Ég held að það sé þreytumerki að mig langar mest að tjá mig bara um Eflingardeiluna. Eða Brotkast Frosta Logasonar. Eða eitthvað annað af því sem er í deiglunni. Instagram vikunnar. Gengi landsliðsins á HM – er það búið? Erum við hætt að rífast um það? Ég sá að fyrirliði danska landsliðsins – sem datt í það eftir sigurinn – lét hafa eftir sér að mannshöfuð væri þungt. Það er nú eitthvað sem taka mætti upp hér á þessum síðum. Fyrst: vinnuskýrsla. Ég hef náð lágmarkinu alla daga. Tvisvar hef ég tvöfaldað það – sem er nokkuð sem ég forðast, ég vil ekki gera þetta á sprettum – og í bæði skiptin var það föstudagur. Hvað sem það á að þýða. Álíka oft hefur lágmarkið náðst með herkjum, sem er ekki heldur optimalt. Í gær vaknaði ég með höfuðverk og pirraður og byrjaði daginn á ritstjórnarmóð sem kostaði mig þúsund orða holu sem ég svo vann upp. Alveg þar til fyrir svona fjórum dögum svaf ég vel en þá datt ég úr sinki og hef verið illa haldinn af svefnleysi síðan. Í nótt gafst ég bara upp og fór á fætur – með viðlagið í Los Ageless eftir St. Vincent á viðstöðulausri lúppu í höfðinu („how can anybody have you and lose you and not lose their mind too“). Settist niður og skrifaði í næturþögninni og var búinn með lágmarkið fyrir klukkan 7. Ég hlustaði á Will Self flytja fyrirlestur í gær. Eða horfði á 5 ára gamla upptöku af slíkum fyrirlestri, réttara sagt. Þar var hann á kunnuglega svartsýnum nótum og fannst mjög lítið til alls konar koma. Meðal annars sagði hann að stærstu bækur samtímans – þær tvær bækur sem hefðu verið stærsta „water-cooler augnablikið“ í vestrænum (eða bara breskum) bókmenntum síðustu áratugi væru ómerkilegar. Bækurnar sem fönguðu ímyndunarafl þjóðanna, fólksins við vatnskælanna, sem allir höfðu skoðun á. Aðra þeirra – Söngva Satans – hefði eiginlega enginn lesið og það væri óþarfi því hún væri ekki góð og það vísaði aldrei neinn til hennar „sem bókmenntaverks“ því við vissum að hún væri ekki góð. Hina hefðu allir lesið og mjög margir hreinlega upphátt – Harry Potter og viskusteinninn , og ekki væri hún skárri. Það sem hefur elst verst úr þeim ranti er merkilegt nokk varnarræða hans fyrir JK Rowling, sem hann segir að allir séu sammála um að sé afskaplega viðkunnanleg og vel gefin kona, sem enginn skilji hvernig hafi getað skrifað svona hræðilega sögu. Það var ekki löngu eftir þetta að Rowling fór í Twitter-meltdown og eftir það hefur eiginlega engum dottið í hug að kalla hana viðkunnanlega – en margir raunar orðið til þess að verja bækurnar sem góðar þrátt fyrir að höfundurinn sé skass. Will Self sagði fleira. Til dæmis að ritlistin – sem hann kennir, vel að merkja – sé eins konar dvalarheimili skáldsögunnar, þangað sem hún hafi komið til þess að kalka í friði og drepast. Hann, sem leiðbeinir fólki á doktorsstigi, hló líka mjög innilega að því að hægt sé að taka doktorsgráðu í ritlist – og að fólk sem er að klára sína fyrstu skáldsögu sé látið skrifa 35 þúsund orð um sitt eigið skapandi ferli. Einsog maður viti eitthvað um það, hafandi skrifað eina andskotans skáldsögu. Hann talaði líka illa um Philip Roth og vísaði því eiginlega á bug að nokkur skyni gefinn maður gæti eytt nægum tíma í að hugsa um Norman Mailer, hvað þá lesa hann, til að vera illa við hann. Og fleiri – hann