Hljóðbókasvindlið

Það er margt í sænsku umræðunni sem speglar þá íslensku þessa dagana. Annars vegar var SVT að sýna sjónvarpsþætti sem mér skilst að hafi verið mjög „trans-krítískir“, ef ekki hreinlega mjög transfóbískir – ég hef ekki séð þá en ég hef ekkert gott séð um þá, virðist hafa verið alveg hræðilegt fúsk ofan í allt annað, og nafnið eitt ætti líka að segja manni sitthvað: Transkriget . Sem hljómar einsog nafn á einhverri seventís exploitation mynd. Hins vegar er uppnám yfir ímyndaðri kynfræðslu í leikskólum í Malmö – og hafa yfirvöld þurft að margítreka að það sé ekki kennd NEIN kynfræðsla í leikskólum og þar með ekki heldur sú bók sem vefmiðlatröllin vísa í, þar sem þau debatera eigin ímynduðu lífssýn á netinu. Upplýsingaóreiða? Það held ég nú. *** Ég hef verið spurður hvort það komi ekki hljóðbók af Náttúrulögmálunum – sem hefði reyndar aldrei orðið fyrren næsta vor í fyrsta lagi. En ég get upplýst að það verða að minnsta kosti ekki upptökur í haust og sennilega verður einhver annar en ég fenginn til að lesa hana upp. Fólk eltir víst vinsæla upplesara á Storytel, frekar en höfunda. Svo verðum við bara að sjá hvað verður. Ég veit ekki alveg hvaða afstöðu ég á að hafa til Storytel – sem er reyndar sjálfstæð spurning, því hljóðbækur eru líka til sölu á Forlagsvefnum (þótt það seljist lítið af þeim). Heildartekjur mínar frá Storytel í fyrra, fyrir hlustun á átta titlum, náðu ekki 25 þúsund krónum samanlagt. Ég er alltaf að búast við því að hljóti að verða samið upp á nýtt – þetta geti ekki átt að vera svona – en það gerist aldrei neitt. Einhvern tíma fáruðust rithöfundar mikið yfir misnotkun á Hljóðbókasafni Íslands – sem lánar um 270 þúsund bækur á ári – af því það var (leiðréttið mig endilega ef þetta er rangt) ekki tekið með í úthlutun úr bókasafnssjóði og þar með ekki greitt fyrir útlánin. Þá var líka algengt að fólk væri að lána lykilorðið sitt og svona – ég þekki sæg af fólki sem er hvorki blint né lesblint og hafði í lengri eða skemmri tíma aðgang að hljóðbókasafninu. Og þess utan var bókasafnssjóður minni og þar með minna greitt per útlán. Nú er svo komið að höfundar fá jafnvel talsvert minna fyrir hverja hlustun á Storytel en þeir fá fyrir útlán á hljóðbókasafni – þótt það fari eitthvað eftir lengd bóka, ef ég skil formattið rétt (en það er líka frumskógur að skilja tekjumódel Storytel). Hildur Knútsdóttir segir hér frá því að hún fái 32 krónur fyrir hverja hlustun á Myrkrið milli stjarnanna , en 70 krónur fyrir Slátt (sem er lengri) – en 131 krónu fyrir hvert útlán í hljóðbókasafninu. Þá hlýtur maður að spyrja sig til hvers Storytel er eiginlega – og af hverju hljóðbókasafnið sé ekki bara opnað fyrir alla? Þá þyrfti að vísu að stækka bókasafnssjóð – en það er ábyggilega tittlingaskítur í stóra samhenginu. Ég hef hins vegar haft ákveðna búbót af því að lesa bækurnar mínar upp – bæði fyrir Forlagið og fyrir Storytel beint. Ég hef gert það í mínu heimastúdíói, í stúdíói Forlagsins, hjá Mugison í Súðavík, hjá forvera Storytel, Skynjun, og í sænsku stúdíói í Västeras. Það er ljúf vinna og kannski ekki frábærlega launuð, en ekki illa launuð heldur. Og ekkert í líkingu jafn illa borguð og streymið. Ég þekki höfunda sem setja ekki bækur sínar inná Storytel – og ég þekki höfunda sem hafa ákveðið að framleiða hljóðbækur sínar alveg sjálfir til þess að losna við milliliðina úr þessu ferli, selja svo Storytel tilbúna framleiðslu og fá meira fyrir hvert streymi. Flestir held ég að vilji samt „vera með“ – viðkvæði Storytel manna (a.m.k. í Svíþjóð) er að streymið sé „hrein viðbót“ við bókamarkaðinn, en á sama tíma og hljóðbókin er í sókn fækkar bókakaupendum. Stór hluti lesenda (alls ekki allir samt) hafa að hluta eða öllu leyti flutt sig inn á Storytel og stunda þar sína bókmenningu. Þar er ekki bara eftir tekjum að slægjast, þótt það þurfi augljóslega að bæta kjörin umtalsvert, heldur því sem er kannski stundum mikilvægara: áheyrn. Ekki þar fyrir að stundum langar mig líka bara að skrifa fyrir sjálfan mig og kannski mína sjö heitustu lesendur. Leevi Lehto sagði að það væri hámarkið – hann vissi sínu viti.