*** Þetta er það sem ég er að fást við. Leikverkið verður frumsýnt í mars en sagan mun fylgja mér lengur – þetta verður líka skáldsaga og hugsanlega kemur hún ekki fyrren 2019. Í öllu falli ekki fyrren í fyrsta lagi haustið 2018. *** „Eiríkur, er ekki stafsetningarvilla í tilkynningunni?“, spurði vinur minn í gær. Og átti við orðið „hán“. Hans Blær er hán – ekki hún, ekki hann, heldur hán. Það beygi ég svona: Hán
Hána
Hánum
Hánar. *** Hans Blævi beygi ég svona: Hans Blær
Hans Blæ
Hans Blævi
Hans Blævar *** Einhvern tímann var hán byggt á Milo Yiannopolous – en það er ansi langt síðan. Og það eru fleiri einstaklingar skyldleikaræktaðir við Hans Blævi núorðið – hán raðar á sig ættingjum, bæði úr röðum góða fólksins og vonda fólksins, og á sennilega eftir að bæta á sig nokkrum til viðbótar. *** Ég er búinn að skrifa fyrsta handrit að leikritinu en er að endurskrifa það (hættan er auðvitað sú að ég breyti einhverju drastísku og allur kynningartextinn fari á hliðina, en það verður þá bara að hafa það – það skiptir meira máli að verkið verði rétt en að kynningartextinn verði það). Þetta er móralskt jarðsprengjusvæði og ég hef ekki nokkurn rétt til að vera þar. En rithöfundurinn er í sjálfu sér alls staðar í óleyfi – við þetta vinnur maður, tilfinningalegt, siðferðislegt og pólitískt trespassing. *** Ég er að reyna að gæta mín á að verða ekki of sínískur samt. Maður vinnur líka við að elska, láta sér þykja vænt um fólk og bera virðingu fyrir því. Sem er erfitt þegar aðalsöguhetjan – sú sem maður elskar meira en allar hinar – er viðundur og illmenni. Hán er ekki viðundur eða illmenni fyrir að vera trans – það er hánum sennilega ekkert nema siðferðisleg fjarvistarsönnun, átylla til þess að geta leyft sér að níða skóinn af gapandi réttlætisriddurum, hluti af tröllalátunum. Og þar með alls ekki víst að hán sé trans – í eiginlegum skilningi þess hugtaks, að hán hafi leiðrétt kyn sitt frekar en bara skipt vegna þess að það hentaði. *** Það hentar hánum að vera transi því það eitt og sér gerir íhaldsbullurnar vitlausar. Og það hentar hánum að vera transi því að vinstraliðið kann ekki að hantera í hánum fasismann. *** Hans Blær er fyrst og fremst tröll. Allt annað í persónu hánar tekur mið af því af því að hán vill gera fólk vitlaust. *** Þetta er fréttatilkynningin: Hafið þið nokkurn tíma spurt ykkur hvaða eiginleika manneskja þyrfti að hafa til þess að þið gætuð verið þess fullviss að viðkomandi væri að öllu leyti, innra sem ytra, óferjandi skíthæll og viðundur?
Og ef ekki – Hvers vegna í ósköpunum ekki? Hans Blær Viggósbur er gjálífiströll með uppleysta sjálfsmynd, ofvirka tískuvitund og egó í hjartastað. Hán er glundroðamaskína í fjölkynja líkama sem lifir fyrir það eitt að storka heiminum og trekkja upp hina viðkvæmu. Allt frá því hán komst fyrst í tæri við hamstrahjól fjöl- og félagsmiðlunar hefur Hans Blær verið á milli tannanna á þjóðinni, sem sýpur hveljur og skríkir til skiptis, en skemmtir sér alltaf vel. Þegar upp kemst að Hans Blær hefur notað nauðgunarmeðferðarheimilið Samastað til þess að svala afbrigðilegum fýsnum sínum er hugsanlegt – rétt svo hugsanlegt – að samfélagið hafi loks fengið nægju sína og þjóðin sé hætt að flissa. Óskabörn ógæfunnar og Eiríkur Örn Norðdahl unnu síðast saman að leiksýningunni Illska sem hlaut sex tilnefningar til Grímunar, þar á meðal sýning ársins og leikrit ársins. Nú matreiða þau ískalt lík tröllasamfélagsins ofan í gapandi vandláta skolta ofurmeðvitaðra hipsterkúreka og réttlætisriddara – á besta stað í borginni – og bera það fram snyrtilega niðursneitt á nýuppþvegnu silfurfati. Skemmtið ykkur í guðanna bænum vel. Þetta verður tótal hatefest.