Untitled

Ég var nývaknaður að drekka morgunkaffið mitt þennan laugardag þegar ég rakst á eftirfarandi spurningalista hjá ónefndum dönskum forleggjara af íslenskum ættum, yo, og hugsaði að nú væri ég ekki á Facebook og því tilvalið að taka þátt í því sem nútildags heitir „Facebookleikur“, þótt hann væri bara svona á bloggi. Í fornöld gerðist allt sem skipti máli á blogginu. *** Í öllu falli: Hvaða bækur liggja á náttborðinu þínu? Kaputt eftir Malaparte. Stóri skjálfti eftir Auði Jóns. Orðspor eftir Juan Gabriel Vasquez. Þær tvær síðastnefndu bara af því ég á eftir að fjarlægja þær. Á klósettinu er Flarf: Anthology og á skrifstofunni – eða það sem var í lestri á skrifstofunni þar til ég tók til í gær og pakkaði saman – var Ég er ekki að rétta upp hönd eftir fjölda höfunda, Ég er hér eftir Soffíu Bjarnadóttur og Sprungur eftir Jón Örn Loðmfjörð. Þær eru allar „í lestri“ og eiga því heima hér. Á hillunni í lestrarhorninu okkar Arams og Ainoar er svo Mómó og sægur af myndabókum. Hvenær lastu síðast bók sem þér fannst frábær? Og hvaða bók var það? Mér finnst bækur oft vera frábærar. Ég las Manntafl í fyrsta skipti nýlega og var uppnuminn – ekki síst af frásagnartækninni, sem hljómar nördalegar en ég meina það. Frásagnarlistinni. The Left Hand of Darkness náði mér líka nýlega. Hvað ræður því hvaða bók þú ákveður að lesa. Ritdómar, meðmæli frá vini eða eitthvað annað sem vekur forvitni? Meðmæli skipta oft miklu. Ritdómum fletti ég oft upp þegar ég er að spá í hvort ég eigi að lesa a, b eða c næst. Ég les þá líka í rauntíma – þegar blöðin koma – en ég les yfirleitt ekki bækur sem eru í deiglunni. Gef þeim 1-2 ár og helst meira. Oft bý ég mér til reglu. Bara víetnamskar bækur. Bara bækur eftir konur. Bara pólitískar skáldsögur. Bara ljóð eftir útlensk skáld. Bara kanónu. Bara skáldsögur eftir vini mína. Þetta er mjög arbítrari og í raun fyrst og fremst til að skapa fyrsta filter – svo það sé minna úrval og minni valkvíði. Hvaða starfandi rithöfund – leikskáld, blaðamann, ljóðskáld, gagnrýnenda – dáir þú mest. Sennilega er það Coetzee. Hann er brjálæðislega hugrakkur. Starir niður heiminn. Ég dáist almennt að blaðamönnum og gagnrýnendum en stéttin sem slík má muna sinn fífil fegurri – fagurfræði krítíkunnar er alltof seif í dag. Of mikil og of ódýr greining á kostnað samræðu um listina og  mats (og þá er ég ekki að tala um stjörnugjöf). Af starfandi ljóðskáldum finn ég mig líklega enn mest í UKON. En svo víða líka – ljóðlistin er svo brjálæðislega stór og stundum finnur maður sig svo mikið í litlu. Lína hér og lína þar og maður er aldrei samur. Hvenær er best að lesa? Það er best að lesa á morgnana eftir að Aram er farinn í skólann og þar til að Aino vaknar. Þetta geri ég reyndar bara þegar Nadja er ekki í bænum. En sem sagt betra að lesa á morgnana en kvöldin og best að lesa þegar maður er einn í heiminum og búinn að sofa úr sér áhyggjurnar. Þetta er svona hálftími til klukkutími og stundum bara fimm mínútur, en þarna er skerpan mest, kollinn skýrastur. Ég les samt mest á kvöldin í rúminu. Það er ömurlegur tími til að lesa. Hver er eftirminnilegast bókagjöf sem þú hefur fengið? Steinar Bragi gaf mér Ytri höfnina eftir Braga Ólafsson áritaða til Dags Sigurðarsonar í afmælisgjöf einu sinni. Sennilega þrítugs. Af einhverju hybris krotaði ég í hana