Ég er á Midt-Jyllands Lufthavn í Karup. Hingað mætti ég með tveggja klukkustunda fyrirvara, einsog maður gerir þegar maður fer í alþjóðaflug. Flugvöllurinn var yfirgefinn. Ég þurfti að kalla á fólk til að tékka mig inn og gegnumlýsa handfarangurinn minn. Þetta er svolítið einsog að eiga sinn eigin prívat flugvöll. Og hann er ekki lítill – það eru áreiðanlega 10 hlið hérna, tvær stórar kaffiteríur (báðar lokaðar) og bílastæði einsog í Kringlunni. *** Við kláruðum bókina. Remember Europe . Sendum prufu á útgefanda sem tók andköf og heimtaði að fá að sjá allt. Raunar svöruðu báðir útgefendurnir sem við spurðum mjög jákvætt. En annar var sem sagt bókstaflega í skýjunum. *** En er bókin góð? Eiginlega er hún mjög vond. En það er hluti af estetíkinni og ætti ekki að koma að sök. Þetta er performans á heimsku og fávisku, fordómum og andlegri uppgjöf. *** Ég fékk lesendabréf. Fyrsta lesendabréfið mitt! Viðkomandi (nú skrifa ég einsog danski útgefandinn, dálítið kryptískt) er einn af helstu höfundum þjóðarinnar og mjög ánægð með bloggið mitt, en óánægð með síðustu færslu – eða hafði í það minnsta við hana nokkrar góðar og gildar athugasemdir. Auðvitað er ekki hægt að láta einsog kynhneigð sé alltaf val – þótt þess séu dæmi. Það er raunar fráleitt og það ætlaði ég alls ekki að gera. En hún er kannski ekki minna virði þótt hún sé val – eða þótt hún væri val (ef við gefum okkur að hún sé það aldrei, ekki einu sinni hjá þeim sem segja það). Maður má. *** Það stýrir náttúrulega ekki heldur góðri lukku að velja hvern maður elskar. Ekki fyrir alla, að minnsta kosti. Að giftast til fjár eða frama. Para sig einhverjum sem er seif og góður við börnin. Maður verður að meina þetta. *** En ástin er ekki bara að elska. Hún er líka að gera. Annars vegar er hún tilfinning sem heltekur mann og hins vegar er hún allt sem maður gerir fyrir þá sem maður elskar. Maður getur elskað án þess að gera neitt í því. Verið alveg hamslaus af ást að innan en hagað sér af innantómu hatri út á við – eða blindri sjálfselsku. Hunsað velferð þeirra sem maður elskar. Ég er ekki viss um að ástin sem maður finnur til sé neitt ómerkilegri fyrir það – maður er bara ruglaður og nær ekki að breyta henni í kraft til góðs.