Stærsti kosturinn við að vera lasinn rithöfundur er að þurfa ekki að fara fram úr til að byrja að vinna. Maður teygir sig bara í íbúfendunkinn, fartölvuna og kókflöskuna, treður svolítið af extrakoddum undir bakið á sér og byrjar að ljúga. Stærsti ókosturinn er að höfuðverkurinn – sem maður losnar aldrei alveg við, sama hvað maður tekur margar íbúfen – hægir á allri hugsun og hefur áhrif á hjartað, á tilfinningalífið, sem smita sér inn í bókina. Það vildi til að það fyrsta sem ég þurfti að skrifa í dag var lýsing á manni sem vaknar við óútskýranlegar þjáningar (ekki hræðilegar – bara óútskýranlegar). Á morgun þyrfti ég helst að skrifa gleðilegri kafla en hef litla von um að mér verði batnað að ráði. Þetta er hræðileg flensa (ekki óútskýranleg, bara hræðileg) og ég verð áreiðanlega flatur í nokkra daga til. Annar ókostur, sem hefur ekki bara með starfið að gera, er sá að þegar ég er lasinn hef ég skerta einbeitingu til lesturs. Það er mjög miður – því það myndi sannarlega gylla sótthitavímuna að geta gleymt sér í bók. Ég get alveg lesið en ekki nema svona hálftíma í senn. Ég er líka að lesa mjög góða bók – The Book of Dave eftir Will Self, sem fjallar um alkóhólíseraðan og lífs-reiðan leigubílstjóra í foræðisdeilu sem verður á að skrifa hálfgerða biblíu í geðrofi, um „ the knowledge “ (gatnakerfið í Lundúnum) og foreldrajafnrétti (þar sem hallar pínupons á konur). 500 árum síðar í post-apokalyptísku og kynjaskiptu samfélagi Lundúnaborgar er bók Daves orðin að raunverulegu trúarriti. Og stefnir í uppgjör. Mikið af samræðunum í bókinni eru skrifaðar á framtíðar-cockney mállýsku sem er ekki alveg fyrir lasna heilann í mér að greiða úr – þótt það sé mjög ánægjulegt annars. Iss tym, Runti, Carl cooed, tym fer yer slorta, yeah? Ve Acks partë ul B eer vis tariff or ve nex, an Eye gotta tayk yer bak 2 ve manna.
– Slorwa, the moto said wonderingly, slorwa.
– Thass rì, Runti, slorta. Weel uze yaw meet 2 feed ve Ack an iz dads, yer oyl fer vair woonz, an yul be wiv Dave á lars, yeah.- In Nú Lundun.
– Yeah, thass rì, Carl said, kissing Runti delightedly, in Nú Lundun. Will Self segir sjálfur einhvers staðar að skáldsagan (sem slík, listformið) sé fullkomlega sjálfstæð heild í þeim skilningi að hún kenni manni að lesa sig sjálf, allar upplýsingar sem maður þarf eigi að vera í henni sjálfri. Að ef maður rekist á orð sem maður skilji ekki eigi maður ekki að smella á kindilinn sinn til að fá skilgreininguna (eða „a brief video where trained thespians act it out“) – það er óeðli og Will Self hatar tölvur – heldur eigi maður að bíða þess að orðið birtist aftur í nýju samhengi og útskýri sig þannig smám saman. Svona einsog maður lærir flest orð, eiginlega, við sem erum með Gutenbergheila. En í Book of Dave er samt orðalisti aftast upp á fleiri, fleiri blaðsíður. Hins vegar er satt að þetta venst hratt – og í raun þarf maður ekki orðalistann nema bara rétt til að koma sér af stað í algengustu hugtökunum (mikið af orðunum eru úr leigubílabransanum en fá nýja merkingu – headlight er t.d. sólin o.s.frv.). Annað sem ég hef tekið eftir er að Self, sem hatar líka Harry Potter bækurnar, kallar geðsjúkrahúsið sem Dave fer inn á „St. Mungo’s hospital“. En það sjúkrahús er, eftir því sem ég kemst næst, hvergi að finna nema í þessari bók – og svo auðvitað í Harry Potter bókunum.