Október í nóvember

Það er að gera vitlaust veður. Vindáttin er að vísu þannig að kannski lætur hún okkur hérna mest í friði. En það eru samt 13 m/s í spánni. Fjöllin skýla manni ekki frá veðurspánni. *** Í dag eru liðin 107 ár frá októberbyltingunni. Sem heitir þetta af því 7. nóvember er ennþá október samkvæmt gregóríanska dagatalinu. Sú saga er sennilega bæð of flókin og infekteruð til þess að hún verði smættuð niður í slagorðin sem hún þó er yfirleitt smættuð niður í – næstu 70 árin rúmlega fóru í að rífast um það hvort þetta hefði verið góð hugmynd eða ekki, framin af góðu eða vondu fólki með góðar eða vondar fyrirætlanir, eitthvað sem tókst einsog það átti að takast eða eitthvað sem fór hryllilega úrskeiðis, sitt sýndist hverjum og svo hrundu Sovétríkin og þar með lauk því rifrildi. En það hlýtur að vera óumdeilt að hún vakti með mörgum gríðarlegar vonir um að hægt væri að byggja réttlátari heim – og kannski aðeins umdeildara, en þó varla svo neinu nemi, er sú kenning að tilvist kommúnistabyltinganna hafi orðið til þess að tryggja verkamönnum í hinum kapítalísku löndum meiri velferð en annars hefði orðið. Að Sovétríkin, fyrst og fremst, hafi vakið ugg í brjósti iðjuhöldanna. Það voru líka margir sem mökuðu krókinn á kalda stríðinu. Máls og menningarveldið til dæmis – og þar með stór hluti íslensks bókamarkaðar, sem væri ekki einsog hann er í dag án … Stalíns. Svo var auðvitað braskað í kringum herinn. Verktakabransinn væri ábyggilega annar án Roosevelts. Báðir aðilar eyddu miklu fé í menningu – af því þeir vildu sýna hinum að þeirra menning væri æðri. Þannig lagði CIA m.a.s. talsvert fé í framúrstefnulistamenn af því þar á bæ ályktuðu menn að ef Rússar sæju hvað vestrænir listamenn væru flippaðir og róttækir myndu þeir fyllast öfund – og Rússar á móti lögðu jafnvel sömu öflum lið á þeirri forsendu að þeir gætu grafið undan vestrænum kapítalisma (sem var oft í samræmi við markmið framúrstefnulistamannanna sjálfra, og þegar það var það ekki, var markmið þeirra oft óreiða sem hefði gert það hvort eð er). Sögukennarinn minn í menntaskóla, Björn Teitsson, var góður og gegn framsóknarmaður – afar vandaður maður og svo fróður að við gerðum okkur leik að því að reyna að standa hann á gati. Það tókst einu sinni: hann vissi ekki hvað Ku Klux í Ku Klux Klan stóð fyrir – en sló því upp í frímínútum (og ekki á netinu, sem var ekki sú alfræðiorðabók 1996 sem það átti eftir að verða síðar). Ku Klux er sama og Kyklos – hringur eða hópur – og Ku Klux Klan er tátólógía, þetta þýðir bara klansklanið, fjölskyldufjölskyldan. Allavega – Björn sagði einhvern tíma að það væri erfitt að útskýra það eftirá en að á áttunda áratugnum, þegar Kína og Sovétríkin unnu hvern stórsigurinn á fætur öðrum og meira en helmingur jarðarbúa lifði við sósíalíska stjórn, hefðu liðið mörg ár þar sem það fólk sem fylgdist almennilega með gangi heimsins var sannfært um að sósíalisminn hlyti að vinna. Hann væri augljóslega hæfari – þar væri meiri framleiðni og þar væru stærri afrek að eiga sér stað. Svo kom auðvitað í ljós seinna að megnið af afrekum Kínverja voru bara til á pappírunum og að afrek Sovétmanna voru að sliga bæði ríkiskassann og sjálfa þjóðina. En það vissi enginn þá. Ósigur sovét-sósíalismans var áreiðanlega óumflýjanlegur. Skrifaður í kóðann – einsog Marx sagði reyndar um kapítalismans og gæti enn átt eftir að eiga rétt fyrir sér um. Hvað sem því líður ljóst að sigur kapítalismans, að hann skuli ríkja óumdeildur, hefur haft í för með sér að „innri mótsagnir hans sjálfs“ hafa aukist. Hann eirir ekki plánetunni og verðlaunar narsissisma á kostnað alls annars og allra annarra – og misskiptir auðvitað bæði valdi og velferð. Þar er ekki um að kenna neinum „vondum kapítalistum“, heldur bara vélvirkinu sem slíku og aflinu sem það virkjar – það er sami kraftur sem færir okkur þennan myndarlega framtíðarheim sem við lifum í og sem svífst einskis til þess að koma honum á laggirnar, sami kraftur sem færir okkur allsnægtirnar og sem drekkur auðlindirnar í botn. Og kannski er það líka sjálf lífshvötin, kannski er ekki hægt að lifa til fulls án hennar – og kannski er ekki hægt að lifa í raun nema lifa til fulls. Guð veit að Stalín tókst sannarlega ekki að gera út af við frekjuna og hamsleysið og samkeppnisbrjálæðið – ég efast meira að segja um að hann hafi reynt.