Untitled

Mér var bent á að hlusta á Berg Ebba og Snorra tala um November Rain í Fílalag. Því hefði ég betur sleppt. Ég hlustaði á nokkra af fyrstu þáttunum fyrir löngu og fannst þeir skemmtilegir – en tók nokkra í beit og þeir verða fljótt þreytandi þannig. En það er ekki þeim að kenna, heldur mér fyrir ofneysluna (langur bíltúr). Núna komst ég ekki einu sinni í gegnum þáttinn. Sennilega hefur það eitthvað að gera með að ég veit eitt og annað um Guns – það er í það minnsta það sem veldur því að ég veit hversu oft þeir fóru með fleipur. Hversu mikið af þessu var bara rugl – á köflum var þetta einsog Trump í rúllukragapeysu. En svo eru þeir líka bara komnir of langt út fyrir sitt eigið áhugasvið. Sínísk aðdáunin á „geðveikinni“ var laus við allan kærleika. Þeir voru að fylla út í formið „tveir strákar besservisserast um tónlist og vestræna menningu í klukkustund“ – sem virkaði þegar þeir voru nálægt hjartanu en rennur gersamlega út í sandinn þegar þeir búa hvorki yfir nægum fróðleik til að gera þetta áhugavert né nægu innsæi til að setja lagið – eða hljómsveitina – í nokkuð samhengi. *** Niðurstaða: Fílalagi verður að linna! *** Robert Downey. Hress gaur. Eða þannig. Sennilega er tómt rugl að veita svona fólki réttindi til að stunda lög. Ég veit ekki með „uppreist æru“ – ég skil ekki einu sinni hvernig æra getur verið á forræði yfirvalda. Hins vegar hrökk ég í kút að heyra forsetann tala um að hann (forsetinn) væri nú bara einsog „flestir Íslendingar“, að þegar kæmi að „kynferðisbrotum“ vildi hann bara læsa menn inni og kasta lyklinum. Á eftir því kom „en við búum í réttarríki“ – sem má skilja þannig að réttarríkið sé áþján, að það að völd ríkisins til að fangelsa þegna sína séu takmörkuð sé bara alger bömmer. *** Sennilega er mikilvægt að Robert Downey fái tækifæri til að „endurreisa“ líf sitt. En hann ætti líklega að gera það á öðrum vettvangi. *** Æra hefur annars líka þann tilgang að halda aftur af óhæfuverkum. Sá sem hefur æru, hefur æru að glata. Sá sem hefur enga æru tapar engu á því að brjóta af sér. Nema auðvitað hann verði dæmdur – en fangelsisdómar, sektir og þvíumlíkt er bara tittlingaskítur við hlið ærunnar. Án hennar er allt lífið fangelsisdómur. *** En æru fær maður sem sagt ekki frá forseta. Robert Downey ætti bara að ganga í klaustur. Helga líf sitt góðgerðarverkum. Maður sem fremur jafn hryllilega glæpi er í djúpri siðferðislegri holu og þarf að leggja talsvert á sig til að komast upp. En við ættum kannski að hjálpa honum – og öllum öðrum – því það er engum til bóta að fólk sé sjúkt og hættulegt. *** Var ekki eitthvað fleira sem ég ætlaði að hafa skoðun á? Þegar ég var að skrifa þetta hér að ofan kom nágranni minn Gunnar inn á skrifstofu til að spyrja mig hvað mér þætti um „orð forseta“. Ég las fyrir hann bloggið. *** Lefty Hooks segir að helvítis Pólverjarnir séu helvítis rasistar. Það er eitthvað annað en helvítis múslimarnir og djöfuls tælendingarnir. Eða helvítis Íslendingarnir sem aldrei segja neitt ljótt um neinn. *** Í dag þarf ég að klára að taka upp Óratorrek. Mér skilst þetta verði í Lestinni í sumar.