Hress

Síðan ég hætti að drekka kaffi er ég farinn að vera fremur syfjaður á kvöldin. Sem sagt, nokkuð fyrr en ég kæri mig um að vera syfjaður. Ég veit ekki hvað það á að þýða. Ég ætlaði reyndar aldrei að vera kaffilaus nema í mánuð og hann er löngu liðinn, mér hefur bara ekki tekist að ákveða hvenær fari best á því að ég byrji aftur á þessum dásamlega ósið. Kannski er ég bara að bíða eftir því að ég sakni þess nóg. Ég verð líka að viðurkenna að þótt ég hafi ekki alltaf sofið jafn vel frá því að ég hætti – og þótt ég hafi raunar byrjað að sofa betur strax í sumarfríinu í Montpellier – þá hef ég samt sofið betur en ég geri venjulega. Ég fékk fyrsta eintakið af Náttúrulögmálunum í hendurnar í vikunni. Hún er fjarska falleg. Svo falleg að ég hef ekki skilið hana við mig síðan ég fékk hana. Tek hana með mér í vinnuna á morgnana og heim á kvöldin. Ekki að ég sé að nota hana neitt, mér finnst bara gott að hafa hana hjá mér. Svo les ég upp úr henni á helginni – og sveifla henni framan í fólk. Aram lagaði kvöldmat upp úr Plokkfiskbókinni í dag. Hann bað sjálfur um að fá að laga mat einu sinni í viku og hefur gert lasagna og velskan héra (welsh rarebit) og fleira í haust. En mér þótti auðvitað sérstaklega vænt um að hann skyldi laga plokkfisk upp úr Plokkfiskbókinni. Og hann var líka óvenju góður – vel pipraður einsog mér finnst best. Annars er fátt að frétta nema rólegheitin.