Endur, fyrir löngu

Í dag eru fjórar vikur frá því Einlægur Önd kom út og ef frá er talin umsögn bókavarðarins á Höfn í Hornafirði, sem er að vísu mætur maður og var mjög ánægður með mig, hefur bókin ekki fengið mikil viðbrögð. Með hverjum deginum sem líður verð ég meira og meira stemmdur einsog maðurinn í sögunni um tjakkinn . Svona grínlaust þá held ég að þetta sé nú samt allt að fara í gang. Ég fór í viðtal í Bókahúsinu í gær, í Kiljunni áðan og fer og hitti fulltrúa Víðsjár á morgun. Ég verð meira að segja í Kveik í kvöld, og þótt ég sé ekki að tala um bókina þar er ég samt líka að því, í einhverjum yfirfærðum skilningi. Svo hef ég líka loksins farið að „heyra í fólki“ á síðustu dögum. Fram að því fannst mér bara næstum einsog þetta væri einhver misskilningur, ég væri ekkert búinn að gefa út bók, hún væri bara enn á leiðinni – og hafði ég þó lesið upp úr henni oft og selt mörg eintök sjálfur. Kannski skýrist þessi undarlega þyngdarleysistilfinning líka bara af fremur hamslausu verkjalyfjaáti vegna hnésins. Ég haltra um með staf og hatt í íbúfenskýi. Á morgun fer ég í segulómun. Mig grunar að það verði fremur góðar fréttir en slæmar – hef góða tilfinningu fyrir því að þetta sé allt að batna. Rétt í þessu bárust þau boð að búið væri að aflýsa eina upplestrinum mínum í borginni. Bókakonfekt Forlagsins sem átti að vera á Laugavegi 18, þar sem Forlagið er einmitt með nýja búð, hefur verið blásið af. Jæja.