createdTimestamp““:““2024-12-04T15:48:36.901Z““

Í Svíþjóð er allt í hers höndum. Þannig lagað. Það er stjórnarkreppa, ein stærsta matvörukeðja landsins hefur neyðst til að loka flestum búðum sínum vegna árása nethakkara og gengjastríðin geisa sem aldrei fyrr. Stjórnarkreppan kom upp vegna þess að sósíaldemókratarnir ætluðu að þvinga vinstri-flokkinn til þess að samþykkja frjálst leiguverð – húsnæðismarkaðurinn í Svíþjóð er mér svo óskiljanlegur að ég hef eiginlega enga skoðun á þessu máli en finnst þó leigustjórnun instinktíft sympatískari en hitt. Það sem mælir gegn leigustjórnuninni – fyrir mína parta – er kannski mest hvernig hún er framkvæmd. Fólk stillir sér í biðröð og safnar stigum, sem hljómar í grunninn sanngjarnt, en lýsir sér síðan þannig að meðvitaða millistéttin stillir sér í biðröð út um allt upp á von og óvon (það eru engar hömlur á því hvað maður getur verið í biðröð í mörgum ólíkum kaupstöðum eða hjá ólíkum fyrirtækjum) og fyllir allt og flytur svo kannski eða kannski ekki. Þeir sem hafa ekki tíma eða kraft eða skipulag í sams konar fyrirsjón og framtíðarbúskap eru svo bara shit out of luck, einsog maður segir. Þetta viðheldur þannig ákveðinni stéttarskiptingu sem þeir græða mest á sem kunna á kerfið og þekkja það – útlendingar, innflytjendur, kærulausir, vonlausir o.s.frv. reyna kannski að reisa sig við en það tekur bara 25 ár á einhverjum biðlista að komast jafnfætis hinum, sem áttu foreldra sem settu þá á lista strax við fæðingu. Frjálst leiguverð myndi nú sennilega ekki samt verða til mikilla úrbóta. Ég treysti alla vega vinstriflokknum ágætlega til að hafa hagsmuni verkafólks að leiðarljósi og það eru nú ekki síst þeir hagsmunir sem þarf að verja á þingi. Frjálslyndir – sem eiga líka aðild að ríkisstjórninni – heimtuðu þetta og Löfven veðjaði á að vinstriflokkurinn myndi gefa sig frekar en að sprengja ríkisstjórnina. Það gerðist ekki og Nooshi Dadgostar, nýr formaður vinstriflokksins, hefur uppskorið mikið lof fyrir staðfestu – það vill til að Svíar eru langflestir á móti þessum „umbótum“ frjálslyndra. Það sem gæti kannski helst bitið þau í framhaldinu er ef þetta verður einhvern veginn til þess að hægrimenn – með Svíþjóðardemókrata ofarlega á blaði – komist til valda. Þá gæti vinstriflokkurinn fengið það í andlitið að hafa komið því til leiðar með þrjósku sinni. Eitt sem truflar núna er líka að það er ekki nema ár til kosninga og hvaða stjórn sem tekur við mun stjórna í mjög skamman tíma. Og það er hætt við að þeir flokkar sem eigi aðild að henni græði lítið á því – að taka í stjórnartaumana akkúrat þegar viðbúið er að margar afleiðingar Covid-lokana síðustu 18 mánaða fari að kikka inn, er varla líklegt til vinsælda. Og ár er enginn tími til að koma raunverulegum breytingum til leiðar, alveg sama hver fer með völdin. *** Matvörukeðjan Coop lokaði held ég öllum búðum sínum í fyrradag eftir árásir hakkara á tölvukerfið sem keðjan nýtir sér til að sjá um sína verslun. Ég held þær séu flestar enn lokaðar. Að minnsta kosti sú sem ég fer alltaf í. Ég gleymdi þessu í sakleysi mínu áðan þegar við Aino ætluðum að panta dósir, en við þurftum frá að hverfa með dósirnar á annan stað í bænum. Mér skilst að hakkararnir vilji 600 sænskar milljónir. Sem eru þá um 9.000 íslenskar milljónir. Það er ekki ekki neitt. Ég veit samt ekki hvort Coop getur opnað án þess að borga. Skil þetta satt að segja ekki mjög vel. *** Ég nefndi það eitthvað um daginn að sænska lögreglan hefði verið að vinna úr gögnum frá frönsku lögreglunni, sem þeirri áskotnaðist þegar henni tókst að brjótast inn í Encrochat – dulkóðað spjallkerfi sem glæpamenn höfðu nýtt sér um nokkurt skeið. Þetta hefur orðið til þess að fjölga handtökum í glæpaheiminum sem aftur skapar tómarúm í alls konar valdastöðum þar innan og hafa átök ólíkra gengja sennilega aldrei verið harðari í landinu. Enda hverfur markaðurinn fyrir eiturlyf eða aðrar glæpsamlegar nautnir ekkert þótt maður stingi einum og einum fanti í fangelsi. Það losnar bara forstjórastaða í einu fyrirtæki og annað fyrirtæki missir fótstöðuna á markaði svo það þriðja fer að sækja í sig veðrið. Ég held það verði eftir sem áður selt jafn mikið kókaín í Svíþjóð og efri millistéttin vill snorta á diskótekunum sínum. Mér skilst að umræðan lögleiðingu eiturlyfja hafi komið hér upp fyrir einhverju síðan en svo dalað og sé nú svo gott sem gleymd. *** Plata vikunnar er Chess-ára plata Little Walter. Ég ætla ekkert að flækja þetta og velja bara Boom, boom, out go the lights. Boðskapurinn er kannski í það harðasta, en lagið er klassík.