Á morgun er stór fundur í íþróttahúsinu á Torfnesi þar sem verður kannski ákveðið hvort hér megi lifa eða bara deyja. Ég á að halda ræðu og dró það stutta strá að mæla fyrir lífinu, með öllum sínum afleiðingum. Ég sem var aldrei einu sinni í Morfís. *** Og ligg annars sjálfur fyrir dauðanum. Einn heima með tvö börn, með sótthita uppi í rúmi og reyni að semja ræðu um lífið þegar mig langar mest bara að sofa. Nadja kemur ekki fyrren upp úr 21 í kvöld og þá fer ég sennilega beint á skrifstofuna til að klára þetta. Stundum er rithöfundalífið bara alveg einsog verkalýðsþrældómurinn. Nema þá lá ég oftar þunnur í rúminu og sjaldnar lasinn, en þetta er svipuð tilfinning og hér bíður maður þess bara að blásið verði í lúðurinn og maður þurfi að skella sér í skítagallann. *** Ég ætla ekki að tala neitt um Hvassahraun eða Gálgahraun en talsvert um samneyti mannsins við náttúruna, manninn í náttúrunni, manninn sem náttúru. Og sennilega verð ég háfleygur og þungstígur. En sem sagt já, hraunin. Það sló mig – eða mér var bent á, ég spurður, hvort það væri ekki skrítið að sama fólk (og nú ímyndar maður sér alltaf að þetta sé sama fólk, kannski er það alls ekki raunin, kannski eru þetta tveir gerólíkir hópar sem renna saman hér í suðursýninni) vilji allt til gera til að stoppa vegagerð um Gálgahraun og vilji flytja innanlandsflugvöll – og sennilega alþjóðaflugvöll líka – í Hvassahraun, sem sé ekki síður merkilegt og glæsilegt. Fyrir utan að það er auðvitað þúsund sinnum meira rask – flugvellir eru nefnilega mjög plássfrekir. *** Sé þetta rétt hjá mér er ástæðan auðvitað augljós: hagsmunir. Miðbæjarbúar hafa hagsmuni af því að losna við flugvöllinn úr Vatnsmýri (eða telja sig í öllu falli margir hafa það, kannski óþarfi að alhæfa). Því það er auðvitað rétt, hvað sem hver segir, að þegar rétt fólk hefur nóga hagsmuni af tilteknum aðgerðum er einfaldlega litið svo á að kostnaðurinn sé innan ásættanlegra marka. *** Sem var auðvitað líka raunin með Gálgahraun. Þar hafði réttara fólk enn meiri hagsmuni af einhverju öðru. Og fólkið sem vill/þarf að keyra um Teigsskóg er einfaldlega ekki nógu rétt eða nógu margt og því víkja hagsmunir þeirra alltaf – eða það er sett á pásu meðan rifrildinu er haldið áfram og fólkið sem þarf veginn fær að bíða. *** Annars er að minnsta kosti einn maður sem vill halda flugvellinum í Vatnsmýri og sleppa allri vegagerð um Gálgahraun. Ómar Ragnarsson er nefnilega ötull baráttumaður fyrir hvorutveggja. *** Einhvern tíma var nú líka barist hart gegn öllum frekari framkvæmdum í Vatnsmýrinni af umhverfisástæðum. Svo mýrin nyti vafans. En nú virðist það allt löngu gleymt – kannski kom eitthvað í ljós sem við vissum ekki. Mýrin einskis virði eftir allt saman. Og Tjörnin – var hún ekki líka í gamblinu? Annars man ég þetta ekki vel. *** En nú þarf ég að einbeita mér og skrifa þessa ræðu.