Ég held að við – þ.e.a.s. mannfólkið – séum miklu meira líkamlegar langanir og þrár en við kærum okkur um að viðurkenna. Af einhverjum orsökum upplifum við líkamlegar þrár sem ónáttúrulegar – eða óréttlætanlegar – en andlegar þrár sem réttlætanlegar og náttúrulegar. *** Að hluta til er það vegna þess að okkur finnst við geta kennt „öðrum“ (kapítalismanum, feðraveldinu, félagslegum þrýstingi) um margt af því andlega. Við erum augljóslega félagsverur og lifum ekki í vakúmi. Hins vegar finnst okkur við ráða yfir eigin líkömum – og okkur er kannski mikilvægt að ímynda okkur einhvers konar líkamlegt átonomí. *** Það er skelfileg hugsun að vera á valdi líkama síns. Í því felst einhvern veginn tilvist handan siðferðisins, handan hins vitræna. *** Ég á til dæmis við: ef maður lifir óhollu lífi, þá er það vegna auglýsinganna eða hysterísks samtímans, en ekki bara vegna þess að sykur/áfengi/fita o.s.frv. er ávanabindandi. *** Við viljum heldur ekki að langanir okkar séu val. Það er mörgum mjög mikilvægt að fólk fæðist með kynhneigð sína, frekar en að það einfaldlega velji hana. Að það fæðist af tilteknu kyni – innra og ytra. Þannig er nánast rangt að skipta um kyn – maður má bara leiðrétta það. Maður verður að hafa fæðst af röngu kyni. *** Í þessum skilningi viljum við helst vera á valdi líkama okkar. *** En auðvitað skiptir engu máli, í raun og veru, hvort maður velur kyn sitt eða kynhneigð eða hvort það er manni áskapað.