Einsog lesendur Fjallabaksleiðarinnar vita erum við svefnguðirnir ekki miklir vinir og eigum af og til í blóðugum erjum. Síðustu árin hefur það oftast snúist um einhvers konar áráttuhugsanir – ég get legið og hugsað um einfaldasta hlut, stutta melódíu eða setningu, aftur og aftur og aftur klukkustundum saman, án þess að mér sé fært að sleppa takinu. En þar á undan var það lengi vel svonefnd fótaóeirð sem hélt mér vakandi. Fótaóeirð, fyrir þá sem ekki þekkja til, er einhvers konar ójafnvægi í járn- og dópamínbúskap líkamans sem veldur undarlegri kláða- eða kitltilfinningu í fótum, og stundum öðrum útlimum líka, svo maður verður að hreyfa sig. Þetta getur byrjað vægt og manni dugað að sparka út í loftið en endar sjaldan þar og fyrren varir er maður farinn á fætur og byrjaður að ganga um gólf. Ef maður gengur nógu lengi kaupir maður sér smá auka kyrrstöðutíma í rúminu sem hægt er að nota til að festa svefn. Sofni maður vaknar maður ekki endilega af fótaóeirðinni – þótt það geti sannarlega gerst – heldur sparkar áfram út í loftið og getur þessi svefn af þeim sökum orðið ansi þunnildislegur. En þó betri en ekkert. Fyrsta skýra minningin mín af fótaóeirð – þar sem ég veit að þetta var fótaóeirð – er frá því ég er svona 26 ára. Sem er vel að merkja mjög ungt, flest fólk verður ekki fyrir þessu fyrren löngu síðar á ævinni. Þá lá ég undir sæng í rúminu á sunnudagskvöldi eftir eitthvað djamm, með tölvuna í fanginu að horfa á óeftirminnilegt hollywoodsorp af PirateBay, og muldi yfir mig snakk í kósíheitunum. Og sem sagt var með svona undarlegan kláða – sem ég man samt ekki sem ókunnuglegan, þetta var „æi þarna þessi skrítnu kláðaóþægindi“, kannski hef ég verið með þetta frá unglingsárunum – og neyddist til að stinga fótleggnum undan sænginni og láta hann hanga fram af rúmstokknum niður á gólf. Af því fótaóeirðin elskar ekkert meira en lárétta limi, lét hún mig síðan mestmegnis í friði. Gott ef ég svaf ekki bara með fótlegginn svona fram úr. Þetta byrjaði svo af einhverri alvöru í kringum þrítugt – kannski í tengslum við þær eðlilegri svefntruflanir sem verða við það að eignast barn. Árunum 2009 til 2012 eyddi ég að miklu leyti í næturráp. Þá vissi ég líka orðið hvað þetta var og prófaði alls konar sem internetið mælti með – járntöflur, magnesíum, hamslaust bananaát, teygjur og æfingar – en án árangurs. Það var ekki fyrren að ég lenti í öðrum heilsubresti – þegar við Nadja skildum áramótin 2012-2013 (við tókum aftur saman síðar) át ég ekkert í mánuð og missti 17 kíló. Þegar ég var að jafna mig eftir þetta fór ég líka að hreyfa mig, sem ég hafði eiginlega aldrei gert, og upp frá því dró allsvakalega úr fótaóeirðinni. En hún lætur alltaf á sér kræla af og til samt. Í gegnum árin hef ég uppgötvað alls konar triggera. Til dæmis get ég ekki notað antihistamínlyf án þess að verða mjög illa haldinn. En antihistamínlyf eru t.d. ofnæmislyf, hóstasaft (pektólín) og … svefnlyf! Einu sinni var ég í San Francisco með Nödju og út af veseni með flugið varð úr að við millilentum í Stokkhólmi, tókum þar við krökkunum á flugvellinum frá tengdapabba, flugum áfram til Íslands, keyrðum beint vestur og krakkarnir byrjuðu í skóla daginn eftir. Þar sem mjög reið á að ég – sem var einn um að vera með bílpróf á þessum tíma – væri ekki mjög þreyttur þegar við kæmum fór ég í apótek, bandarískt apótek, þar sem hægt er að fá allt milli himins og jarðar án lyfseðils, og hugsaði mér gott til glóðarinnar. Ég bað um besta svefnlyfið, og aðeins það besta – sem svo hafði þá aukaverkun að ég gat ekki einu sinni setið í fluginu frá San Francisco til Stokkhólms, hvað þá sofið. Annar trigger eru langvarandi legutímabil. Ef ég fæ slæma flensu og fer lítið fram úr dögum saman minnir hún alltaf á sig. Í síðustu viku lagðist ég veikur á miðvikudag og var á föstudagskvöld bærilega vongóður um að komast í Superbowl veislu hjá amerískum vinum mínum á sunnudagskvöldið. En þá sem sagt byrjaði þetta. Ég svaf ekkert yfir helgina, nokkrar klukkustundir á sunnudagskvöld, ekkert aftur á mánudagskvöldið, nokkrar klukkustundir á þriðjudagskvöldið og svo loksins bærilega í nótt. Það er alveg óhætt að segja að ég sé svolítið tætingslegur. Þetta er sem sagt allt formáli að því hvers vegna vinnuvikan mín hefur verið svolítið skrítin. Nú er í sjálfu sér ekkert alltaf hræðileg hugmynd að vinna svolítið þreyttur og ringlaður. Þá fær maður óvæntar