Dagur eitt í Författarskolan för unga að kveldi kominn. Hann fór mestmegnis í kynningar og einföld verkefni. Eftir kvöldmat sátum við ellibelgirnir og ræddum bókamessuna í Gautaborg og vandræðin í kringum þátttöku fasistatímaritsins Nya Tider, sem hefur leitt af sér meiriháttar bojkott. Af þeim okkar sem er boðið er ég sá eini sem hefur þegið. *** Ég mæti. Og við erum í sjálfu sér ekki ósammála um að aðstæður mínar séu aðrar. En ég mæti samt með óbragð í munninum. Og fjarska forvitinn um hvernig allt saman fer. Ég veit ekki hvort forvitnin myndi leyfa mér að sitja bara á Ísafirði meðan herlegheitin fara fram. *** Marét-Anne, samíski kennarinn sem er með í fyrsta sinn í ár, spurði mig í gærkvöldi hvort það væru nokkuð birnir í skóginum. Það eru ekki birnir í skóginum en í morgun þegar ég fór út að hlaupa ímyndaði ég mér samt í hverju skrefi að nú ryddist björn út úr laufþykkninu og biti úr mér stórt stykki. Voðalegt hvað ímyndunaraflið getur farið illa með mann. *** Hér eru ekki einu sinni moskítóflugur í ár. Yfirleitt er varla hundi út sigandi fyrir þessum bitsvíðingum.