Í vaskinn

Í gærkvöldi missti ég kvöldmatinn í vaskinn. Þetta var gufusoðinn þorskur með hvítlauki, chili, engifer og sojasósu. Ég var nýbúinn að samþykkja að vinkona Ainoar myndi borða með okkur. Allir voru sestir. Ég tók bambuskörfuna upp úr wokpönnunni, lagði hana frá mér á kantinn á vaskinum, af því ég ætlaði að finna eitthvað til að hafa undir henni á borðstofuborðinu. Ég vildi að ég gæti sagt að ég væri jafnaðargeðstýpan sem léti nú ekki svona smámuni koma mér úr jafnvægi en í sannleika sagt fannst mér þetta bara frekar sárt. Ég tók samt ekkert brjálæðiskast. Ég æpti eitthvað í augnablikinu, sparkaði svo í eldhúsinnréttinguna fimm sekúndum síðar, og setti upp fámálan fýlusvip í þrjátíu mínútur – sem sótti svo á mig af og til aftur yfir kvöldið, þegar ég mundi allan þennan góða mat í vaskinum, og meira að segja núna, daginn eftir, verð ég leiður við tilhugsunina. Svo gekk ég frá. Sendi vinkonu Ainoar heim. Og við fórum á Thai Tawee. Suma daga gengur bara allt á afturfótunum. Sem betur fer er aukadagur í ár. Ég hlýt að líta svo á að hann sé gjöf til þess að bæta upp fyrir gærdaginn. Mér sýnist reyndar að þessir tveir – 28. og 29. febrúar – verði varla nema hálfgóður hvor, það gengur ekki betur en svo í dag, en samanlagt er þetta kannski heill dagur, það fór einn dagur í vaskinn en eftir stendur sem sagt hinn. Að meðaltali. *** Ég sofnaði ellefu í gærkvöldi en vaknaði aftur fyrir tólf. Var svo vakandi til svona hálffjögur. Kláraði Bonfire of the Vanities – eða réttara sagt hinar sögurnar í þeirri bók (BoV er löng smásaga, gefin út á bók með þremur öðrum). Hlustaði á klukkustund af Dalalífi. Og starði út í loftið. Í stað þess að sofa út í morgun fór ég á fætur til að kveðja Nödju, sem er að fara suður yfir helgina. Settist svo yfir Lótus-ætunum og tveimur ritgerðum í Ulysses-doðrantinum mínum. Ætlaði að fara út að hlaupa en guggnaði á því og fór upp að sofa – svaf í korter og er búinn að vera með höfuðverk síðan. Át yfir mig í hádeginu (pad thai afgangar frá því í hittifyrradag). Horfði á Stephen Colbert mónólóga. Kom á skrifstofuna rétt fyrir tvö til þess að halda áfram að glósa nýja bók og skrifa nokkra pósta (og blogga). *** Kiljuútgáfan af Náttúrulögmálunum kom í búðir í dag. Ég á von á mínum eintökum með póstinum. Ég á ljóð –  Lyklavöld – í TMM sem birtist í póstkassanum í morgun. Það eru allar líkur til þess að NL komi líka út á sænsku – það er tilboð í loftinu og klúðrast varla úr þessu. Mér skilst að það sé mjög gott ef litið er til lengdar bókarinnar – það er víst ekki sama umhverfi og þegar Illska kom út í þúsund löndum fyrir áratug. Bókmenning stendur víðar höllum fæti en á Íslandi, því miður, peningarnir eru á þrotum, markaðsdrifin popúlísk íhaldsstefna í framsókn. En Svíþjóð er (líklega) í höfn. *** Ég leit inn á Facebook á dögunum og fannst tónninn hafa harðnað. Og jú – pólarísering, það má kannski nefna það, fólk er líka reitt vinstra megin – en fyrst og fremst fannst mér einsog tónninn í hægrimönnum væri herskárri. Eða, réttara sagt, tónninn í útlendinga … krítískum? Heitir það það? Ég veit í öllu falli ekki hvort það er gagnlegt eða rétt að tala um hatur – auðvitað eru þeir til sem hata útlendinga en þeir eru miklu fleiri sem eru hræddir við þá, eða hræddir við breytingarnar sem fylgja þeim (og allar aðrar breytingar), og finnst ekki að þeir eigi að bera ábyrgð á bræðrum sínum (en sama fólki finnst oft aðrir ekki nógu duglegir að lesa biblíusögurnar sínar, læra kristinfræðina sína, og muna ekki hvað drottni finnst um þá sem gæta ekki bræðra sinna, eins merkilegt og það nú er). Það var sem sagt svolítið mikið af myndum af múslimum að ríða sauðfé. Og svolítið mikið af statusum um að það ætti að vana (brúna) leigubílstjóra sem fremja kynferðisbrot. Svolítið miklar áhyggjur af stöðu ISIS á Akureyri. Af stöðu Hamas á Reykjanesi. Og mér brá. Svona töluðu færri fyrir nokkrum mánuðum. Hitt hafði ég auðvitað séð í millitíðinni, yfirlýsingar Bjarna og Kristrúnar í fjölmiðlum og stjórnmálamenn sem blanda saman a) hælisleitendum sem er boðið sérstaklega til landsins b) öðrum hælisleitendum c) flóttamönnum d) innflytjendum utan ESB og e) innflytjendum frá ESB. Þetta gerir fólk yfirleitt af óheiðarleik – eða ég get ekki skilið það öðruvísi, það hlýtur að þurfa einbeittan brotavilja til, maður þarf ekki nema lágmarksinnsýn til þess að skilja að hingað geta milljónatugir flutt vandræðalítið, að það gera fáir en þeir sem það gera halda uppi þjóðfélaginu með því að taka að sér vanþakklátustu og verst launuðu störfin, að okkur ber þess utan skylda – bæði lagaleg og siðferðisleg – til þess að afgreiða hælisleitendur og taka á móti flóttamönnum. Og ef við vanrækjum þá skyldu versnar vandinn – spennan í heiminum vex og með henni harmurinn og óttinn (líka okkar megin virkismúranna). Þetta hangir allt saman. Við þurfum að búa okkur undir að geta tekið á móti fólki með miklu meiri skilvirkni en við gerum í dag – og láta ekki bjúrókrasíuna bera velferðarkerfið ofurliði (því það er fyrst og fremst bjúrókrasían sem kostar – og auðvitað þessar tryllingslegu ferðir þar sem fólk fær lögreglufylgd til Grikklands svo megi henda þeim á götuna í Aþenu – og þessi „lokuðu búsetuúrræði“ verða ekki ókeypis, né heldur fangabúðirnar sem sumar þjóðir eru að koma sér upp í þriðja heiminum, ef fer sem horfir verða þær líka okkar Gaza, okkar óleysanlega martröð, staðurinn þar sem við geymum brúna fólkið). *** Ljóðskáldið Lyn Hejinian lést á dögunum. Ég þýddi á sínum tíma brot úr þekktasta ljóði hennar, My Life, og birti í Af steypu, ásamt ritgerð. Hún var eitt af þekktustu „sprokskáldunum“ – language poets – og My Life einhvers konar tilraun til þess að hliðskipa minninu. Ég er ekki viss um að þýðingin mín hafi verið neitt sérstök en það má alveg mæla með bókinni – hún er erfið aflestrar en samt einhvern veginn létt og fljótandi.