Menningarúttektin

Það vantar fjóra milljarða til að standa við skuldbindingar ríkisins um endurgreiðslu til framleiðslu amerískra kvikmynda og sjónvarpsþátta á Íslandi. Svo eyða megi samtals 5,7 milljörðum. Til samanburðar má nefna að það er held ég milljarður í kvikmyndasjóði komplett. Einn sem sagt. Einn milljarður. Auðvitað er þetta annars konar fjárfesting – skilst mér. Jodie Foster kemur með stórfé á móti. Það myndi Edda Björgvins aldrei gera. Ekki það hún sé svona nísk, hún þarf bara ekki jafn margar sminkur eða hljóðmenn. Hollywood hefur margföldunaráhrif og margföldunaráhrif auka hagvöxt og Ísland elskar hagvöxt. *** Ég skal alveg viðurkenna að í hégóma mínum eftir tilnefninguna í síðustu viku hélt ég kannski að Frankensleikir kæmist inn á Topp 20 á bóksölulistanum. En það er víst ekki. Ég hef lært að maður eigi ekki að reyna að halda aftur af neikvæðum tilfinningum sínum heldur leyfa þeim að skola yfir sig. Annars sé hætt við að þær sitji fastar í manni. Og því sit ég hér holdvotur af biturð og læt einsog ekkert sé. Auðvitað er mér nokkur huggun í því að vera ekki einn í eymd minni samt – Sigrún Eldjárn, Lóa Hlín, Arndís og Elísabet, sem voru tilnefnd ásamt okkur Elíasi Rúna, eru heldur ekki á metsölulistanum. En þetta er auðvitað undarlegur listi. Alls konar ólíkar bækur á honum og sumir höfundar með margar. Bækur eru auðvitað gjafavara, svona almennt – sem þýðir að fólk hugsar sjaldnast við bókakaup hvað það vill sjálft lesa, heldur setur sig í spor einhvers annars, spyr sig hvað einhver annar vilji lesa, og þá tekur maður síður áhættu. Þegar ég var sjálfur bóksali var maður oft bara spurður hvað væri vinsælt – „hann er 11 ára“. Birgitta Haukdal er með fjóra titla á listanum – David Walliams er bara með einn (hann var með nokkra síðast þegar ég gáði). Ævar Þór er með tvo. Bjarni Fritzson er með tvo. „Höfundar og þýðanda ekki getið“ er með tvo – það eru bækur frá Bókafélaginu, Jólaföndur og Leikum með sveinka. Svo eru Gunnar Helga þarna og Helgi Jónsson/Anna M. Marínósdóttir (sem skrifa bókina með fuglahljóðunum). Aðrar bækur eru þýðingar – Lars Mæhle, Jeff Kinney og fleiri. Aðeins þrjár konur eru á listanum – Anna M., Birgitta og kona sem heitir Rhea Gaughan og er hönnuður hjá Priddy Books (þegar maður gúglar henni kemur í ljós að hún er hvergi skráður „höfundur“ að þessum bókum nema á Íslandi). Og ellefu karlar. Til samanburðar má nefna að frá 2019 til 2022 voru tilnefndir alls þrír karlar í barnabókaflokki – og tveir þeirra bera ábyrgð á Frankensleiki – en 21 kona, og engin þeirra var Birgitta Haukdal. Ellefu metsölukarlar, tuttuguogein tilnefningakona. (Þessu eiginlega ótengt kíkti ég um daginn á lista yfir 30 vinsælustu bækur á Goodreads í ár – sem lesendur Goodreads bæta oftast á hilluna sína – og þar var ekki einn karlhöfundur). (Og líka ótengt tek ég eftir því að af fimm bókum tilnefndum í fagurbókmenntaflokki fullorðinna komast þrjár inn á bóksölulistann – bækur Auðar Övu, Kristínar Eiríks og Sigríðar Hagalín – en bækur Pedros og Dags eru úti). Bækurnar í barna- og ungmenntaflokknum eru líka mjög ólíkar – ólíkari en ég á að venjast úr „innbundin skáldverk“. Þar finnst manni kannski stundum að Arnaldur og Yrsa ættu að vera í öðrum flokki en Bragi Ólafs og Bergþóra Snæbjörns – enda getur krimmi sem selst lítið (af krimma að vera) auðveldlega selt miklu meira en metsölubók í „fagurbókmenntaflokki“. En hvað finnst manni þá um að vera með skáldverk í sama flokki og Jólaföndur ? Alveg að jólaföndri ólöstuðu, auðvitað, jólaföndur er frábært. Eða með Jólasyrpu Walts Disney (sem er skráður höfundur en er það auðvitað ekki – og þar með fær í sjálfu sér „höfundar og þýðanda ekki getið“ sína þriðju bók á lista – fjórðu ef við teljum Litlu börnin læra orðin sem skráð er á Rheu Gaughan) – er það ekki svolítið einsog ef safnrit Mannlífs væri mest selda bók ársins? (Viðskiptahugmynd fyrir næsta jólabókaflóð: binda inn árganginn af Mannlífi og selja sem bók). *** Einu sinni gaf Nýhil út ævisögu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar í þremur bindum. Þetta voru ljósritaðir tvíblöðungar sem Óttar Martin Norðfjörð skrifaði. Við gættum okkur sérstaklega á því að stilla verði