Ég er ekki andlega fær um annað á ferðalögum en að éta og blogga. Einstaka sinnum les ég. En það er eitthvað við að vera in transit. Ég bara dett út. Sem er ekki nógu gott því ég eyði núorðið stórum hluta af lífi mínu í einhverjar helvítis millilendingar og rugl. *** Ég þarf að fara að kaupa mér eitthvað að borða. Ekki vegna þess að ég sé svangur. Því fer fjarri. Heldur af því að það er það sem ég geri á flugvöllum. *** Upphaflega ætlaði ég að fara heim á morgun. Eða til Västerås. Heim í merkingunni „til fjölskyldunnar“. Where the heart is. Og þá hefði ég farið með lest. Eytt öllum deginum í lest og komið skömmu fyrir miðnætti. Það var skyndihugdetta að fara heim í dag – í ljósi þess að við kláruðum bókina og það var ekkert á dagskránni hjá okkur í dag. Nema að bíða. *** Þetta er hryllilega óumhverfisvænt. Ég er með vistspor á við lítið þorp. Ef ég myndi hætta að ferðast væri markmiðum Parísarsamkomulagsins náð. Med det samme. Einsog þeir segja hérna. Med det samme! *** Ég er að verða svolítið peppaður fyrir EM. Ég veit maður á ekki að segja svona, en sennilega töpum við samt fyrsta leiknum. Það er vont fyrir móralinn. Það væri rosa bratt að vinna Frakka. En ég er samt peppaður. Og held auðvitað með Svíþjóð til vara. Og auðvitað getum við unnið Frakka. Ég er ekki að segja það! Við bara vinnum Frakka. *** Svo er Gunnar Nelson held ég að fara að berja einhvern í kvöld. Mér finnst þessar barsmíðar alltaf pínu erfiðar. Samt er einhver skemmtilegasti íþróttaleikur sem ég hef horft á bardagi með George Foreman og ungum boxara sem ég man ekki hvað hét. Samt eitthvað rangt við barsmíðar. Sennilega eru þær samt verstar fyrir þá sem taka þátt í þeim. Það er óþarfi að ég sé að vorkenna mér að Gunnar Nelson sé að lemja fólk.