Það fer allt í taugarnar á mér í dag. Bókstaflega allt. Sennilega þýðir það þá frekar að sökina sé að finna hjá mér en öllu – en ég útiloka þó ekki að allt sé einfaldlega glatað, óviðbjargandi vitleysa, stjórnlaus hégómi og rugl. *** Ég notaði helgina í að setja upp hillur og koma með bækur á skrifstofuna. Þrjár stórar billyhillur og svo var hér ein vöruhilla fyrir, sem geymir nú bækurnar mínar – það er að segja eintök af bókunum sem ég hef skrifað. Dró líka fram bókmenntaverðlaunabikarinn minn og Don Kíkóta styttuna. Gunnar – myndlistarmenntaði maðurinn í næsta herbergi – sagði að bókmenntaverðlaunin væru ljót, en það þýddi ekki endilega að ég hefði ekki verið vel að þeim kominn. Kannski fer líka allt í taugarnar á honum í dag. *** Þetta eru aðallega ljóðabækur – svo bókmenntatímarit og bækur um bókmenntir, einhver örlítil heimspeki og svo allar „Illskubækurnar“, bækur um popúlisma, helförina og öfgahægrið. Á borðinu hjá mér eru svo bækurnar sem hef í huga meðan ég skrifa Hans Blævi. Transgender Voices – Beyond Women and Men, The Guilt Project: Rape Morality and the Law, Happiness: A history, Colonel Barker’s Monstrous Regiment og How To Make Love Like A Porn Star. Að minnsta kosti í augnablikinu. *** Það er góð tilfinning að vera búinn að bóka sig svona upp. Nú þarf ég bara að raða ljóðabókunum í stafrófsröð – annars gengur víst ekkert að finna þær. ***