Um reynslu

Sumir rithöfundar eiga það til að telja sammannlega reynslu sértæka reynslu – t.d. kvenlega reynslu og lýsa heiminum þannig að reynsla, sem allir ættu að geta tengt við, virðist fyrst og fremst tilheyra öðru kyninu. Og aðrir rithöfundar eiga það stundum til að telja að öll sértæk reynsla hljóti að vera sammannleg. Að það hljóti að vera hægt að heimfæra allt sem þeir hafi sjálfir upplifað upp á alla aðra.
Þetta er ekki alvitlaust þótt auðvitað séu þetta fyrst og fremst gildrur til að forðast. Það er ágætis þumalputtaregla að ef það virðast bara vera tveir valkostir í boði eru þeir jafnan báðir rangir – eða í öllu falli óþarflega takmarkandi. Í grunninn er öll reynsla sammannleg og ein af furðum mannkyns er hversu fær við erum um að skilja upplifanir sem við höfum ekki lent í sjálf. En við erum líka að sama skapi fljót að alhæfa um slíkar upplifanir, skilja bara klisjukenndustu útgáfu þeirrar upplifunar, fella hana í sama mót og missa af því að öll upplifun er í rauninni sértæk. Og hún er ekki bara sértæk þannig að t.d. konur eigi sameiginlegan reynsluheim sem karlar hafi ekki innsýn í, heldur þannig að hvert og eitt okkar hefur sína eigin sértæku reynslu. Það veit engin kona hvernig það er að fæða öll börn – bara þau sem hún hefur fætt sjálf, og sú upplifun getur verið marglaga og á ólíkum tímaskeiðum, hver fæðing er ekki bara misjöfn heldur er upplifunin af fæðingunni ekki sú sama og upprifjunin af fæðingunni o.s.frv. Þetta á við um alla persónulega reynslu, frá því ómerkilegasta til þess merkilegasta. Rithöfundastarfið gengur þannig alls ekki út á að setja sig í spor annarra þjóðfélagshópa þegar skrifað er um fólk sem tilheyrir öðrum þjóðfélagshópum, einsog gjarnan er haldið fram, heldur að setja sig í spor tiltekinna einstaklinga sem aldrei hafa verið til – en lifa þó sínu eigin heila lífi, margbrotnu og mismeðvituðu. Reynsla þessara einstaklinga þarf ekki að standa reikningsskil við reynslu annarra („raunverulegri“) einstaklinga – en hún þarf auðvitað að vera trúverðug.
***
Það er áreiðanlega að bera í bakkafullan lækinn að skrifa meira sænskt bókmenntaslúður – jafnt þó nú sé að bresta á með bókamessuhelgi í Svíþjóð. Ég skrifa auðvitað slíkt slúður reglulega og nú er Þórdís Gísla búin að skrifa tvær þannig færslur á fáeinum dögum . En í dag hefur bókmenntasvíþjóð logað – a.m.k. á Facebook – eftir að bókmenntaritstjóri Aftonbladet birti manifestó í morgun. Í þessu manifestói byrjar hann á því að segja að hann hugsi um bókmenntaheiminn sem tvö hverfi í stórri borg – annars vegar séu fagurbókmenntirnar í miðbænum en hins vegar vinsældabókmenntir í verslunarhverfi í útjaðri bæjarins. Svo kemur eitthvað alls konar um hámenningu og lágmenningu og eitt og annað um bækur sem sitji þarna á milli – brjóti niður múrana – og sitthvað um að þetta sé nú ekki nógu gott menningarástand, bókabúðum fækki, ekki nema 10% útgefinna bóka fái gagnrýni o.s.frv., það þurfi alltaf að velja og hafna. Svo klykkir hann út með því að af þessum ástæðum (!) hafi hann ákveðið að draga stórlega úr birtingu gagnrýni um fagurbókmenntir og einbeita sér frekar að vinsælli bókum, ekki síst genre-bókmenntum (krimmum, ástarsögum, teiknimyndasögum, sci-fi o.s.frv.
Nú vill auðvitað til að þetta eru þær bækur sem forlögin ýta mest undir – þær sem mest eru auglýstar, fá mesta dreifingu, keypt pláss í bókabúðum og á forsíðum netbókaverslana – og því finnst ýmsum nóg um að síðasta vígi fagurbókmenntanna, kúltúrsíður stóru dagblaðanna, sé að falla. Maður spyr sig líka hvað hafi breyst – kannski var einhvern tíma tími, einsog Will Self bendir reglulega á , þegar krefjandi fagurbókmenntir voru meira áberandi á metsölulistunum, en það var þá gullöld, eitthvað augnabliksástand. Doris Lessing var kannski vinsæl en hún seldi aldrei nema brotabrotabrot af því sem Sidney Sheldon seldi. En hún fékk ábyggilega fleiri ritdóma, meiri akademíska athygli, bækur hennar lifðu lengur í umræðunni og hún var almennt áreiðanlega tekin öðrum tökum – með þeim rökum, hélt ég, að það væri meira að spekúlera í. Það gerir varla minna úr afþreyingu að fullyrða að hún kalli síður á krufningu? Eða er það er ekki það sem gerir hana eftirsóknarverða sem afþreyingu? Sem þýðir auðvitað ekki að það sé tilgangslaust að spá í poppkúltúr (hér má skrolla upp og skoða aftur fullyrðinguna um það þegar það eru bara tveir valkostir í boði).
Þetta hefur annars þegar haft þær afleiðingar – fyrir utan pistlaraðir á Facebook, og m.a.s. nokkra í vefmiðlunum nú þegar – að einn gagnrýnandi blaðsins, með 40 ára starfsreynslu, sagði upp störfum með þeim orðum að starf gagnrýnandans fælist ekki síst í því að „bera kennsl á gæði og sortera burt ruslið“ og slíkt væri ekki í boði undir slíkri ritstjórn, og leiklistarritstjóri Aftonbladet hefur séð sig nauðbeygða til að lýsa því yfir á Facebook að hún muni ekki fara sömu leið og láta bara gagnrýna vinsælustu sýningarnar – heldur muni hún eftir sem áður láta gæði ráða för.