í hóf og hafa þetta allt merkt eftir kúnstarinnar reglum – með ISBN númeri og strikamerki og öllu saman, svo FÍBÚT myndi neyðast til þess að taka bókina alvarlega á metsölulistunum. Sem hafðist alveg þar til FÍBÚT gerði uppreisn og sparkaði Hannesi af listanum. Af því að þetta var ekki bók. Eða var ekki ævisaga. Eða var ekki kurteist. Eða eitthvað. Mig minnir að við höfum reynt að kæra bókina aftur inn á listann en það mistókst áreiðanlega. Allt sem er skemmtilegt mistekst. *** Það LOGAR ALLT Í ILLDEILUM í bókmennta-Svíþjóð (eða, það hafa verið skrifaðar sennilega 4-5 greinar) út af pistli eftir Björn Werner, sem sat í nefndinni fyrir Augustverðlaunin. Augustverðlaunin eru stærstu bókmenntaverðlaun Svía og líkt og Íslensku bókmenntaverðlaunin eru þau í eigu sænskra bókaforlaga. Í grein þessari kvartaði Werner mjög yfir því að þetta hefði allt verið svo hræðilega leiðinlegt. Hann hefði þurft að lesa langar og leiðinlegar bækur þegar hann hefði getað verið að horfa á The White Lotus . Ljóðabækurnar, sagði Werner, voru ábyggilega fínar en Werner skilur ekkert í ljóðum, aldrei haft gaman af þeim og sofnaði ítrekað þegar hann reyndi að lesa þau og finnst undarlegt að það sé verið að tilnefna ljóð, þegar fólk skilur almennt ekkert ljóð og finnst þau bara leiðinleg. Ég er ekki einu sinni að ýkja. Hann skrifaði þetta allt. Að meðtöldu þessu um að sofna yfir ljóðunum og vilja heldur horfa á The White Lotus (en að lesa nýjustu skáldsögu Johannesar Anyuru – sem er vel að merkja ekki þekktur fyrir neitt módernískt torf). Það þarf að vera með reikning hjá SVD til að lesa greinina en hún er hérna fyrir þá sem hafa áhuga . Í Svíþjóð eru auðvitað fleiri bókmenntaverðlaun. Þegar það stendur utan á þýddri bók á Íslandi að hún hafi „unnið sænsku bókmenntaverðlaunin“ er yfirleitt verið að vísa til „Årets bok“ sem eru verðlaun sem bókaklúbbar Bonnier veita og eru sérstaklega stíluð inn á bækur sem ná til breiðs lesendahóps. Vinsælla bóka. Þau þykja ekkert sérstaklega „fín“. *** Á bókmennta-Íslandi var hins vegar tekist á um það í vikunni hvort breyta ætti fyrirkomulagi Íslensku bókmenntaverðlaunanna þannig að tilnefnt yrði eftir jól og verðlaunin svo veitt með hægð um vorið. Koma þeim út af markaðsbúgarði jólanna og nota þau heldur til þess lífga við bókmenntaumræðuna á daufasta árstímanum. Egill Helgason tók þessa hugmynd upp á sína arma og studdi hana, að mér sýndist, á Facebooksíðu sinni. Í sjálfu sér óvitlaus hugmynd fyrir bókmenntaumræðuna en ég held það sé enginn áhugi á slíku hjá FÍBÚT. Þetta eru markaðsverðlaun og markaðslögmálunum samkvæmt er auðveldara að selja meira af hlut sem selst hvort eð er, á þeim tíma sem hann selst, en að selja annan hlut á sama tíma eða sama hlut á öðrum tíma. Altso, til þess að selja aukaeintak af Arnaldi í desember þarftu að bústa Arnald fyrir tiltekna upphæð – ef þú ætlar að bústa Arnald í apríl eða bústa eitthvað annað í desember þarftu að eyða meiri pening per hvert aukaeintak sem þú selur. Af sömu ástæðu auglýsa forlögin líka fyrst og fremst þær bækur sem eru þegar á hreyfingu – en draga skipulega úr auglýsingum þeirra bóka sem hreyfast minna eftir því sem við færumst nær jólum. Þeim hættir að vera viðbjargandi, frá sjónarhóli markaðsins. Og forlögin hætta svo alveg að auglýsa bækur þegar jólabókaflóðinu lýkur. Íslensku bókmenntaverðlaunin eru ekki bara auglýsing – ef þau verða of billeg enda þau einsog årets bok í Svíþjóð og skipta þar með minna máli, verðlaun verða að vera dálítið snobb, verða að vera dálítið elitísk, annars missa þau gildi sitt – en þau eru samt alltaf að hluta auglýsing og lúta að mörgu leyti sömu lögmálum. Hins vegar mætti líka spyrja sig hvers vegna RÚV – Kiljan og Lestin og Víðsjá og Orð um bækur og allir hinir – veiti ekki sín eigin stóru bókmenntaverðlaun? Í Svíþjóð er fremur algengt að fjölmiðlar veiti bókmenntaverðlaun og teljast sum þeirra til stærstu bókmenntaverðlauna þjóðarinnar – þar má nefna til dæmis Aftonbladets Litteraturpris, Sveriges Radios Romanpris, Sveriges Radios Lyrikpris og Svenska Dagbladets Litteraturpris. Stofnuninni væri líka í lófa lagið að vekja athygli á slíkum verðlaunum, einsog tilnefndum og verðlaunuðum bókum.