með ljótu rithöndinni minni (Bragi skrifar fallega) að þetta hefði Steinar gefið mér. Sennilega talaði ég m.a.s. um mig í þriðju persónu. Frá Steinari Braga til Eiríks Arnar. Maður getur verið svo mikið fífl. En bókin er samt enn falleg. Nadja gaf mér líka afskaplega fallega bók einu sinni með ljóðum ungverskra skálda. Amma mín gaf mér þrjú jól í röð – þegar ég var 8, 9 og 10 ára – Þúsund og eina nótt í þremur bindum. Ekkert þeirra entist mér nema fram að áramótum. Hvaða bókmenntapersóna er í mestu uppáhaldi? Raskolnikov er kannski ekki í uppáhaldi – hann er ekki þannig fígúra, honum er náttúrulega vorkunn þegar manni ber ekki beinlínis skylda til að hata hann. En hann á eitthvað í mér. Woland líka. Lukku-Láki. Sjerasade. Orlando. O.s.frv. Annars finnst mér bara einsog ég sé að skilja mitt eigið fólk út undan – svara spurningunni um hvaða börn annarra ég elski mest. Af mínum er það Agnes, Halldór og Þrándur. Mér finnst alltaf erfitt að hafa skilið þau eftir. Hvers konar lesandi varstu sem barn? Sjá þetta með Þúsund og eina nótt. Ég las margfalt hraðar sem barn en ég geri í dag. Og margfalt meira. Ég las allt. Ég var sjúkur í bækur. Alveg þar til ég varð svona tólf ára og missti áhugann. Var síðan erkitýpískur unglingsstrákur sem allir hafa áhyggjur af vegna þess að hann vill bara vera í tölvuleikjum og á hjólabretti eða safna hári og spila á gítar. Datt svo um Allen Ginsberg og Dostójevskí þegar ég var 16-17 ára – í gegnum Bjarna Þór, vin minn – og uppgötvaði bókmenntir alveg upp á nýtt. Eiginlega var það allt annar heimur en sá sem ég hafði verið í sem barn. Ég las að vísu líka mjög mikið í menntaskóla – skrópaði mig út úr mörgum áföngum og var fimm ár að klára því ég fékk aldrei að taka próf  vegna mætingar (af því ég var ýmist á Café Castro eða bókasafninu að lesa). En ég las hægar og öðruvísi og það hafði annars konar áhrif á mig, sem ég er ekki viss um að ég sé nógu þroskaður enn til að koma í orð. *** Einhverjar fleiri spurningar? *** Bubbi stóð annars fyrir sínu í gær. Þeir Viktor komu og sátu með okkur Nödju í kvöldmatnum á Edinborg bistró – balkanska kjötlokan, sem er ný á matseðli, í boði króatíska kokksins sem heitir víst Amir, var hreinasta dásemd. Um þetta vorum við Bubbi sammála, hann hafði fengið sér hana í hádeginu held ég. Annars töluðum við mest um Slash – sem okkur finnst líka dásemd – og Forbes-aðalinn sem Bubbi er kominn af. *** Bubba varð tíðrætt um að hann væri að leita að einhverju organísku í tónlist og gítarstílinn á Túngumál. Hann slær strengina með berum þumli sem gefur tónlistinni sérstakan blæ. Mjúkur þumallinn á niðurleiðinni og nöglin strýkst við á uppleiðinni. Nadja segir að svona spili allir í Indonesíu (þar sem hún hefur svolítið verið); Bubbi talaði um suður Ameríku. Platan er frábær, einsog ég hef minnst á, en einhvern veginn finnst mér einsog þessi tónlist hafi verið gerð til að hún sé flutt á tónleikum. Af Bubba einum, í litlum sal – helst bara með áhorfendur í fanginu. Enda er það leitin sem ég held að Bubbi sé að tala um. Nándin og hið lífræna – ekki að það skorti neitt á sjóið eða performansinn eða tæknina, heldur er þetta samruni. *** Ég veit annars ekki hvort það eru andstæður að vera berskjaldaður og þrautþjálfaður. En það er í það minnsta mjög falleg spenna og góður kontrast. Bubbi er kóngurinn.