Ég er á Heathrow. Það eru 20 mánuðir síðan ég flaug á milli landa síðast. Að hluta helgast það af því að ég tók Norrænu bæði til og frá meginlandinu þegar við bjuggum í Svíþjóð – Nadja og krakkarnir flugu aðra leið. Og svo hefur bara af einhverjum orsökum verið mjög lítið um ljóðahátíðir og bókamessur síðustu misserin og verður sennilega nokkuð áfram. Það er í öllu falli búið að aflýsa bókamessunni í Reykjavík – sennilega verður eitthvað af viðburðunum haldnir rafrænt. Í streymi. Mér þætti mjög leiðinlegt ef þið horfðuð ekki á öll á samtal okkar Fríðu Ísberg í þessu streymi en mér verður sjálfum næstum flökurt bara af því að heyra orðið „streymi“ svo ég skal alveg skilja það ef þið ákveðið bara að taka slátur eða læra loksins vinnukonugripin eða föndrið jólagjafir eða eitthvað. Frá því svona 2008 hef ég sennilega farið að meðaltali eitthvert einu sinni í mánuði. Eða meira. Árið 2013 bjó ég meira og minna í bakpokanum mínum, sem gaf sig einmitt rétt fyrir covid eftir áralanga dygga þjónustu. Bara það ætti að hækka meðaltalið hressilega. En síðustu tvö lækka það mjög aftur. Síðasta ferðin var í febrúar 2020 og þegar ég kom heim lagðist ég flatur í flensu í fjórar vikur – aflýsti einum viðburði (sem er búið að bjóða mér á aftur, rétt í þessu – Atlantide í Frakklandi) og þegar ég steig á fætur var veröldin öll önnur. Í stað þess að túra heiminn (eða allavega næstu nágrannalönd) stofnaði ég hljómsveit með börnunum mínum. Hún heitir Sjökvist og við lékum á okkar fyrstu tónleikum í fyrradag – á undan og eftir stuttum upplestri úr Einlægum Endi/Önd. Það var sturlað stuð og ég hélt ég myndi springa úr stolti. Mér finnst einsog þjóðareinkenni fólks hafi hugsanlega skerpst á þessum einangruðu 20 mánuðum sem eru liðnir. Íslendingarnir á ferðalagi eru meiri Íslendingar á ferðalagi, einsog Bretarnir og Ameríkanarnir. Einn Íslendingur var (sennilega) fullur í innrituninni í morgun, rosa hress, talaði við alla. Það gerðu Ameríkanarnir í covid-testinu í gær líka – nema þeir voru edrú og alveg fram úr hófi „viðkunnanlegir“ við allt og alla í kringum sig. Ameríkanar eru voðalega hrifnir af mannlegum samskiptum. Síðan var breskt par á flugvellinum í morgun – rúmlega tvítug, bæði svolítið í holdum, hún í þröngu með mikið bert á milli og hann bara með grímuna á nefinu (ath. ekki yfir munninum – bara yfir nefinu, einsog hann vildi ekki byrgja bjórgatið). Eitt íslenskt B-seleb með grímuna á hökunni, einsog hann óttaðist að almúginn bæri ekki kennsl á sig. Ein íslensk stelpa sem sagðist ekki þekkjast í andlitsskannanum af því myndin í vegabréfinu hefði verið tekin „fyrir nokkrum varafyllingum síðan“. Og hamborgarinn sem ég fékk hér áðan var bara ofeldaður kjöthleifur í þurru brauði sem molnaði þegar maður tók það upp – alveg einsog maður fékk alltaf fyrir 20 árum! Áður en hipstermetnaðurinn og glóbalisminn þurrkaði út allan mismun. Í flugvélinni áðan voru farþegar minntir sérstaklega á að í neyðartilfelli þyrftu þeir fyrst að taka niður andlitsgrímurnar áður en þeir settu upp öndurnargrímur. Það þótti mér svolítið fyndið en áttaði mig á því að kannski fattaði fólk þetta ekki og margir köfnuðu og það er auðvitað ekki fyndið, það er harmleikur. Það eru ennþá fjórar og hálf klukkustund þar til flugið mitt til Vínar fer. Mér finnst líklegt að ég verði sóttur – giggið er í Bratislava – en ég hef svo sem ekki spurt. Annars er ég pínu blúsaður. Ekki af neinni sérstakri ástæðu. Svaf lítið í nótt, fyrir flugið; það er leiðinlegt að vera haltur í biðröðum og öryggistékki; venjubundin bókaflóðskvíði og svona. Ég er búinn að gera heilmikil plön fyrir útgáfuhófið mitt en mér sýnist fremur hæpið að af hófinu verði – það er allt að loka. Baðendurnar eru til dæmis komnar. Hvað á ég að gera við endurnar ef það verður ekkert útgáfuhóf? Þær þrífast ekki í streymi, frekar en ég.