Þegar ég var ungur fékk ég alltaf dálitla fró úr því að þjást. Það var einsog vanlíðanin væri merkingarbærari og vonleysið til marks um einhverjar kröfur til lífsins sem maður ætti rétt á að fá uppfylltar. Ég sagði það meira að segja oft að það væri ekki hægt að vera sínískur án þess að vera rómantískur í grunninn, og hafði sennilega upp úr einhverri bíómynd. Að sama skapi var haustið alltaf mín árstíð – þegar sumarljósið var horfið og áður en snjórinn kom í fjöllin. Þá fór ég einn á rúntinn á kvöldin, lagði bílnum neðan við Norðurtangann og reykti sígarettur út um hálfopinn gluggann, hlustaði á tónlist og virti fyrir mér sílúettur fjallanna. Ég veit ekki hvenær þetta breyttist – sjálfsagt gerðist það hægt og bítandi – en þetta er allavega breytt. Nú er kominn desember og það er enn snjólaust og myrkrið er bara myrkur. Kannski finnst manni minna spennandi að felast? Ég reyki líka sjaldnar sígarettur, aldrei við opinn glugga, og sé frekar eftir því en hitt. Sílúetturnar eru samt alltaf jafn fínar. Þegar þeir bíta mig svörtu hundarnir verð ég líka fyrir einhvers konar veruleikabresti. Maður er eðlilega vanur því að leita orsaka vanlíðunar sinnar, til þess að ráða bót á henni, en þegar maður hefur greint sjálfan sig með þunglyndi vill það bara stoppa þar. Það er ekkert að, ég er bara leiður. Og þá þarf maður engu að breyta að undanskildum sjálfum sér og allri manns verund. Nema stundum – annað hvert skipti – og þá svarar maður sjálfum sér með viðstöðulausu nöldri um allt milli himins og jarðar. Það er ekkert að líðan minni, það er veröldin sem er að reyna mig. Helvíti er annað fólk, og sú saga öllsömul. Þá þarf maður blessunarlega ekkert að líta í eigin barm og dugir að umturna veröldinni til þess að líða betur.