Ég hugsa um æru vakandi og sofandi og hef meðal annars komist að því að þetta eru taldir pólar innan félagsfræðinnar – heiðurssamfélög, þar sem æran er allt, og lagasamfélög, þar sem æran á enga formlega hlutdeild í samfélaginu – í mörgum tilvikum er jafnvel ólöglegt að svipta menn ærunni. Til dæmis að neita ærulausum um vinnu eða gera þá að öðru leyti útræka. Í heiðurssamfélögum á maður ekkert annað en æru sína. Án hennar deyr maður, einn og útrækur. *** Æra miðast eðli málsins samkvæmt við „ríkjandi siðferði“. Þannig voru samkynhneigðir ærulausir þar til fyrir skemmstu, og fullorðnir karlar sem dilluðu við fimmtán ára stelpur þóttu – tja, kannski til vandræða, en það er satt best að segja ekki langt síðan farið var að gera þá ærulausa. Sérstaklega ef þeir töldust til lögfræðinga, presta eða annarra háttsettra þjóðfélagsþegna. Já eða bóhem auðvitað. *** Dr. Samuel Johnson skilgreindi æru – honour – í orðabók sinni frá 1755 á nokkra vegu, en fyrst og mikilvægast var að maður byggi yfir „öðla sál, veglyndi og fyrirlitningu á óþokkaskap“ („nobility of soul, magnanimity, and a scorn of meanness“). Af þessu er hið síðarnefnda áhugaverðast. Það er ekki nóg að vera góður sjálfur, til að hafa æru, heldur þarf maður að fyrirlíta illskuna í öðrum. *** Doktorinn sagði að vísu líka að æru fengi maður af ættboga sínum – þeir sem eru vel ættaðir fá hana í arf, fína fólkið hefur meiri æru en fátæka fólkið – og æru fær maður aukinheldur af siðsemi í kynferðismálum almennt. Þeir sem mæta í druslugöngur eða fagna lauslæti geta sem sagt talið sig ærulausa. *** Nasistar og íhaldsmenn eru mjög uppteknir af ærunni. Slagorð helstu nýnasistasamtaka seinni tíma er Blood & Honour. Og slagorð ýmissa strákaklúbba í einkaskólum eru á svipuðum nótum. Og ungmennafélaga.