Vitleysuvandamálin

Ég hafði varla sleppt fingri af orðinu í gær þegar veðrið varð í alvöru dýrvitlaust. Nadja bað mig að sækja sig í vinnuna og ég keyrði sjálfur þessa 500 metra á hljómsveitaræfingu um kvöldið. Hefði nú sennilega gengið samt ef ég hefði ekki verið með hljóðfæri og magnara í fanginu. *** Einsog flest sem fólk sem hefur yfir höfuð áhuga á hugsunum sínum er ég að reyna að láta ekki Trump hertaka í mér heilann. Eða Miðflokkinn. Ég vil kannski samt nótera hérna fyrir sjálfan mig að það hvarflaði að mér í gær að sennilega upplifi kjósendur hans – eða þeir sem íhuga að kjósa þannig – opinskáa umræðu demókrata um það „hvernig eigi að ná til þeirra“ og „hvernig eigi að skilja þá“ sem niðurlægjandi annars vegar og sem loforð um að reyna að manipúlera þá hins vegar, þegar loksins takist að skilja þá. Trump virkar filterslaus – ég er ekki viss um að hann sé það, en hann virkar þannig, og fólk sem virkar filterslaust getur kallað á ákveðna tegund af trausti, jafnvel þótt það virki líka hálfstjórnlaust. Manni hlýtur að finnast maður sjálfur geta „séð í gegnum það“ og kannski er það þannig sem hann skapar þessa nánd við kjósendur. Ef við ímyndum okkur að við sætum við pókerborð með Harris og Trump, báðum í essinu sínu, myndi líklega allt óbrjálað fólk óttast hana frekar en hann – af því hún er augljóslega hæf, hún hefur augljósa sjálfsstjórn, er umkringd ráðgjöfum og fer eftir ráðgjöf þeirra. Það er það sem fólk á við þegar það hugsar um Trump sem „anti-establishment“. Það sér stjórnmálamenn sem andstæðinga sína – gerir jafnvel ráð fyrir því að þeir séu allir (jafn) óheiðarlegir. Þá er ekki betra að þeir virki góðir í að fela það. Og kannski er það grunntónninn í bandarískum stjórnmálum 21. aldarinnar: Fólk er ekki að kjósa sér þjóna vegna þess að það trúir því ekki að kerfið sé gert til þess að þjóna þeim; því hæfari sem frambjóðandi virðist, því líklegri er hann til þess að vera afsprengi kerfisins. Og kerfið sér það sem stærri, sterkari og verri óvin en týpur einsog Donald Trump. *** Í dag pantaði ég mér bók sem ég tók einu sinni á háskólabókasafninu í Þrándheimi. Það var haustið 2001. Howl: Original draft facsimile, transcript and variant versions, fully annotated by author, with contemporaneous correspondence, account of first public reading, legal skirmishes, precursor texts and bibliography . Ég var með hana til hliðsjónar þegar ég kláraði að þýða Ýlfur og ég hef oft hugsað út í ýmis atriði úr henni sem ég er ekki viss um að séu einsog mig minnir. Það er sérstaklega eitt atriði sem mig langar að slá upp og kannski deili ég því með ykkur þegar bókin kemur. En svo fannst mér líka bara að þetta væri bók sem ég ætti að eiga. Þetta er ein af bókunum í lífi mínu. Helst hefði ég viljað kaupa harðkápuna en hún kostar ríflega 200 dollara og ég kaupi of mikið af bókum til að leyfa mér að eyða 200 dollurum í eina – svo ég keypti kiljuna frá 2006.