Maður lifir í náttúrunni. Það er ekki nóg með að sólarlögin sprengi hjörtun í elskendum, kyrrðin slái á æsing hugsjúkustu brjálæðinga og skáldin yrki allt sem skiptir máli til vatnsfallanna. Það er ekki heldur nóg með að náttúran færi okkur fæðu til að seðja hungrið, fisk úr ólgandi hafinu, krækling úr spegilsléttum firðinum, grænmeti og ávexti beinlínis upp úr jörðinni og kjöt af beinum skepnanna. Við sleppum nefnilega aldrei úr náttúrunni. Náttúran er óaðskiljanlegur hluti af okkur – við erum ekki utan við náttúruna, ekki utan á henni, heldur í henni. Við erum náttúran. En maður lifir ekki bara í náttúrunni – maður deyr líka í náttúrunni. Hafið drekkir manni, fjöllin ryðjast yfir mann – þurrka út heilu byggðalögin – fellibyljir leggja samfélög í eyði, flóð sökkva borgum – og náttúran, mannleg náttúra, hefur oft og tíðum þær afleiðingar að við völdum hvert öðru, eða sjálfum okkur, óumræðanlegum skaða. Fólk drepur fólk og fólk drepur sjálft sig. Og lifi maður alla þá náttúru af – sem er tölfræðilega ósennilegt – svíkur mann loks bara líkaminn, náttúra holdsins, og maður hrynur niður og verður að eintómu dufti, jafn örugglega og ef hvað sem er annað hefði drepið mann. Maður lifir í náttúrunni, maður deyr í náttúrunni og þess á milli beislar maður náttúruna. Maður reisir segl upp í vindinn, lætur stjörnurnar teyma sig um hafið, steypir akkeri úr málmgrýti, smíðar skeifur á hestana, múl á hundana, leggur vegi meðfram fjörðum, brúar firðina, borar göt á fjöllin, sigrar háloftin og sigrar jafnvel sjálft holdið. Því náttúra mannsins er stór og afleiðingar hennar miklar og mikilfenglegar. Maður beislar náttúruna og maður eyðileggur náttúruna. Nýjustu tölur segja að eftir þrjátíu ár verði meira plast í hafinu en fiskur. Mér skilst að Reykvíkingar séu meira og minna að kafna í svifryksmengun af umferðinni. Fellibyljina sem riðið hafa yfir Karíbahafið upp á síðkastið er ekki hægt að skrá á reikning duttlungafullrar náttúru. Þar á maðurinn, græðgi stórfyrirtækja og fyrirhyggjuleysi samfélaga, hönd í bagga. Olían fuðrar upp í farartækjum svo uppskerur bresta vegna loftslagshlýnunar. Námur tæmast, búskapur breytist í villimennsku – og já, laxeldi hefur, þar sem hirðuleysi réði för, farið allharkalega af hjörunum. Og það viljum við ekki – það vill enginn skíta í deigið. Ef við ætlum að stunda hér sjókvíaeldi þurfum við að geta treyst því að regluverkið sé grjóthart. Búskap þarf alltaf að stunda af virðingu við náttúruna – það er ekki valkvætt. Maður eyðileggur náttúruna og maður eyðileggur þar með sjálfan sig – en eyðileggingin er mismikil. Með hverjum nýjum vegi hverfur ósnortið víðerni, með hverju nýju húsi gufa óbyggðirnar upp og sjást ekki aftur fyrren byggðin leggst í eyði og húsin fyllast draugum – og á eftir draugunum koma túristar. Við getum dregið úr vistspori okkar – lágmarkað þau áhrif sem við höfum á umhverfi okkar – en við getum ekki látið vistsporið hverfa. Allri tilveru fylgir bæði fórnarkostnaður og áhætta. Ef náttúran nyti einfaldlega vafans stæðum við aldrei á fætur, drægjum ekki andann fyrir áhyggjum af fiðrildaáhrifum andardráttarins. Náttúran nýtur ekki vafans nema að svo miklu leyti sem okkur er leyfilegt að telja okkur sjálf til hennar. Ég hygg að flestum hér inni – þeim sem ekki búa að jafnaði á höfuðborgarsvæðinu, í öllu falli – finnist oft einsog það gildi önnur lögmál um þróun mannlífs í og í kringum smærri byggðir en á höfuðborgarsvæðinu, þar sem valdið hefur hreiðrað um sig. Í Garðabænum víla menn ekki fyrir sér að draga Ómar Ragnarsson argandi ofan af vinnuvélunum til að leggja veg, þar sem menn telja að vegur þurfi að liggja, en við Reykhóla er hægt að halda vegalagningu í gíslingu í meira en áratug fyrir nokkrar hríslur og einn sumarbústaðareiganda. Á suðvesturhorninu má holufylla og malbika hraunið langleiðina frá Hafnarfirði til Keflavíkur ef með því mætti flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni. Því í Vatnsmýrinni vill fólk víst búa. Það eru kannski fréttir fyrir suma, en fólk vill líka búa á Vestfjörðum. Og þetta er ballans. Það er alger óþarfi að láta einsog sú sé ekki raunin – svo klisjan um „sátt og samlyndi við náttúruna“ sé bara tuggin enn einu sinni, hún er sönn og við kærum okkur alls ekki um að leggja heimkynni okkar í rúst, einsog einhverjir virðast halda og við erum ekki einföld náttúrubörn sem glepjast af gylliboðum siðspilltra útlendinga og þarfnast þar með verndar siðaðra manna. En stundum er einsog hér rekist stöðugt á tvær ólíkar þjóðir – Vestfirðingar og þeir sem vilja hafa vit fyrir þeim. Spurningin um líf í Djúpinu er okkur ekki fræðilegs eðlis, ekki ljóðrænn harmsöngur um exótíska og deyjandi byggð, eða dystópísk dæmisaga fyrir börn, heldur kaldhamraður og hversdagslegur veruleiki. Og það er hvorki sátt né samlyndi í því fólgið að skilgreina heimkynni fólks sem friðland sem það megi ekki snerta, sem það megi ekki hafa lifibrauð sitt af – að byggðin verði að víkja fyrir óbyggðunum, því réttur óbyggðanna sé meiri. Það er ekki ballans. Það er ofbeldi. Eining lýðræðislegrar þjóðar byggir á samstöðu, sjálfsákvörðunarrétti og því að ákvarðanir séu teknar eins nærri þeim sem þær varða og frekast er kostur. Ef þeir sem vilja hafa vit fyrir okkur ætla einfaldlega að ákveða þetta fyrir okkar hönd, hafa af okkur sjálfsákvörðunarréttinn með yfirgangi, þá erum við ekki lengur þjóð. Sama hver niðurstaðan er. Þá er samkomulagið – um að við gætum hagsmuna hvers annars, við séum saman í þessum báti – einfaldlega brostið.