createdTimestamp““:““2024-06-10T14:32:31.324Z““

Ég er alltaf að reyna að hafa þetta stutt. Það hefur gengið fremur illa. Það hljóta að vera til einhver lyf við þessari munnræpu. Það er aðallega vegna þess að ég skammast mín gagnvart ykkur samt – hver er ég að láta einsog off-the-cuff vangaveltur mínar um eitt eða neitt komi einhverjum við nema sjálfum mér? Af hverju er þetta ekki bara lokuð dagbók? Nú eða svolítið hamin dagbók til lesturs fyrir aðra? Ég er ekki einu sinni byrjaður. Samt eru komnar margar setningar. Hvaðan komu þessar setningar? Ég er í Münster. Þessar setningar voru ekki hérna þegar ég kom. *** Ég sá sinfóníuna spila. Tvisvar. Meðal annars hluta úr Pétri Gauti og 5. sinfóníu Sibelíusar – en líka söngverk og alls konar. Þau mættu og spiluðu tvo ókeypis tónleika í íþróttahúsinu á Ísafirði, einsog þau hafa gert af og til – síðast fyrir 2-3 árum. Hugmyndin er held ég að fyrst við höfum annars ekki aðgengi að henni getum við fengið að sjá hana frítt þá sjaldan það aðgengi batnar. Annars veit ég ekki hver pælingin er en það gleður mig mjög mikið, hver sem hún er, ekki bara vegna þess að þá fæ ég frítt heldur getur alls konar fólk sem annars hefur ekki efni á miklu farið á fína tónleika. Einleikarar voru þrír – þar af tveir frá Ísafirði, Mikolaj Ólafur, ungur píanóleikari sem er að gera það gott, og Dísa Jónasar, óperudívan okkar. Bæði eru þau tónlistarkennarabörn – Dísa reyndar dóttir tónlistarskólastjórans að auki, og tónskálds. Þriðji einleikarinn lék á horn. Þau voru öll rosaleg en Dísa kannski rosalegust, með ofsalegt kontról ekki bara á tónlistinni heldur líka sviðsframkomu og hreinlega útgeislun. Þó samanburðurinn endi þar er ekki úr vegi að líkja henni við Mugison þannig – maður einhvern veginn fellur ofan í eitthvað tónlistarhol með þeim og finnst nánast einsog það sé enginn annar í heiminum rétt á meðan. Sinfónían er heldur engu lík og Daníel Bjarnason stjórnar henni vel (segi ég, einsog ég hafi eitthvað vit á því – en ég gat sem sagt ekki betur séð). Ef ég ætti að koma með eina aðfinnslu þá væri hún að sveitin – sem var ábyggilega klöppuð upp í fjórgang – myndi fá sér nýtt uppklappslag (það var Á Sprengisandi, einsog síðast). Daginn eftir voru svo aftur tónleikar um morguninn og einleikarar voru aftur tveir heimamenn. Þórunn Arna og Pétur Ernir, léku og sungu ýmis lög sem tengjast verkum Astridar Lindgren. Aftur var stappfullt upp í rjáfur og aftur ókeypis inn – það var starfsdagur í skólunum en það var reyndar alls ekki þannig að allir áheyrendur væru börn. Þetta var ekki minna skemmtilegt. Ég þurfti að vísu að pína litla rokkarann minn með – á þeirri forsendu að þetta væri mikilvægur hluti tónlistaruppeldisins – en hann hafði gaman af þessu þegar hann var kominn og nánast skammaðist sín fyrir hvað áhuginn var mikill. Aino Magnea hins vegar raulaði með öllum lögunum á sænsku, einsog hún gerir annars aðallega þegar hún er ein með sony-spilarann sinn. Allir fá fimm stjörnur og Dísa fær fimm stjörnur plús. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins fór á Hvítan, hvítan dag. Ég er enn að melta hana. Hún er mjög, mjög góð – eitthvað í söguþræðinum var kannski full melódramatískt, hún var alltaf á grensunni. Jón Kalman (og Gyrðir) fá þakkir í henni og það leynir sér ekkert að leikstjórinn er Kalmansmaður – tilfinningarnar eru stórar og óhamdar. Hins vegar örlar ekki á þeirri exótíseringu sem plagar margar bíómyndir sem gerast á landsbyggðinni. Þótt Hlynur, leikstjórinn, sé dreifari þá eru þeir nú oft bara í sjálfs-exótíseringu. Vald Hlyns á myndmiðlinum er eiginlega alveg absúrd gott – hann t.d. klárar bara Íslandsfetisjismann á fyrstu tveimur mínútunum, dregur hann niður á jörðina, og þar með út úr hinni narratífsku þróun – landslagið er ekki látið bera stígandina í myndinni heldur fær sagan að vaxa sjálf, án þess að það þurfi að færa myndina inn í hús. Bara svona smáatriði einsog að malbikið í vegasenunni í upphafi sé allt stagbætt – þá fattaði ég alltíeinu að svona líta íslenskir vegir út, sennilega hafa leikstjórar jafnan valið stílhreinna malbik til að filma. Og þótt myndin sé melódramatísk þá gælir hún líka við módernismann og jafnvel tilraunamyndir. *** Ég hef ekkert lesið nema stök ljóð á stangli. Að vísu heilan helling af þeim en enga bók klárað. Svona er skrifstofulífið á mér oft. Ljóð eru frábær – þau fá öll fimm stjörnur. *** Casa de Papel fyrsta sería. Ég held að þetta sé ekki gott. Ég held að leikararnir séu flestir frekar lélegir og söguþráðurinn einsog hann sé skrifaður jafn óðum af sex ára barni (og svo … og svo … svo bara var prófessorinn búinn að sjá þetta fyrir og það er sko risastór BROWNING … og þau SKJÓTA ALLT Í KLESSU). En þetta er á spænsku, svo hver veit, þetta virkar alltaf svolítið líka einsog Almódovar, mjög kúltúrelt og svona. Stephen King fílar þetta í botn og ég fíla Stephen King – eða er allavega með stóran soft spot fyrir honum – og Twitter logar af meðmælum og Facebook logar af meðmælum og Nadja mælti með þessu. Að vísu er þetta allt mjög spennandi. Ég horfði rólega á fyrstu seríu, hámaði í mig síðustu þættina og er langt kominn með aðra seríu núna. Svo kannski verður endurmat að viku. *** Ég seldi bassaleikaranum í Hjaltalín, Guðmundi Óskari, telecasterinn minn á Reykjavíkurflugvelli og keypti mér svo stratocaster þegar ég kom til Münster – eða í næsta bæ, Ibbenbüren, þar sem er afar vegleg hljóðfæraverslun. Af því tilefni er meistari stratocastersins gítarleikari vikunnar – frá tónleikum í varaheimalandi mínu, Svíþjóð.