Ég hef aldrei barið nasista. Svo ég viti. Ég hef reyndar barið svo lítið af fólki að það er ólíklegt að það hafi gerst óvart heldur. Þegar ég hugsa út í það hef ég sennilega ekki barið neinn. Ekki einu sinni þegar ég var barn. Ég slóst nokkrum sinnum á grunnskólalóðinni og a.m.k. einu sinni fyrir utan ball – en var þá aðallega barinn sjálfur. *** Ég vona samt oft að nasistar verði barðir. Mér finnst þeir eiginlega ekki eiga neitt betra skilið. Ég er heilt yfir friðarsinni – en mér finnst samt ekki að það eigi að leyfa ISIS að vaða uppi. Eða nasistum. Sennilega væri heillavænlegast ef ofbeldisfólk – og þeir sem hóta ofbeldi, sem nasistar gera, stjórnmálastefna þeirra gengur út á að beita fólk óheyrilegu ofbeldi – væri einfaldlega tekið úr umferð. Stefnan væri bara ólögleg – á einhverjum kvarða auðvitað. Ég á ekki við að það ætti að fangelsa fólk fyrir að senda (kaldhæðnislausar) hitlerskveðjur. En það mætti kannski sekta fyrir það, svona einsog að kasta sígarettustubbum eða fara yfir á rauðu ljósi. Sama mætti svo gilda um klerka sem mæla með kynfæralimlestingum stúlkubarna eða öðru „heiðursofbeldi“. *** Það er ekki gert. Ég skil sosum punktinn líka með tjáningarfrelsið. Og vil ekki gera lítið úr honum – heimurinn er fullur af mótsögnum og þetta er ein af þeim. Tjáningarfrelsið er ekki absolút, hefur aldrei verið það – og spurningin er alltaf hvar eigi að draga línuna frekar en hvort eigi að draga hana. Sumir tala um „tjáningarfrelsi en …“ fólkið – en staðreyndin er sú að þjóðfélagið allt styður þá afstöðu. Ég man varla eftir einum einasta manni sem styður fullkomlega og algerlega óheft tjáningarfrelsi. *** En tjáningarfrelsisumræðuna er ekki heldur hægt að taka án þess að ræða um plattform. Ef við segjum að það sé gott og gilt að skrifa greinar sem gera lítið úr helförinni eða mæla með því að stórir þjóðfélagshópar – hvort sem það eru hvítir karlar, múslimar, kellingar, gyðingar eða aðrir – verði upprættir með öllu, þá eigum við eftir að ræða hvort það sé eðlilegt að slíkar greinar séu birtar. Altso – ef Vísir neitar að birta slíka grein af því hún sé hroðbjóður (sem hún er) er þá Vísir að ritskoða eða bara ritstýra ? Er Vísir að „banna ákveðnar skoðanir“ eða bara að viðhalda ákveðnum standard – reka mannúðlega ritstjórnarstefnu, standa vörð um lýðræðisþjóðfélagið? *** Þetta er málið þegar rætt er um hluti einsog hvort Milo Yiannopolous megi tala á bandarískum kampus. Fólkið sem mótmælir mótmælir því ekki að hann megi segja það sem hann vill – fólk segir miklu verri hluti úti um allt. Það mótmælir því að honum sé veittur aðgangur að plattformi sem því þykir vænt um – það mótmælir því að standardinn sé lækkaður. Svona einsog fólkið sem segir upp Morgunblaðinu af því að Davíð fær að blogga yfir ritstjórnargreinarnar. Nema hvað það er auðveldara að segja upp mogganum en að skipta um háskóla. *** Eða hvort nasistatímaritið Nya Tider fái að vera með á bókamessunni í Gautaborg. Eða hvort nasistasamtökin Norræna mótstöðuhreyfingin (SIC! – svona þýddu íslenskir meðlimir hreyfingarinnar nafnið á íslensku, enda kunna þeir ekki íslensku) megi marsera í gegnum miðbæinn í Gautaborg á sama tíma – þeir kalla það „stærstu göngu þjóðernissósíalista á norðurlöndum frá seinni heimsstyrjöld“. *** Þegar rasistaáróður á borð við kröfugöngur nasista eða aðgang þeirra að fjölmiðlum er ræddur er hann yfirleitt ræddur út frá heimamönnum – eða út frá hvítu fólki. Spurt er: Er sennilegt að þessi grein hérna á Vísi geri fleira hvítt fólk að rasistum? Þetta er í sjálfu sér góð og gild spurning en ég er ekki viss um að svarið sé alltaf já – kannski oftar ekki. En það verður líka að spyrja hvaða áhrif það hafi á hina – hvaða áhrif það hafi á hörundsdökkt fólk á öllum aldri að það verði fullkomlega eðlilegt að dagblöðin spyrji hvort þau séu verð lífs, trúar eða vegabréfs. Og ég held að þau áhrif séu ívið verri – ég ímynda mér a.m.k. að ég tæki því afar, afar illa ef svo væri rætt reglubundið um mig eða börnin mín, systkini og foreldra. *** Á lögreglan að banna svonalagað? Eða réttara sagt – á hún að sleppa því að leyfa svonalagað – til dæmis gönguna? Því enginn gengur án leyfis frá lögreglunni. Það er óhugsandi að ganga einsog þessi í Gautaborg í september fari fram með friði og spekt – og eiginlega óhugnanlegri tilhugsun að hún geri það en að allt fari í bál og brand. Of mörgu fólki stendur of mikil ógn af „stefnunni“. Ég vona að ég lifi ekki að sjá þann dag þegar ekki verða átök um kröfugöngu hundruð ef ekki þúsunda yfirlýstra þjóðernissósíalista í einni af helstu borgum norðurlanda. Þá hefur eitthvað mikið farið úrskeiðis. *** Og ef gangan fer ekki fram með friði og spekt er þá lögreglan að veita ófriðnum samþykki sitt? Með því að veita nasistum gönguleyfi lofar hún að tryggja öryggi þeirra. Og verður þannig peð í höndum ókræsilegustu „stjórnmálamanna“ samtímans.