hugmyndir og getur sökkt sér í söguna af átrúnaði sem maður getur ekki alltaf þegar maður er fyllilega vakandi – mörkin milli veruleika og skáldskapar mást einfaldlega með minni fyrirhöfn. En að sama skapi er allt analýtískt í heilanum á manni – allt sem lýtur að skiljanlegri setningagerð eða strúktúr – í einum graut. Maður fær frábærar hugmyndir og ryður þeim út úr sér af ástríðu – en situr svo eftir og starir á það sem birtist á skjánum eða blaðinu og veltir því fyrir sér hvort þetta séu setningar eða bara hrúgur af orðum. Og svo vinnur maður í þessum orðahrúgum þar til það sem átti að standa þarna kemur í ljós. Til þess að bæta gráu ofan á svart er maður þá samtímis ófær um að leggja nokkurt mat á gæði þess sem maður var að skrifa – fyrren maður kemur að borðinu bærilega úthvíldur. Flestir höfundar skilst mér að skrifi mörg eiginleg „uppköst“. Þeir skrifa heila bók einu sinni, setjast svo aftur niður yfir fyrstu síðunni og skrifa alla bókina aftur, og svo í þriðja sinn, jafnvel fjórða, fimmta, sjötta og svo framvegis. Þegar þannig er unnið hentar svefnleysisástandið líklega ágætlega til þess að vinna í fyrsta uppkasti – þessum hráa texta sem er fyrst og fremst byggingarefni í hitt. Ég er hins vegar þeim ósköpum gerður að geta þetta ekki. Ef ég skrifa hráan texta og kem að honum aftur mörgum vikum eða mánuðum seinna finnst mér hann bara hræðilegur – og ég hræðilegur að hafa skrifað hann – og hendi honum áður en nokkur maður sér hann og uppgötvar hvað ég er hræðilegur. Eða þá, sem er sennilega jafn algengt, að ég hugsa að það sé nú eitthvað í þessu, byrja að skrifa „annað uppkast“ og uppgötva strax í öðrum kafla að í þessum endurskrifum hef ég sveigt svo hrottalega af leið að hráefnið í köflum 3-34, sem ég hef verið að vinna að síðustu mánuði, er nú ónothæft. Flestar persónurnar dauðar, aðalfókus sögunnar allt annars staðar, sögutíminn annar og svo framvegis. Af þessum sökum hef ég vanið mig á það síðustu 20 árin að klára að skrifa kaflana mína jafn óðum. Ég skrifa nokkrar málsgreinar, lít yfir þær, skrifa nokkrar í viðbót, samræmi og laga, skrifa aftur, skrifa meira, lít aftur á byrjunina, editera o.s.frv. Ég skrifa sem sagt öll uppköstin mín meira og minna samtímis. Þegar ég er kominn með fleiri en 10-20 síður af texta þarf ég svo að fara að gæta mín að bakka ekki of langt, byrja ekki vinnudaginn á byrjun bókarinnar af því annars kemst ég aldrei að auða svæðinu, sem á eftir að fylla upp í, áður en vinnudeginum lýkur, og þar með miðar sögunni ekkert áfram. Þetta þýðir ekki að þegar ég svo setji punkt geti ég bara sent söguna í prentun. Það koma oft upp alls kyn strúktúrvandamál sem þarf að leysa og oft hef ég þurft að endurskrifa stóra hluta – fram yfir Heimsku endurskrifaði ég alltaf sirka síðasta þriðjung allra minna skáldsagna. Og þegar ég segi endurskrifa meina ég einmitt þetta sem ég lýsti áðan – þá sting ég pennanum niður á einum stað og skrifa söguna í aðra átt, með öðru niðurlagi. Í þeim tilvikum vissi ég hvar ég vildi að bókin endaði en ekki fyrren ég var búinn að skrifa einhvern annan endi fyrst. En ég get ekki nema ýtt mjúklega við pennanum og beðið kurteislega – það er alltaf að endingu hann sem ræður þessu. Hvað sem líður flensum og fótaóeirðum gengur nýja bókin vel. Ég hef haldið dampi alla dagana – en kannski slegið slöku við í glósum og slíku, sem gæti kostað mig ef næstu vikur verða ekki líka pródúktífar. Sagan hefur lengst töluvert – áætluð lengd er nú 120 þúsund orð en ekki 90 einsog var hérna þegar ég lýsti því yfir að ég væri hálfnaður. Til samanburðar er Brúin yfir Tangagötuna 45 þúsund orð – Hans Blær er 95 þúsund orð og Illska er 165 þúsund orð. Þetta þýðir auðvitað ekki að nýja bókin – sem ég hef ekki nefnt enn, ég er ekki bara að leyna ykkur titlinum – verði 120 þúsund orð. En fyrsta handrit verður nálægt því og áreiðanlega ekki styttra. Svo er hún þannig sköpuð að hún gæti hæglega blásið út og skroppið saman í eftirvinnslu. Það er talsvert af alls konar útúrdúrum og aukaupplýsingum – en ég held líka að allt það sé órjúfanlegur hluti af minni fagurfræði og beinlínis það sem „mínir“ lesendur búist við og vilji. Og ég hef ekkert á mót því að verða við því heldur. Svo er bara að vona að ég sofi bærilega næstu 58 dagana. Því þrátt fyrir allt hið ágæta sem fylgt getur svefnleysinu er þetta nú engu að síður umtalsvert auðveldara ef maður sefur á nóttunni.