Við erum að verða búin að ganga frá heimilinu. Sjökvist, heitir það, þetta hús. Og bráðum fer það í útleigu. Fyrstu gestirnir eru eldri sænskir herramenn sem eru fæddir hér og bjuggu fram á unglingsaldur. Þeir eru að koma með pabba sínum. Heim, segja þeir, eru glaðir að vera á leiðinni heim. *** Í gærkvöldi héldum við Jónsmessu. Sill och potatis. Jordgubbar og grädde í eftirrétt. Mamma og pabbi komu. Svo fór Nadja á djammið og ég lagði Aram. Raunar kom svo hópur af vinum óvænt í smá heimsókn – Jón Bjarni Atlason, þýðandi og bókmenntamaður, Ólafur Guðsteinn íslenskukennari, skáld, pönkari og kántrístjarna og Helga Þórsdóttir, menningarfræðingur og byggðasafnsstjóri. Þau hjálpuðu mér að klára bjórinn sem var eftir í húsinu og hefði annars bara orðið túristunum að bráð. *** Í dag fór ég líka í kaffi til Baldurs Smára æskuvinar míns og fjölskyldu hans. Sólin er loksins komin eftir sannarlega ömurlega daga upp á síðkastið og við sátum í garðinum og spjölluðum. Svo leystu þau mig út með heljarinnar myntublómi sem ég gróðurset hér hjá mér. Þá verður nóg af myntu þegar við komum aftur. *** Og talandi um vini þá er Haukur Már 39 ára í dag. Mánudaginn, sumsé. Margfaldlega, þráfaldlega húrra fyrir því!