miklu hollari leið til þess að eyða svartasta skammdeginu en hin. Ég vann svolítið í ljóðabók – það verður brot í næsta TMM – flutti erindi um loftslagsmál, skrifaði stutta grein í leikskrána og nostalgískan pistil í Heimildina. Annars kom ég litlu í verk fyrir utan lestur. Nú er ég í Reykjavík til þess að spila á bassa með Gosa í þáttum sem heita Stúdíó RÚV. Við erum Baldurslausir en Andri fékk Valgeir úr Celebs og Friðrik úr Kvikindi til þess að spila með okkur – og ég held þetta hafi bara svínvirkað. En nú er öll orkan sem ég átti búin. Eftir svolítið langt keyrslutímabil, eiginlega frá því í september – túr, jólabókaflóð, Fiðlari og smá Gosi í restina. Allt hefur þetta samt verið dásamlegt og nærandi, en oft líka keyrt á einhverjum umframorkubirgðum. Ef ég héldi að það gerði mér eitthvað gagn myndi ég sennilega sofa fram á páska en ætli ég reyni ekki fyrst og fremst að tjúna mig svolítið niður, borða hollari mat og hreyfa mig. Og sofa betur, ef ég get. Fiðlarahópurinn var ótrúlegur. Fyrir utan hæfileikana, sem var sannarlega nóg af, var líka bara einhver lífskraftur, gleði og metnaður í samstarfinu. Og ég held við höfum smitað og magnað gleðina, kraftinn og metnaðinn hvert í öðru – með passlegri blöndu af fíflagangi og aga. Það er líka ótrúleg tilfinning að fylgja svona vinnu í höfn og koma á svið verki sem ég held að sé óhætt að fullyrða að hafi raunverulega orðið mjög gott (þótt það hafi ekki alltaf litið út fyrir að svo yrði). Maður verður meyr og fullur kærleika og svo tók við söknuður strax og þessu lauk – alveg þvert ofan í þreytuna, sem ég veit að hrjáði fleiri en mig. Þórhildur hafði á orði á einni æfingunni, þegar við vorum alveg orðin útúrrugluð af kátínu, að alveg væri það furðulegt hvað fólk nútildags dansaði og syngi lítið miðað við hvað það væri augljóslega gefandi. Það er kraftur í því að hreyfa sig sem heild, láta í sér heyra sem heild, sem er til dæmis augljós öllum sem reka heri – þar er þessu beitt sem verkfæri til þess að skapa samkennd milli vígamanna, því heildinni getur auðvitað fylgt öðrun þeirra sem utan hennar standa (= þegar ég tel upp þá sem ég elska er ég líka að telja upp þá sem ég elska ekki; þegar ég tel upp þá sem ég myndi deyja fyrir tel ég líka upp hina). En leikhúsið er ekki vígvöllur, í leikhúsinu er tilgangurinn þveröfugur – þar verður leikhópurinn heild til þess að hræra og uppljóma hina , að drita tilfinningum í gegnum fjórða vegginn – og samkenndin ómenguð af fávitaskap. Ein eftirminnilegasta æfingin, svona eftirá, var ljósaæfingin. Kannski bara af því hún var svo ólík hinum. Hún tók allan daginn og við skiptum okkur niður á vaktir. Það þurfti aldrei nema tvo-þrjá til að standa hér og standa þar meðan tæknifólkið úti í sal réði sínum ráðum. Og sennilega þögðum við uppi á sviðinu mestallan tímann. En ég man við fórum einhvern tíma að tala einmitt um það hvaða menning væri nærandi og hvaða ekki – ef ég man rétt út frá hugmyndinni um að það væri eiginlega alltaf nærandi að fara í bíó, þótt myndin væri léleg, af því þar væri annað fólk, en sama mynd gæti reynst hálfgerð auðn heima í stofu. Eða gæti gert úr manni sjálfum auðn í sófanum, holað mann að innan. Og það væri oftast nærandi að lesa úr bók en ekki endilega af skjá. Þversögnin er svo auðvitað sú að menningarupplifun sem krefst einhvers af manni – einsog t.d. bara að maður standi upp og rölti út í bíó frekar en að kveikja á risaskjánum heima í stofu – skilur við mann hressari á sálina en sú sem á að heita „fyrirhafnarlaus“ og maður velur af því maður nennir ekki hinu. Fyrirhafnarleysið getur hæglega skilið við mann úrvinda og jafnvel hálf-vonlausan; á meðan fyrirhöfnin getur fjörgað mann. En punkturinn var (og er) sem sagt sá að það er yfirleitt alltaf meira nærandi að vera innan um aðra. Og það er meira nærandi og meiri kærleikur í viðstöðulausum fimmaurabröndurum í táfýlumettuðum búningsklefa en í því að liggja einn með fartölvu í kjöltunni og horfa á heimsins færustu fagmenn í gríni leika sínar dýrustu listir. Og eftir margar vikur í einmitt svona táfýlubúningsklefa var þetta svo átakanlega ljóst. Að því sögðu er ég enn talsmaður einverunnar – ég nýt mín mjög vel einn og sennilega þyrfti ég að skipta um starfsvettvang ef það færi að breytast mikið (og nei, eins gaman og það er, blundar ekki í mér löngun til þess að verða dansari, leikari, söngvari eða gítar/bassaleikari, þó ég áskilji mér rétt til þess að sinna slíku í hjáverkum, eftir því sem ég hef orku til). En mikið er annað fólk líka ágætt. Og ekki síst vinir mínir í Fiðlaranum.