Dagur 37 af 90: Gengi Dahls

Sagt hefur verið frá því í fréttum að málfari í nýjum útgáfum af barnabókum Roalds Dahls hafi verið hnikað til í samræmi við siðferði breyttra tíma. Þannig er fólk í bókunum ekki „feitt“ lengur heldur bara „stórt“, ekki „ljótt“ heldur bara „rosalegt“ og bætt er við sérstakri málsgrein til þess að taka fram að þótt nornirnar í Nornunum séu sköllóttar, þá geti fólk verið sköllótt af mörgum öðrum ástæðum en af því það sé nornir, og það sé nú bara alltílagi. Verandi sköllóttur get ég tekið undir þetta. Maður getur meira að segja verið bæði sköllóttur og annálað illmenni og samt ekki norn, einsog ég þykist hafa margsýnt fram á. Auk þess hafa verið tekin til dæmi um breytingar þar sem vísunum í heimsbókmenntir, sem fallið hafa úr móð, er skipt út fyrir heimsbókmenntir sem þykja enn vera í móð. Matthildur les ekki lengur Joseph Conrad – höfund Heart of Darkness og Nostromo – og nóbelsverðlaunahöfundinn Rudyard Kipling heldur Jane Austen og John Steinbeck, sem þykja enn sem komið er húsum hæf – en það styttist áreiðanlega í að einhver rifji upp stuðning Steinbecks við Víetnamstríðið og það hvernig Jane Austen ber ábyrgð á hegemóníu hins heterónormatífa ástarsambands. Alveg burtséð frá því hvort þetta er rétt eða rangt – því auðvitað er þetta rangt, þetta er glæpsamlega rangt og þess utan svo frámunalega heimskuleg aðferð til þess að fást við fordóma að það ætti umsvifalaust að svipta alla sem komu nálægt henni bæði bókmennta- og aktífistaleyfinu um alla eilífð – þá veltir þetta upp ákveðnum og áhugaverðum spurningum um það hvað það er sem gefi bókmenntum gildi sitt. Hvort það sé bara framvindan, til dæmis? Auðvitað er það rétt að sögur, ekki síst barnasögur, hafa lengi verið í munnlegri geymd og þær hafa breyst mjög í áranna rás. Hins vegar er saga bókmennta nútímans annars eðlis og stórvirki þeirra bókmennta byggja á fleiru en hinum eiginlega söguþræði – þá skiptir ekki mestu máli hvað gerist í sögunni, plottpunktarnir, heldur einmitt hvernig sagan er sögð. Þar skiptir orðfæri og stíll eðlilega lykilmáli. Og þá breytir engu þótt bókum sé stundum breytt í bíómyndir eða sögur endurgerðar á annan hátt – um slíka gjörninga gilda allt aðrar reglur en endurútgáfu á upprunalegum verkum. Hafandi lesið nokkrar bækur eftir Roald Dahl, bæði fullorðins og barnabækur, hefði ég sem lesandi talið að stærsti kostur þeirra – og stærsti galli – sé þessi auðþekkjanlega höfundarödd, hvers helsta einkenni er fremur kvikindisleg lífssýn. Sögumenn Dahls eru í senn saklausir og hrottalegir, einfaldir og veraldarvanir, og það skín í gegnum allt orðfæri. Sú Matthildur sem les Joseph Conrad og hugsar að einhver sé feitur og sköllóttur er önnur Matthildur en sú sem les Steinbeck og finnst allir bara geggjað flottir, nákvæmlega einsog þeir eru. Sú síðari er kannski þroskaðri og meira næs – en það er ekki víst að það geri hana að jafn góðri sögupersónu. Það er nefnilega ekki sami hluturinn. Einsog flestir höfundar sem nokkuð er varið í reynir Dahl líka að forðast hlutlaus orð og hlutlausar lýsingar – enda hlutleysi í texta líka lífleysi, eða allavega hugleysi. En burtséð frá því hvort smekkur manns hallast að slíkum texta eða hinu „tilgerðarlausa“ stílleysi – hinum ósýnilega stíl, sem svo mjög er í tísku – þá hljóta allir að geta sammælst um að það hvernig svona bækur eru skrifaðar er of mikið grundvallaratriði til að það megi bara undir höfuð leggjast þegar þær eru hreinsaðar í nafni viðkvæmnisráðs Netflix (sem á höfundarréttinn að bókum Dahls). Og nei, það er ekki sambærilegt við það þegar Astrid Lindgren gefur sjálf leyfi til þess að einu og einu orði í Línu Langsokk sé hnikað til – bara alls ekki, af og frá. Að síðustu – og alveg burtséð frá stíl – þá held ég að það sé stórhættulegt að börn, og hvað þá fullorðnir, komist aldrei í kynni við siðferði annarra tíma, að þau upplifi siðferðið einsog það er á uppeldistíma þeirra sem eilíft og óbreytanlegt, svo yfir allan vafa hafið, raunar, að því megi beita sem réttmætu leiðréttingatóli á minnstu yfirsjónir fyrri tíma. PS. Það eru ekki bara hjartgóðu mannréttindasinnarnir hjá stórfyrirtækinu Netflix sem haga sér svona heldur hefur Disney nú látið taka stórbók Dons Rosa um Ævi og störf Jóakims Aðalandar úr framleiðslu vegna þess í tveimur sögunum birtast myndir sem þykja niðrandi.