Ég veit ekki hvort það er lestrar- eða skriftarvandamál en suma daga finnst mér ég varla geta komið frá mér óbjagaðri setningu. Ég sem sagt skrifa eitthvað niður – svona, einsog þetta hér – og les það svo aftur og ef setningin virkar ekki beinlínis röng á mig þá virkar hún í það minnsta vandræðalega kauðsleg. Og stundum er einsog eina leiðin til þess að gera setninguna þokkafullri sé að miðla málum um hugsunina sem í hana á að fara. Hugsa eitthvað annað. Eitthvað rangt. Einhverja klisju. Ég gef ekkert uppi um hvaða meðferð þessar setningar hafa fengið – hvað hefur gerst áður en þið komið til sögunnar – en það var ekki fallegt. Var það Nabokov sem lýsti rithöfundastarfinu þannig að fyrst skrifaði maður bók og svo starði maður á allar setningarnar í henni – í réttri röð – þar til þær hættu að vera svona bjánalegar? Fjarlægði nástöður, mótsagnir, ofstuðlanir, klisjur, nykranir og svo framvegis þar til þetta ólesanlega drasl væri orðið mönnum bjóðandi? Margir hafa orðið til þess að benda á að það sem maður skrifar verði oft, í krafti endurskrifta, á endanum gáfaðra, fallegra og þokkafyllra en maður sjálfur – sem er auðvitað bara önnur leið til þess að benda á að maður er voða vitlaus, ljótur og klaufalegur í grunninn. Í fyrra lagðist ég yfir rithöfundaviðtöl á YouTube og rak mig fljótt á að sama fólkið var alltaf að dúkka upp – voru greinilega vinsælustu viðmælendur, bæði oftast tekin upp, mest lækuð, á vinalegustum nótum við algóritmann – ekki endilega alltaf bestu höfundarnir, þótt flestir þeirra væru góðir, heldur fólkið sem var best í presentera sig og var fært um að hugsa sirkabát heilar hugsanir live. Og ég sem hélt við hefðum öll orðið rithöfundar af því okkur fannst svo erfitt að hugsa upphátt undir augnaráði annarra – að við vildum hugsa í skrifuðum (og leiðréttum, endurleiðréttum, endurendurleiðréttum, ritstýrðum og prófarkalesnum) setningnum bakvið luktar dyr. Sumt af þessu fólki hugsaði sig kannski um. Þagði lengi á sviði og kom svo með eitthvert svar. Ég hef reynt þetta. Ef ég þegi á sviði slokknar bara á hausnum á mér. Það eina sem ég er að hugsa þá er: „ætli ég virðist vera að hugsa núna eða ætli fólk sjái á mér að ég veit ekkert hverju ég á að svara?“ Svo segi ég bara eitthvað. Sennilega hefur mér gefist best að vera bara svolítið óðamála, segja svolítið margt – ég rekst þá yfirleitt á eitthvað gáfulegt fyrir rest. Aðrir voru afslappaðir – spurðu kannski bara á móti, „ég veit ekki, hvað finnst þér?“ en þá oftast til þess að grípa orðið strax aftur og segja eitthvað sem var ekki alltaf gáfulegt, þótt það væri það oft, en virtist ævinlega vera það. Hafði gáfulegt yfirbragð og var borið fram af sjálfsöryggi. Sumt fólk segir svo bara heimskulega hluti með sjálfsöryggi og þeim gengur líka ágætlega. En ég er sem sagt ekki að tala um þau. Ég þekki líka fólk í fjölmennari löndum sem er einfaldlega undirbúið og segir alltaf sömu hlutina – til þess þarf maður eðlilega að vera að tala við ólíkt fólk í hvert skipti. Á Íslandi er maður alltaf að tala við sömu 20 bókabéusana, hvort sem maður er í Kiljunni, Víðsjá eða Bókmenntahátíð, viðtöl ársins koma yfirleitt öll í beit, og maður getur bókstaflega fengið skammir fyrir að endurtaka sig. Ekki þar fyrir að ég missti líka svolítið virðinguna fyrir sumu af þessu fólki í fjölmennu löndunum þegar það rann upp fyrir mér að það átti bara tíu vel æfð og úthugsuð svör við öllum heimsins spurningum. Það er eitthvað sálarlaust við það. Ekki þar fyrir að lífið er leiksvið og la tí da. Elvis. Annars hefur maður ótrúlega litla æfingu í lengri samtölum um bókmenntir. Sjónvarpsviðtal er yfirleitt um 5 mínútur – útvarp kannski 10-15. Á Íslandi er hefð fyrir því að troða helst a.m.k. þremur í hvern panel og gefa honum 40 mínútur. Kannski vegna þess að við erum flest svo léleg í þessu? Sjálfsagt er það líka spurning um hænur og egg. En það eru þá ríflega 10 mínútur á mann. Sem er ekki neitt. Það segir enginn neitt á 10 mínútum. En það nennir heldur enginn að hlusta á lengra viðtal. Er það mótsögn? Þversögn? Refhvörf? Catch-22? Og já, ég veit að hlaðvörpin eru löng – en eru ekki líka allir sammála um að þau séu of löng? Er þetta líka ekki allt bara eitthvað ævisagnablaður? (Ég hlusta aldrei á hlaðvörp; þau eru alltof löng). Hvað um það. Það sem ég vildi sagt hafa: hausinn á mér er fullur af leðju. Ég hef heldur ekkert gert alla vikuna annað en að kvarta undan verkjum og eymslum – sennilega eftir að ég las grein í Dagens Nyheter um að fljótlegasta leiðin til þess að eldast fyrir aldur fram væri að kvarta undan verkjum og eymslum. Þar hafði ríflega sjötug kona orðið. En mér er illt í bakinu og illt í hælnum og ég er búinn að vera með höfuðverk frá því um miðja síðustu viku. Ég ætla að vera skýrari eftir helgi. Og helst eitthvað fram eftir vori a.m.k.