Hvað er eiginlega að gerast? Þeir sem voru uppburðarlitlir skápa-rasistar fyrir fáeinum vikum eru orðnir stoltir, útbelgdir og háværir rasistar; þeir sem voru alls ekki rasistar, jafnvel einhvers konar andrasistar, eru nú farnir að máta sig við alls konar gæsagang; og þeir sem voru bara heilmiklir rasistar fyrir, alveg þannig að manni þótti nóg um, eru nú orðnir alveg pípandi vitlausir. Meira að segja Samfylkingarmenn – frjálslyndir vinstrimenn í stjórnarandstöðu – falla nú hver um annan þveran við að auglýsa „ábyrga“ afstöðu sína til „útlendingamála“ og taka þar með beinlínis undir með þeim sem hafa haldið því fram að stefnan hafi hingað til verið „óábyrg“ – og meina þá ekki að hún hafi verið niðurlægjandi, tilgangslaus eða grimmileg, heldur að hingað hafi þvælst óhemja af rumpulýð sem ógni samfélagssáttmálanum (og velferðarkerfinu, segja þessir yfirlýstu sósíaldemókratar). Og þessi lausung sé auðvitað ríkisstjórninni að kenna. Miðflokksmenn kætast að vonum – Bergþór Ólason, frægastur fyrir að hafa uppnefnt ráðherra „skrokk sem typpið á mér dugði í“, fór meira að segja í pontu á þingi á eftir Jóhann Páli, Samfylkingarmanni, til að fagna því að nú væri allir farnir að hljóma einsog Miðflokksmenn. Og þá hló þingheimur, ef eitthvað er að marka Vísi. Dómsmálaráðherra semur síðan harðara „útlendingafrumvarp“ þar sem fólki er meðal annars gert erfiðara að sækja um fjölskyldusameiningu. Baráttan gegn laxeldi á landi er orðin að baráttu gegn erlendu vinnuafli. Íslandsvinurinn Bashar Murad tekur þátt í Eurovision og gröfturinn vellur upp á yfirborð samfélagsmiðla – menntaskólakennari og fyrrverandi formaður Þjóðfylkingarinnar (!) fer svo mikinn að honum er gert að segja af sér starfi. Og hann er svo sannarlega ekki einn á ferð – fyrirferð grófra rasista hefur aldrei verið neitt í líkingu við jafn mikil og síðustu vikur – í takt við þessa „ábyrgu“ stefnu virðulegri stjórnmálamanna í svo til ÖLLUM flokkum. Og svo framvegis og svo framvegis. Þetta ár byrjar satt að segja ekki alveg nógu vel. Því það þarf enginn að efast neitt um að það er svona sem fasisminn festir sig í sessi, leggur undir sig ný landsvæði – með orðljótum og oft ofbeldisfullum vitleysingum í grasrótinni og „ábyrgum“ stjórnmálamönnum sem „hlusta á áhyggjur fólksins“ í fararbroddi. Og sem stendur er bókstaflega ekkert viðnám sem nær máli. Flokkar sem reikna má með að styðji harðari „innflytjendastefnu“ – Miðflokkur, XD, Samfylking, VG, Framsókn og Flokkur fólksins – eru með samanlagt 76,3% atkvæða samkvæmt síðustu könnun Gallup. Ekki veit ég hvað þau ætla að gera í raun og veru – nema jú, kannski skilja eftir fleira fólk á Gaza af því það hentar betur að fólk drepist þar en að það komi hingað. Annars eru innflytjendur á Íslandi aðallega fólk úr Evrópusambandinu – varla vill Samfylkingin segja upp EES samningnum? Varla vill Sjálfstæðisflokkurinn skera niður túrismann – sem kallar á allt þetta starfsfólk? Ekki það – ég veit ekki hvernig maður vindur ofan af svona. Ástandið hefur í sjálfu sér verið að stigversna í a.m.k. 30 ár en mér sýnist vera hafinn nýr kafli hér á landi – með innblæstri úr því lélegasta sem er að gerast austan- og vestanhafs. Reynslan þar hefur líka sýnt okkur að það gerir hvorki gagn að „sýna þessu skilning“ né að reyna hrópa þetta niður. Þessi fávitaskapur er einhvern veginn þannig vaxinn að allt verður honum að vopni.