Ef ég væri jafn vinsæll í öllum borgum og bæjum í Svíþjóð og ég er í Laholm væri ég ríkur maður. En svo er ekki. *** Laholm mætti að ósekju vera aðeins stærri. *** Hins vegar lifi ég nú í ákveðnum lúxus, því verður ekki neitað. Ég er í næturlestinni í einkasvítu. Með klósett og sturtu og hárblásara og ég veit ekki hvað. *** *** Lífið er annars voða rólegt. Ég sakna Nödju og A&A og sé þau ekki í heila viku til viðbótar. Á morgun á ég frídag sem ég þarf ekki heldur að nota til að uppfylla neinar félagslegar skyldur og þá fer sá frídagur í að skrifa og senda út reikninga. *** Það er þetta með hvaða daga maður kallar frídaga. Það eru sennilega dagarnir sem maður notar í það sem manni sýnist. Vel að merkja ætti það ekki að taka mig nema korter að senda reikningana. *** Ég át alltof mikið í dag og er allur uppþembdur. *** Ég keypti mér pizzu meðan ég beið eftir lestinni frá Hässleholm, eiginlega bara af því mig vantaði á klósettið, og svo át ég pizzuna. Sem nær náttúrulega ekki nokkurri átt. Ég hefði líka getað eytt 10 SEK í klósettferð á lestarstöðinni en ég átti bara ekkert klink og það fær maður ekki heldur í hraðbönkum. Eftir stendur að ég hefði líka getað keypt mér bara vatnssopa – eða pissað úti, einsog túristar gera víst – en ég var líka pínkuponsu svangur. Hefði t.d. vel getað borðað eitt croissant. En ég hafði ekkert við þessa pizzu að gera sem var þess utan miklu matarmeiri en ég hafði gert mér í hugarlund. *** Pizzan var ekki heldur góð. Pizzur í Svíþjóð eru það yfirleitt ekki – þótt á því séu augljóslega undantekningar. *** Vondur matur er eiginlega smám saman að hverfa af vesturlenskum veitingastöðum; hipsterbyltingin plús stærri og frekari og meðvitaðri millistétt plús snobb plús innflytjendur plús margir-hafa-ferðast-útum-allt-og-það-breytir-viðmiðinu. Plús sennilega eitthvað fleira. Ég kann ágætlega við vondan mat. Í alvöru. En það gerir hann ekki góðan og maður ætti sennilega ekki að troða í sig pizzu klukkan 23 að kvöldi sérstaklega ef hún er vond bara af því maður var í spreng.