Untitled

Ég missti alveg af ranti Braga Ólafssonar um bókadóm Braga Páls  um ljóðabók Jónu Kristjönu – Skýjafar. Þar prýðir Bragi Ólafsson sig bókstaflega „hatri, blóði og hráum tilfinningum“ þegar hann segir að Bragi Páll eigi „þannig lagað“ ekkert betra skilið en meðferðina sem Willem Dafoe fær í myndbandinu við Cut the World með Antony and the Johnsons (hann er skorinn á háls í frekar brútal senu) fyrir að segja að ljóðskáld eigi að prýða sig „hatri, blóði og hráum tilfinningum“ (sem Braga Ólafs finnst „óendanlega hallærislegt). Ég missti af því sem sagt alveg þangað til Snæbjörn Arngrímsson fór að verja Braga. *** Ég sé reyndar núna að þeir félagar hafa birt færslur sínar samdægurs. Fyrir þremur dögum. Sem er eilífð á internetinu. Þetta er svipað og bók fari framhjá manni í fjörutíu ár. *** Bragi uppnefnir líka Starafugl – fer aðra leið en Einar Kárason sem talaði um „Sterafugl“ og talar þess í stað um „Stafaruglið“. Nú skil ég hvernig Samspillingunni og Sjálfgræðgisflokknum hlýtur að líða. *** Ég held – einsog ég hef þúsund sinnum nefnt – að það sé mjög mikilvægt fyrir menninguna að fólk segi skoðanir sínar á henni umbúðalaust. Ein helsta ástæðan fyrir ótta fólks við ljóðlistina hefur einmitt að gera með alla upphafninguna og tátiplið – fólki (sérstaklega utan innvígðu mennignarkreðsunnar) finnst að það geti ekki haft á henni rétta skoðun – allt sem er sagt um hana opinberlega er svo lært og yfirvegað, svo djúpt og svo rétt. *** Þessu tengt. Áðan fór ég í Lucky Records og keypti plötur. Þar afgreiddi mig Bob Cluness – held ég alveg áreiðanlega – sem er ekki síst þekktur fyrir ofsafengna afstöðu sína til tónlistar. Ég keypti af honum sex plötur – tvær AC/DC, tvær Tom Waits og tvær með Guns (Use Your Illusion I & II). Og það hvarflaði að mér að ég ætti að skammast mín fyrir þetta. Að minnsta kosti fyrir Gunsplöturnar. Sennilega er þetta svolítið einsog að láta einmitt Braga Pál afgreiða sig um Skýjafar og Ansjósur. En það er líka valdeflandi. Ég var alveg næstum því búinn að hvæsa á Bob að þetta væru víst góðar plötur þegar ég gekk út. Og ég veit ekki einu sinni hvort honum finnst þetta drasl. *** Eyddi nóttinni á hóteli á beisnum. Hótel Ásbrú. Gekk út á strætóstoppistöð í morgun í rokinu og hugsaði að Bandaríkjamenn hefðu nú varla getað valið sér ömurlegra bæjarstæði eða skipulagt bæinn verr. Stór hús, langt á milli, marflatt, viðstöðulaust rok og hvergi skjól. Ég hef aldrei áður vorkennt bandaríska hernum. En aumingjans, aumingjans bandaríski herinn.