Ég hef stundum byrjað að delera eitthvað um að frásagnabókmenntir séu að verða einu eiginlegu bókmenntirnar – eða einu sem ná marki – án þess að hafa nokkurn tíma sest niður og svarað því með sjálfum mér (eða öðrum) hvað ég eigi nákvæmlega við með þessu. Þetta hljómar samt voða gáfulega. En auðvitað er ég ekki bara að geifla mig út í loftið til þess að hljóma gáfulega, ég er líka að reyna að lýsa upplifun minni. Kannski er þetta í grunninn einhvers konar söknuður eftir meiri tilraunabókmenntum eða módernisma. Mér finnst einsog fleiri og fleiri bækur miði sig að meginstrauminum og stýrist af aristótelískri/Iowa Writers’ Workshop/Netflixískri frásagnartækni, þar sem saman fara ekki bara skýrt skilgreind upphaf, miðja og endir (eða 1. 2. og 3. þáttur) heldur líka svipuð áhersla á „óvenjulegar“ aðstæður og/eða „sérstaka“ karaktera (sem eru gjarnan „venjulegt fólk“ að öllu leyti nema einhverju einu skýrt afmörkuðu), og þess gætt í hvívetna að manni leiðist aldrei. Það er nóg af spennuvökum (cliffhangerum) og boðunum (foreshadowing) og allt sem gerist hangir saman – það eru engir „óþarfa útúrdúrar“, eða annað sem auðveldlega má finna að í ritdómum, án þess að gagnrýnandinn þurfi að réttlæta afstöðu sína nokkuð. Allt sem er skrifað er skrifað til þess að „drífa söguna áfram“, einsog það er kallað. Þær eru yfirleitt frekar konseptsterkar – það má leggja þær upp með spennandi útlistingu upp á tvær-þrjár setningar. Þá er líka lítið fílósóferað – mest í stuttum skörpum hrinum – ákveðin smekklegheit ráða jafnan för (líka þegar fjallað er um hvatamálin verður það alltaf á einhvern máta svo passlegt – engin perversjón er raunveruleg perversjón, meira bara svona hobbí) og undantekningalítið meira „sýnt en sagt“. Einhver orðaði það þannig að höfundar væru orðnir svo miklir fagmenn að þeir gætu hæglega breitt yfir þá staðreynd að þeir hefðu litla persónulega fagurfræðilega sýn og fátt sérstakt að segja (sem þeir þyrðu að segja). Það eru hörð orð sem ég get ekki tekið undir sem lýsingu á samtímabókmenntum – þótt auðvitað rekist maður á eitt og annað sem þetta gæti átt við um. Og kannski er jafnframt ákveðin tilhneiging í þessa átt, að gera handverki og listrænni fágun hærra undir höfði en einhvers konar listrænni/tilraunaglaðri greddu, sem fylgja undantekningalítið fleiri agnúar, þótt fáir séu algerlega undir hælnum á þessari tilhneigingu. Mér sýnist reyndar líka að frásögnin sé að verða meira og meira áberandi í ljóðagerð – ég held að flestar nýjar ljóðabækur sem ég hef lesið í ár hafi verið einhvers konar ljóðsögur þótt þær séu í eðli sínu aldrei jafn miklar frásagnir og skáldsögurnar eða smásögurnar, þær eru alltaf líka að leita leiða út úr frásögninni og inn í tungumálið – og sem sögur eru þær gjarnan frekar sögur sem „hrúgast upp“ brot fyrir brot en sögur sem eru raktar upp með lógískri framvindu. En ég held að ljóðabókum sem segja enga sögu hafi fækkað – og ljóðabækur sem eru í grunninn söfn ólíkra verka, margra ljóða sem eru ótengd að öðru leyti en að þau eiga sér sama höfund, eru afar fátíðar.