Dagur 34 af 90: Sparimerkin

Í fyrrinótt vaknaði ég og fór á fætur. Klukkan hefur sennilega verið að ganga fimm og ég hafði legið milli svefns og vöku í einhvern tíma – bylt mér aftur og aftur með hugmynd í höfðinu, varla vitað hvort mig var að dreyma eða ekki. Ég teygi mig oft í símann um nætur og bæti einhverju á mjög, mjög langan lista af glósum sem ég skrapa alltaf af endrum og eins, en þessi hugmynd var einhvern veginn stærri og ég var þess utan ekki alveg viss hvort að hún – eða eitthvað bergmál af henni – væri kannski í sögunni nú þegar. Ef satt skal segja var ég ekki heldur alveg með það skýrt í kollinum hver þessi hugmynd væri – en hún hafði eitthvað að gera með „kvenfélagið“ og „sparimerkin“ og hún var lykilatriði fyrir lausnina á sögunni, þetta var hugmyndin sem fengi allt til að ganga loksins fullkomlega upp, og ég var með þráðinn í hendinni – þurfti ekkert að gera nema að toga almennilega í hann áður en hann skryppi undan. Og þá fór ég á fætur, ráfaði niður og fór að leita að tölvunni minni – sem fannst eftir drjúgt korter undir púðum í sófanum þar sem einhver (ég ætla ekkert að fullyrða neitt um hver) hafði verið að nota hana til að horfa á Julie & The Phantoms. Ég þreif hana með mér inn í eldhús og stillti henni upp á lífrænu ruslakörfuna okkar sem stendur uppi á eldhússkenknum. Þetta hljómar kannski undarlega en þarna geymi ég oft tölvuna ef ég er að horfa/hlusta á eitthvað meðan ég elda – uppá síðkastið hef ég t.d. horft/hlustað á mikið af höfundaviðtölum á YouTube – og þar er hún í þægilegri hæð fyrir mig standandi. Og stundum skrifa ég eitthvað smá – ég er alltaf að skrifa eitthvað smá, les yfir málsgrein meðan ég bíð eftir krökkunum, bæti inn einhverju smáatriði milli sjónvarpsþátta á kvöldin og krydda bókina milli þess sem ég krydda kvöldmatinn. Ég byrjaði á því að leita að „kvenfélögum“ í skjalinu – það var eitthvað smávegis um kvenfélög en ekkert sem ég vissi ekki hvað var eða hvert átti að leiða og alls ekkert sem tengdist neinum sparimerkjum. Þá leitaði ég að sparimerkjum og fann hvorki tangur né tetur af þeim – ég hafði greinilega enn ekkert skrifað um nein sparimerki. Loks ætlaði ég þá að skrifa glósuna, svo ég gæti skrifað sparimerkjahugmyndina almennilega seinna, koma hugmyndinni frá mér, fyrst hún var greinilega enn ekki komin á blað – ég vissi að hún yrði löng, svo ég dró andann djúpt, kannski kæmist ég ekkert aftur í rúmið fyrir fótaferðartíma – og þá rann alltíeinu upp fyrir mér að sparimerkin voru alls ekki til árið 1925. Sem er sögutími bókarinnar. Og ekki einu sinni næstum því til – skyldusparnaður kom ekki til fyrren ríflega 30 árum síðar. Ég skrifaði samt hjá mér „kvenfélög“. Og síðan fór ég aftur að sofa.