Ég er í þráttafríi fram á helgi. Þá fer ég til Gautaborgar að kljást við nasista sem ætla að herja á bókamessuna. Ekki er nóg með að tímaritið Nya Tider – sem er eins konar Breitbart – sé með bás á messunni heldur hafa stærstu nýnasistasamtök norðurlandanna, Nordiska Motståndsrörelsen, fengið gönguleyfi frá lögreglunni. Þau ætla að safnast saman fyrir utan bókamessuna. Þetta verður eitthvað. *** Haukur Már bjó til nýja grúppu á Facebook fyrir ný orð í íslensku. Ein af fyrstu tillögunum var gaslýsing – sem ég held að eigi við þegar maður lætur við fólk einsog upplifun þess af raunveruleikanum sé röng (ég kommentaði auðvitað að viðkomandi væri klikkaður að halda að „gaslýsing“ sé eitthvurt helvítis orð). En þetta orð, sem er í sjálfu sér ágætt, er dálítið PC-Gone-Mad viðkvæmt. Í gær las ég til dæmis grein þar sem því var haldið fram að þegar foreldrar tryðu ekki börnum sínum, þegar þau segðust vera södd, væru foreldrarnir að gaslýsa börnin. Sem er sennilega tæknilega rétt – en þá er líka ekki alltaf rangt að gaslýsa fólk. Upplifun barnanna minna á því hvenær þau eru södd er í öllu falli ekki í neinum tengslum við hinn fýsíska veruleika þeirra. *** Ég las annars óvenju mikið PC-Gone-Mad dæmi í gær. Ljóðabókaútgáfan BookThug í Kanada ætlar að skipta um nafn eftir að því var haldið fram að Thug væri of kynþáttahlaðið. Það væri sem sagt svokallað „racial slur“. Ekki ætla ég að rífast um málskilning við heimamenn, en jæja, já, alltílagi. *** Svo las ég líka grein um (mjög vinstrisinnaðan) háskólaprófessor sem gagnrýndi hugmyndir um að halda dag þar sem hvítir nemendur ættu að vera heima – til að vekja athygli á kynþáttamálum – og var svo til húðstrýktur af nemendum og svo skólastjórninni. Það var vægast sagt mjög spes lesning. *** Annars bara frekar rólegur. Fór í ræktina í morgun og hitti Rúnu. Hún segir að Öddi nenni ekki að koma með sér. Það sé svo langt að keyra úr Sluddunni. Og hlíðin er ekki skemmtileg og göngin sennilega númer 100 á listanum. Annars lokar Stúdíó Dan í febrúar og þá verða góð ráð dýr. Það hefur eitthvað verið talað um að bærinn blandi sér í málið og það verði komið upp aðstöðu uppi á Torfnesi. Ætli það strandi ekki á blankheitum einsog allt annað. Það er ekki einu sinni hægt að laga göturnar. (Helvítis göturnar, ég hata þessar götur). *** Svo er vandræðaástand að vera orðinn þreyttur á pólitík í upphafi vetrar þar sem verður gengið til kosninga tvisvar. Hið minnsta. Ég þyrfti eiginlega að komast í vetrarfrí til Kanarí. Hlaða batteríin. Því ekki kemst ég út á land. *** Ég eyddi gærkvöldinu í að fínpússa sólóin í Back in Black og Hells Bells. Þetta er allt að koma, einsog skáldið kvað. Ég verð lipur gítarleikari fyrir rest.