Æfingar á uppgjafatóni í h-moll

Ég hraðbugaðist strax og kviknaði á útvarpsvekjaranum. Af því ég er hættur að lesa fréttamiðlana á netinu liggur beint við að reyna að ná útvarpsfréttum og besta leiðin til þess að gera það – ef maður vill ekki bara hafa kveikt á útvarpinu allan daginn – er að vakna bara við fréttirnar. Fréttastofa RÚV, klukkan er átta, veröldin brennur. Ekki einu sinni reyna að fara fram úr. Það er ekki til neins. Rauð viðvörun. Harmur og dauði yfirvofandi. Best að gefast bara upp strax. Það er ekki einsog þetta komi þér heldur við. Þetta er að gerast langt í burtu. Eiginlega mætti segja að þetta sé að gerast í sjónvarpinu, ameríka er ekki staður heldur raunveruleikasjónvarpsþáttur (eða nístandi skáldævisaga einsog við köllum það í bókmenntabransanum) og auðvitað vann raunveruleikasjónvarpsstjarnan, reyndasti sérfræðingur sjónvarpsins í sjálfhverfu. Ég skildi óánægjuatkvæðin 2016. Ég hef samúð með níhilismanum. Stundum vil ég líka bara að veröldin fuðri upp í óreiðubáli. En þeir sem kusu Þrömp núna voru ekki að kjósa einhvern ófyrirsjáanlegan trúð, ekki að kjósa Washington-utangarðsmann, heldur innmúraðan fyrrverandi forseta sem hefur komið sínu fólki fyrir víðs vegar í valdakerfinu og hvers stefnumál eru ekki níhilísk heldur fasísk regla samkvæmt führerprinsippinu. Ég er að hugsa um að tileinka mér einhver skipulögð trúarbrögð bara til þess að geta beðið til guðs um gæsku og kærleika. *** Mér skilst að eitthvert fjölmennasta útgáfuhóf sem haldið hefur verið í geyminum sem er Fiskislóð 6 – hin risavaxna bókabúð Forlagsins – og þar með sennilega á landinu, hafi farið fram á sunnudag. Þar var engin önnur en mamma mín, Herdís Hübner, að kynna ævisögu sína um Auri Hinriksson, Ég skal hjálpa þér. Og kemur ekki á óvart enda er mamma mín fjarska vönduð bókmenntakona – og reyndar líka mikilvirkur þýðandi – og saga Auriar ótrúlega fasínerandi. Ævisaga ársins, ekki spurning. *** Mér skilst að Storytel hafi verið í fréttunum. Og launamál höfunda. Ég þreytist ekki á að nefna að í hvert skipti sem einhver hlustar á ljóðabókina Hnefi eða vitstola orð á Storytel þá fæ ég þrjár krónur. Ég er að safna mér fyrir hamborgaratilboði – þúsund spilanir ættu að duga – en vegna verðbólgunnar og dvínandi áhuga bókmenntafólks á ljóðum (að ég tali nú ekki um skrítnum tilraunaljóðum) þá hækkar upphæðin sem ég þarf hraðar en ég næ að þéna fyrir henni, svo mig vantar alltaf meiri pening á morgun en í dag. Þetta endar sennilega með því að ég svelt í hel. Til þess að eiga fyrir Storytel áskriftinni þyrfti ég að fá 1.100 spilanir á mánuði – 13.160 spilanir á ári. Það þykir gott að selja ljóðabók í 300 eintökum (eða þótti fyrir 8 árum þegar ég gaf síðast út ljóðabók – sennilega hefur þetta dregist mikið saman síðan þá).