Við förum alltaf úr landi á sumrin. Einsog farfuglarnir. Eða koma þeir kannski á sumrin? Við komum svo sem líka á sumrin, bara ekki heim, heldur heim til annarra. Nú eru níu dagar þar til við förum og verðum „fjarri góðu gamni“ í nærri tvo mánuði. Ég á eftir að sakna: Gítarsins míns. Ég keypti mér Epiphone SG Pro í fyrra og spila á hann svo til á hverjum degi mér til mikillar ánægju. Vasksins míns. Við fengum nýjan stóran vask um daginn. Ég fann fyrir því – mér til furðu – þegar ég skaust aðeins til Noregs og Frakklands um daginn að ég saknaði hans. Það er munaður að leika sér í stórum vaski þegar maður er vanur litlum. Ég mun líka sakna eldavélarinnar – gas og span og hvað þetta er allt saman. Og pannanna minna og hnífanna. Sjávarfangs. Fiskbúðarinnar hans Kára. Ég hef að vísu alls ekki verið nógu duglegur að sækja hana síðustu daga. En þvílíkur munaður að geta gengið að ferskum fiski vísum fyrir lítinn pening. Vina og ættingja. Að minnsta kosti þeirra sem ég tek ekki með mér og eru hér annars – ég er auðvitað líka að fara að heimsækja vini og ættingja í hinum löndunum. Ég hlakka til: Afmælisdagsins míns. Ég er mikið afmælisbarn. Í ár verð ég á Guns N’ Roses tónleikum í Hämeenlinna. Að fara í feðgaferð til Berlínar með Aram Nóa. Við ætlum í dýragarðinn og á stjörnuskoðunarstöðina. Að fara í hjónaferð til San Francisco með Nödju. Við ætlum á Cage Aux Folles og í Alcatraz og City Lights bókabúðina. Að hitta vini og ættingja. Það gerist alls staðar nema í San Francisco. Þangað förum við gagngert því þar þekkjum við engan (það er reyndar ekki alveg satt, en það er ósennilegt að við heimsækjum þá sem við þekkjum).