talaði illa um of margt til þess að ég geti rakið það allt hér. Í grunninn snerist fyrirlesturinn – sem hafði yfirskriftina Skáldsagan á tímum Trump – um að skáldsagan væri þýðingarlaus, tími hennar væri liðinn, og kæmi ekki aftur. Ekki vegna þess að listformið væri dautt eða einskis virði heldur vegna þess að stærstur hluti fólks hefði ákveðið að sér stæði á sama um hana. Fólk hefði kannski aldrei lesið mjög mikið en allir hefðu haft áætlanir um að gera það einhvern daginn – I’ll read the classics when I retire, sagði fólk. Og trúði því, sem Self segir að sé vitleysa, að innra með öllum sé a.m.k. ein skáldsaga. Allir geti skrifað eina skáldsögu. Af því það hafi verið álíka gerningur að segja einhvern skáldsögulausan og að segja viðkomandi sálarlausan. Slík hafi verið staða skáldsögunnar meðan hún hafði þýðingu fyrir þjóðfélagið. Nú þykist fólk ekki einu sinni lesa lengur. Mér varð oft hugsað til þess sem ég las einhvern tíma í vetur um að gagnrýnendur – og í þessum skilningi held ég að Will Self teljist gagnrýnandi – sem hafa trú á menningunni leyfi sér að vera svartsýnir og neikvæðir, en þeir sem hafi í raun litla trú á henni finnist þeir stöðugt þurfa að tala hana upp, styrkja hana, hugga hana: þú getur þetta, þú ert frábær . Nú er ég ekki að segja að Will Self sé í raun bjartsýnismaður sem hafi óbilandi trú á menningunni sem hann úthúðar – en ég fæ það á tilfinninguna að hann sé að prófa hana, athuga hvað hún þolir, á þeirri forsendu að ef hún þoli ekki álagið sé hún einskis virði hvort eð er. Hann sparkar og á hálft í hvoru von á því að draslið falli saman – þá er hann í versta falli frjáls. Svo er hann auðvitað líka bara að skemmta og velta sér upp úr eigin tilfyndni – sem er talsverð. Af skyldum meiði er svo óttinn við fagurfræðileg átök. Að finnast maður ekki þurfa að dæma listaverk út frá forsendum listamannsins sem skapaði það, heldur leyfa sér að dæma það út frá sínum eigin. Þá getur maður til dæmis sagt: Hér er allt frábærlega gert, allt gengur upp sem listamaðurinn ætlaði sér, og þetta stenst fullkomlega samanburð við álíka listaverk, en þetta er engu að síður íhaldssamt, gamaldags, tilgangslaust og maður ætti heldur að lesa fyrirmyndirnar. Hér er alls ekki síður við akademíuna að sakast en popúlismann – akademían kallar jafnvel ekki annað „fagleg vinnubrögð“ en þau vinnubrögð sem ganga út frá ætlun listamannsins, a.m.k. fyrst og fremst ef ekki einni saman. Ég held að þetta sé sérstaklega algengt í minni menningarheimum þar sem maður er hreinlega óvanur því að allir teknískir fletir listaverks gangi upp – allt er gert af svolitlum vanefnum – og þá klappar maður ósjálfrátt bara fyrir því að ljósin hafi virkað, enginn hafi sungið falskt, leikararnir ekki dottið, rithöfundarnir stafsett rétt og svo framvegis. Sem er auðvitað líka verðskuldað – stór hluti listarinnar snýst um að renna ekki á rassgatið of oft – en í hamaganginum gleymum við stundum að verkið sem við fengum í hendurnar hafði kannski annan tilgang en að ganga teknískt upp. Það átti kannski líka að segja manni eitthvað. *** PS. Hér verður hugsanlega bloggað dálítið stopult næstu vikurnar. Ég minni á póstlistann (sjá hér að neðan) fyrir þá sem vilja ekki þurfa að endurhlaða þessa síðu á tíu mínútna fresti alla daga.